Hjón Á myndinni má sjá hjónin Thi Oanh Ngo og Khanh Tuan Dang.
Hjón Á myndinni má sjá hjónin Thi Oanh Ngo og Khanh Tuan Dang. — Ljósmynd/Sólrún Ingunn
Eftirspurn eftir hjónavígslum hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist verulega síðustu vikur og mánuði. Að hluta til er hægt að rekja þessa aukningu til fréttaflutnings Smartlands Mörtu Maríu

Eftirspurn eftir hjónavígslum hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist verulega síðustu vikur og mánuði. Að hluta til er hægt að rekja þessa aukningu til fréttaflutnings Smartlands Mörtu Maríu. Þetta segir Sólrún Ingunn Sverrisdóttir, vígslumaður og fulltrúi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið.

Engar tölur liggi fyrir að svo stöddu um aukninguna, sem skýrist af því að þessi fjölgun giftinga hefur aðallega verið að eiga sér stað mjög nýlega. Sólrún segir það ekki fara á milli mála að aukningin sé veruleg. Hafa starfsmenn sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu ítrekað þurft að bjóða upp á aukatíma fyrir hjónavígslur á síðustu vikum. Töluvert oftar en það sem gengur og gerist, að sögn Sólrúnar. Henni þykir ekki ólíklegt að þetta orsakist að hluta til vegna réttarstöðu sambúðarmaka við andlát, sem er lakari en þegar fólk er gift.

„Ungt fólk virðist meðvitaðra um þetta en áður fyrr. Sambúðarmakar erfa ekki hvor annan og fá ekki leyfi til að sitja í óskiptu búi við andlát skammlífari maka. Því eru miklir hagsmunir sem liggja undir,“ segir Sólrún. Smartland Mörtu Maríu vakti athygli á svörum lögmanna varðandi þessi mál í september og nóvember sl. og vakti það mikla athygli. Segir Sólrún að dæmi séu um það að fólk hafi sérstaklega nefnt fréttir Smartlands sem ástæðu þess að það ákvað að láta gefa sig saman.

Síðustu vikur eru það aðallega Íslendingar sem eru að gifta sig en venjulega er stór hluti eftirspurnarinnar frá erlendum ferðamönnum sem gifta sig hér á landi því það getur reynst auðveldara. hng@mbl.is