Veislumatur Deilt var um það hvort mozzarella-ostur væri jurtaostur.
Veislumatur Deilt var um það hvort mozzarella-ostur væri jurtaostur. — AFP/Shannon O'Hara
Endurupptökudómur hefur hafnað beiðni Danól ehf. um að mál fyrirtækisins gegn íslenska ríkinu, sem dæmt var í Landsrétti 11. febrúar 2022, verði tekið fyrir að nýju. Málið snýr að úrskurði tollgæslustjóra um tollflokkun innflutts mozzarella-osts

Endurupptökudómur hefur hafnað beiðni Danól ehf. um að mál fyrirtækisins gegn íslenska ríkinu, sem dæmt var í Landsrétti 11. febrúar 2022, verði tekið fyrir að nýju. Málið snýr að úrskurði tollgæslustjóra um tollflokkun innflutts mozzarella-osts. Segir í úrskurði endurupptökudóms að ekki hafi verið leiddar sterkar líkur að því með nýjum gögnum eða upplýsingum að við meðferð máls Danóls hafi málsatvik ekki verið leidd réttilega í ljós.

Forsaga málsins er sú að 10. nóvember 2020 flutti Danól inn rúmlega 18 tonn af Festino IQF Mozzarella Pizza Mix. Að innihaldi var osturinn rúmlega 80% mozzarella-ostur en 11-12% pálmaolía. Danól flokkaði ostinn í tollskrá sem jurtaost en tollgæslustjóri taldi að flokka bæri hann sem hvers konar rifinn eða mulinn ost. Ef osturinn væri flokkaður sem jurtaostur væri innflutningurinn tollfrjáls.

Danól höfðaði í kjölfarið mál gegn ríkinu og krafðist þess að úrskurður tollgæslustjóra yrði felldur úr gildi. Vísaði fyrirtækið til athugasemdar við ákveðinn kafla í tollskrá um að undir kaflann heyrðu ekki vörur fengnar úr mjólk þar sem einum eða fleiri náttúrulegum þáttum hennar, til dæmis mjólkurfitu, væri skipt út fyrir aðra þætti, svo sem jurtafitu. Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur töldu hins vegar að umrædd athugasemd miðaði að því að undanskilja vörur fengnar úr mjólk þar sem einum eða fleiri náttúrulegum þáttum hennar hefði verið skipt út fyrir annan.

Hæstiréttur hafnaði svo beiðni fyrirtækisins um áfrýjunarleyfi í mars 2022 með þeim rökstuðningi að hvorki væri unnt að líta svo á að úrslit þess gætu haft verulegt almennt gildi né að það varðaði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi laga um meðferð einkamála. hdm@mbl.is