Heilbrigðiskerfið Frá hausthátíð Hrafnistu í Hafnarfirði. Meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi og ýta þarf á eftir úrræðum í þágu málaflokksins.
Heilbrigðiskerfið Frá hausthátíð Hrafnistu í Hafnarfirði. Meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi og ýta þarf á eftir úrræðum í þágu málaflokksins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á þessu ári urðu 18 Íslendingar 100 ára að aldri, fjórir karlar og 14 konur. Nú eru 40 á lífi sem eru 99 ára og gætu því náð 100 ára aldri á árinu 2024 samkvæmt upplýsingum frá Jónasi Ragnarssyni, sem sér um síðuna Langlífi á Facebook

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Á þessu ári urðu 18 Íslendingar 100 ára að aldri, fjórir karlar og 14 konur. Nú eru 40 á lífi sem eru 99 ára og gætu því náð 100 ára aldri á árinu 2024 samkvæmt upplýsingum frá Jónasi Ragnarssyni, sem sér um síðuna Langlífi á Facebook. Aldrei hafa verið fleiri á þessum aldri og samkvæmt nýrri mannfjöldaspá Hagstofunnar fer meðalaldur þjóðarinnar hækkandi. Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir og framkvæmdastjóri lækninga hjá Hrafnistu, segir kerfið „vægast sagt“ ekki í stakk búið til að mæta þessari breytingu.

Fleiri aldraðir en ungir

Samkvæmt miðgildi mannfjöldaspár Hagstofunnar munu lífslíkur kvenna aukast við fæðingu og verða 89 ár árið 2073 en voru 84 ár árið 2022. Lífslíkur karla hækka úr 81 ári í 84. Eftir árið 2057 verður elsti aldurshópurinn, 65 ára og eldri, fjölmennari en sá yngsti, yngri en 20 ára.

Miðaldur Íslendinga var 36 ár árið 2023 og gert er ráð fyrir samkvæmt mannfjöldaspá að hann verði 45 ár árið 2074.

Úrræðaleysi Landspítalans

Steinunn Þórðardóttir, sem hefur starfað á sviði öldrunarlækninga í 16 ár, segir kerfið finna vel fyrir hækkandi meðalaldri: „Við finnum fyrir mjög vaxandi verkefnum nú þegar þjóðin eldist hratt,“ segir hún en Steinunn vann hjá Landspítalanum áður en hún tók við stöðu sinni hjá Hrafnistu.

„Hafandi verið þennan tíma á Landspítalanum þá sá maður þetta úrræðaleysi gagnvart vaxandi fjölda aldraðra,“ segir hún og segir dæmi um að aldraðir leiti á bráðamóttökuna og leggist í kjölfarið inn á spítalann og bíði mánuðum saman og jafnvel ár eftir herbergi á hjúkrunarheimili: „Ég er þá að tala um fólk sem er orðið algjörlega ósjálfbjarga og þarf mikla aðhlynningu og hjúkrun.“

Þá segir hún fólk þurfa að bíða á legudeild allan þennan tíma og bendir á að aldrei hafi fleiri beðið eftir herbergi á hjúkrunarheimili á legudeild en nú í desember.

Ekki í stakk búið

Þannig að kerfið er ekki í stakk búið?

„Vægast sagt ekki,“ segir hún. Vandamálin séu margslungin og varði allt frá herbergisskorti á hjúkrunarheimilum til einfaldari úrræða svo sem stuðnings í heimahúsum, dagþjálfunar og endurhæfingar. Þá tekur hún sérstaklega fram að þeir sem starfa innan þessa geira séu alveg til í slaginn, en ýta þurfi á eftir auknum úrræðum í þágu málaflokksins.

Frískari á efri árum

Steinunn segir að helstu framfarirnar í málaflokki aldraðra séu í forvörnum og margir vonist til þess að auknar forvarnir á grundvelli lýðheilsu geti að einhverju leyti tekið á vandamálunum sem fylgja hækkandi meðalaldri þjóðarinnar: „Að við verðum bara frískari, eldri og meira sjálfbjarga.“

Hún nefnir að lokum að verið sé að sporna við svokallaðri fjöllyfjameðferð: „Með hækkandi aldri safnar fólk oft að sér mismunandi lyfjum við ýmsu,“ segir hún, en nú sé verið að minnka lyfjagjöf þeirra sem eru mögulega á of mörgum lyfjum. „Það getur oft verið mjög gefandi því maður sér fólk oft snarhressast við að losna við lyf, en maður heldur alltaf að það sé í hina áttina.“

Höf.: Geir Áslaugarson