Skiptisagnir Það kom Chomsky á óvart að sumar sagnir geta ýmist tekið með sér frumlag í nefnifalli, eins og algengast er, eða aukafalli.
Skiptisagnir Það kom Chomsky á óvart að sumar sagnir geta ýmist tekið með sér frumlag í nefnifalli, eins og algengast er, eða aukafalli. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Noam Chomsky, oft nefndur faðir nútímamálvísinda, varð 95 ára á dögunum. Hann var lengi prófessor við MIT-háskólann en starfar nú, þrátt fyrir háan aldur, við háskóla í Arizóna. Hann er einn af síðustu fjölfræðingunum, höfundur 150 bóka og…

Tungutak

Þórhallur Eyþórsson

tolli@hi.is

Noam Chomsky, oft nefndur faðir nútímamálvísinda, varð 95 ára á dögunum. Hann var lengi prófessor við MIT-háskólann en starfar nú, þrátt fyrir háan aldur, við háskóla í Arizóna. Hann er einn af síðustu fjölfræðingunum, höfundur 150 bóka og óþreytandi álitsgjafi um málvísindi, stjórnmál og allt milli himins og jarðar. Kjarninn í málvísindakenningum hans er að fólk hafi meðfæddan hæfileika til að tileinka sér tungumál eins og sjáist best af því hvað börn eru fljót að ná tökum á málinu.

Chomsky hefur lengi haft áhuga á íslensku af því að þar eru svo margar óvenjulegar setningargerðir. Íslenska er að mörgu leyti ólík öðrum Evrópumálum en þó nógu lík til að málfræðisamanburðurinn sé markviss. Það var ekki síst fyrir tilverknað Höskuldar Þráinssonar, fyrrverandi prófessors við Háskóla Íslands, og samstarfsfólks hans að íslensk setningafræði komst á „kortið“ í hinum alþjóðlega málvísindaheimi.

Eitt af því sem gerir íslensku áhugaverða er að hún hefur aukafallsfrumlög. Í íslensku þarf frumlag í setningu ekki að standa í nefnifalli heldur getur verið í aukafalli með sumum sögnum: þolfalli, þágufalli eða eignarfalli. Þetta er þvert á það sem kennt var í hefðbundinni skólamálfræði þar sem frumlag var skilgreint sem nafnorð í nefnifalli. Í setningunni Lísa hrinti Nonna er Lísa frumlag í nefnifalli en Nonna andlag í þágufalli. Með sögninni leiðast í setningunni Nonna leiðast apar er því öfugt farið; þar er Nonna frumlag í þágufalli en apar andlag í nefnifalli. Unnt er að sýna fram á þetta með margvíslegum „frumlagsprófum“.

Raunar er málið mun flóknara; sumar sagnir geta ýmist tekið með sér frumlag í nefnifalli, eins og algengast er, eða aukafalli. Þetta eru svo kallaðar „skiptisagnir“, t.d. henta. Þannig er ýmist hægt að segja Mér hefur alltaf hentað þetta eða Þetta hefur alltaf hentað mér. Með slíkum sögnum er nafnliður í fyrsta sæti frumlag, óháð fallinu sem hann stendur í: þannig er þágufallið mér frumlag í fyrri setningunni en nefnifallið þetta í þeirri síðari. Sá sem fyrstur tók eftir þessu var Helgi Bernódusson (1982), þá íslenskunemi í HÍ, síðar skrifstofustjóri Alþingis.

Þegar Chomsky kom til Íslands 2011 í tilefni aldarafmælis HÍ hélt hann tvo fyrirlestra: annan um stjórnmál og hinn um málvísindi og var húsfyllir á báðum viðburðum. Hann átti líka hádegisverðarfund með nokkrum málfræðingum og vitaskuld bar aukafallsfrumlög á góma. Við það tækifæri nefndi ég uppgötvun Helga Bernódussonar um skiptisagnir eins og henta. Chomsky varð forviða. „Getur sama sögnin ýmist tekið frumlag í aukafalli eða nefnifalli,“ spurði hann. „Þetta er alveg óvænt!“ Viðstaddir sáu að síkvikur hugur hans var í óðaönn að henda reiður á þessari staðreynd. Chomsky verður ekki auðveldlega hissa en þarna kom íslenskan honum enn og aftur rækilega – en skemmtilega – á óvart.