Í viðræðum Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar landssambanda og stéttarfélaga innan ASÍ er stefnt að gerð langtímakjarasamninga sem geti gilt í þrjú til fimm ár ef öll önnur markmið viðsemjenda ganga eftir

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Í viðræðum Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar landssambanda og stéttarfélaga innan ASÍ er stefnt að gerð langtímakjarasamninga sem geti gilt í þrjú til fimm ár ef öll önnur markmið viðsemjenda ganga eftir. Verkalýðshreyfingin hefur hallast að því að samið verði til þriggja ára en útilokar ekki fimm ára samning ef önnur samningsmarkmið ganga eftir og vilja stéttarfélögin að gengið verði frá skýrum verðlagsákvæðum (rauðum strikum) í væntanlegum samningum og að samið verði um hagvaxtarauka á samningstímanum.

Mikil áhersla er lögð á aðkomu ríkisins og sveitarfélaga við endurnýjum samninganna og á aðgerðir til að ná niður verðbólgu og vaxtastiginu svo auka megi kaupmátt launafólks og styrkja lífskjör heimila og barnafjölskyldna.

Hafa forsvarsmenn verkalýðsfélaga sagt að gangi öll samningsmarkmiðin eftir og tekið verði á öllum þáttum, séu launahækkanir ekki aðalatriði væntanlegra samninga. Samkvæmt traustum heimildum Morgunblaðsins hefur upplegg verkalýðshreyfingarinnar verið að samið verði um 26 þúsund króna flata hækkun yfir línuna, sem leggist ofan á alla launataxta. Hefur kostnaðaraukinn verið metinn um 4,4%. Þetta er þó algerlega háð því að öllum öðrum settum markmiðum verði náð.

Rammi áformaðra samninga mun liggja fyrir og er samkvæmt heimildum byggður á mati Seðlabankans á svigrúmi í þjóðarbúskapnum.

Góður tónn er sagður í viðræðum viðsemjenda, sem birtist í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra í fyrradag um samningsmarkmiðin. Stjórn Samtaka atvinnulífsins birti í gær áskorun til aðildarfélaga sinna, annarra fyrirtækja landsins og ríkis og sveitarfélaga að styðja við sameiginleg samningsmarkmið nýrra kjarasamninga með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði, eins og þeim frekast er unnt.

Bent er á í áskorun stjórnar SA að samningsaðilar séu sammála um að mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum sé að greiða leið kjarasamninga sem vinna gegn mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem hafi komið hart niður á bæði heimilum og fyrirtækjum. Til að það markmið náist verði allir aðilar vinnumarkaðarins að leggjast á eitt. Enginn geti skorast undan ábyrgð.

„Stjórn Samtaka atvinnulífsins skorar á aðildarfélög sín, önnur fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að styðja við fyrrgreind markmið kjarasamninga, eins og þeim frekast er unnt, með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði.

Sameiginleg samningsmarkmið nýrra kjarasamninga eru í samræmi við áherslur Samtaka atvinnulífsins og ályktanir opinna vinnufunda samtakanna, sem voru haldnir um allt land á liðnum haustmánuðum,“ segir í áskorun stjórnar SA.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt fast að sveitarfélögum að endurskoða gjaldskrárhækkanir sem taka að óbreyttu gildi nú um áramótin og eins og fram kom í Morgunblaðinu í byrjun vikunnar krefjast verkslýðsfélögin þess meðal annars af ríkinu að það breyti tilfærslukerfunum og auki útgjöld ríkisins til barna-, húsnæðis- og vaxtabóta um 20 til 25 milljarða króna. Er þetta ein af meginkröfunum að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins.

A.m.k. tvö sveitarfélög, Reykjavíkurborg og Akranesbær, hafa lýst sig reiðubúin að endurskoða gjaldskrárhækkanir ef samkomulag næst um samstillta samninga sem stuðla að verðstöðugleika og á grundvelli þjóðarsáttar. Skoraði Vilhjálmur í færslu á Facebook í gær á önnur sveitarfélög að fylgja þessu fordæmi og á fyrirtæki að halda aftur af verðlagshækkunum og þjónustugjöldum.

Höf.: Ómar Friðriksson