Skúli fógeti Hann var smíðaður í Englandi 1911 og aflaði svo vel næstu árin að skipið var nær búið að borga sig upp.
Skúli fógeti Hann var smíðaður í Englandi 1911 og aflaði svo vel næstu árin að skipið var nær búið að borga sig upp. — Ljósmynd/Þjóðminjasafn Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Þær sorglegu fregnir bárust hingað í gærkvöldi, að „Skúli fógeti“ hefði rekist á tundurdufl í Norðursjónum, 35 enskar mílur austur af Tyne, og farist. Þrettán mönnum var bjargað en fjórir fórust. Þrír meiddust, en hve alvarleg þau meiðsl eru vita menn enn eigi, og ekki heldur hverjir þeir menn eru, sem þau hafa hlotið.“

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Þær sorglegu fregnir bárust hingað í gærkvöldi, að „Skúli fógeti“ hefði rekist á tundurdufl í Norðursjónum, 35 enskar mílur austur af Tyne, og farist. Þrettán mönnum var bjargað en fjórir fórust. Þrír meiddust, en hve alvarleg þau meiðsl eru vita menn enn eigi, og ekki heldur hverjir þeir menn eru, sem þau hafa hlotið.“

Þessa frétt var að finna á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 28. ágúst 1914. Stríð var þá hafið í Evrópu og hafi menn talið að það snerti ekki Ísland með beinum hætti urðu þeir að hugsa sig betur um.

Mennirnir sem fórust hétu Þorvaldur Sigurðsson frá Blómsturvöllum í Reykjavík, giftur maður, lét eftir sig konu og börn; Jón Jónsson frá Oddgeirsbæ í Rvík, einhleypur maður; Jón Jónsson og Þorkell Guðmundsson. Tveir hinir síðarnefndu voru ekki heimilisfastir í bænum. Skipstjóri var Kristján Kristjánsson og lifði hann af.

Skúli fógeti var botnvörpuskip í eigu Alliance-félagsins og vátryggt í Det Köbenhavnske Söassurance-Selskabt í Kaupmannahöfn, sem Johnson & Kaaber voru umboðsmenn fyrir. Í sama félagi voru og tryggðir flestir hinna islensku botnvörpunga. „En þeir eru ekki trygðir gegn stríðshættu og fær því útgerðarfélagið ekki eins eyris skaðabætur. Verður þetta því tilfinnanlegt tjón fyrir það,“ stóð í Morgunblaðinu.

Daginn eftir kom fram í blaðinu að skipbrotsmennirnir væru komnir til Shields við Newcastle. Heimildin var símfregn frá Lloyds-tryggingastofnuninni.

Lyftist upp úr rúminu

Tæpum mánuði síðar, 20. september, birtist í Morgunblaðinu frásögn Kristjáns Kristjánssonar skipstjóra af því þegar Skúli fógeti fórst.

Hann var háttaður og sofnaður, en stýrimaður á stjórnpalli, þegar ósköpin dundu yfir. „Alt í einu hrekk eg upp við hark mikið, og lyftist eg upp úr rúminu og hafði nærri kastast fram úr því. Eg kallaði þá samstundis til stýrimannsins og spyr, hvort það sé ásigling. „Nei, það er sprenging,“ svaraði hann. Eg snaraðist þegar á fætur, en um leið og eg fór fram úr rúminu, kemur á móti mér borðið, sem hentist aftur í þilvegginn, einnig þvottaborðið og lenti það í ljósahjálminum og braut hann. Á leiðinni upp stigann fékk eg nóg af sjó yfir mig.“

Skipverjar fóru þegar í stað að koma út björgunarbátnum, að sögn Kristjáns, og gekk það greiðlega, því bæði hafði hann verið við því búinn að losa þyrfti hann fljótlega, og svo var ekkert fát á skipverjum, bara viss og fljót handtök, eins og sjómönnum sæmir.

„Þegar báturinn var á leið í sjóinn, sagði eg nokkrum að fara að hásetaklefanum og vita hvort nokkur væri þar lífs, og voru skipverjar ekki seinir á sér, jafnt vélamenn sem aðrir. Alt í hásetaklefanum var brotið og fult af sjó, svo ilt var aðstöðu, þar sem stiginn eins og aðrir hlutir var burtu. Hið eina sem hjálpaði var spýtnaruslið sem var svo þykt, að hægt var með aðgæzlu að standa á því. Við sprenginguna höfðu öll ljósáhöld eyðilagst, svo ekkert var til að lýsa með eftir félögum okkar, nema tvistur sem vættur var í olíu. Fljótlega sást á mannshöfuð upp úr viðarruslinu, og var maðurinn dreginn upp og komið í bátinn, en dauðan héldum við hann fyrst. Þetta var Bjarni Brandsson. Einnig heyrðust stunur skamt þaðan, og flaut þar uppi Einar Eiríksson, meðvitundarlaus líka. Því miður var ekki hægt að finna fleiri, og höfðu 4 látið þar líf sitt. Nöfn þeirra hafa áður verið birt í blöðunum, því er þeim slept hér. Þeir tveir er meiddust mega nú teljast alheilir,“ sagði Kristján.

Skúli fógeti hafði rekið stefnið í sprengiduflið, en meirihluti sprengiefnisins kom undir bakborðakinnung skipsins, því til stjórnborða sveigðist það, og það svo mikið, að stór beygla var miðskips og myndaði hún hvasst horn í öldustokkinn. Við sprenginguna lyftist skipið upp að framan, og þegar það féll niður aftur, steyptist yfir það mikill sjór, er gekk aftur yfir það allt og fór niður í vélarúm og víðar. Þar með var skipið algerlega kyrrt, ekkert framskrið, svo var mikill kraftur í þessari vítisvél, að sögn Kristjáns, að hún stöðvaði Skúla á augnabliki.

Áfram hélt skipstjóri með frásögn sína: „Stýrimaður lýsir því svo, að þegar sprengingin varð, með dimmum, allháum hvelli, hafi gosið undan báðum kinnungum skipsins blossar, reykur og sjór og stigið hátt í loft upp. Skúli steyptist, eins og fyr segir, niður að framan eftir sprenginguna og féll næstum allur í sjó aftur að stjórnpalli, en hann er um mitt skip, og aftari hluti skipsins reis svo mikið upp, að skrúfan var upp úr sjó, og var þó skipið mjög þungt, hafði um 250 tonn af kolum og ís, og auk þess ýmislegt annað sem þungi var í. Allir hafa því vafalaust búist við, þó enginn talaði um það, að Skúli steyptist niður fyrir fult og alt á augabragði, en það var eins og hann legði sitt til að hjálpa okkur til að bjarga lífinu. Hinar sterku og vatnsheldu milligerðir hans og trausti og nýi búkur var það sem varnaði því, að hann steyptist óðfluga niður. Þannig skildum við þá við Skúla fógeta þegar hann var að sökkva. Það sorglegasta var að við vorum ekki allir.“

Kvörtuðu um kulda

Þegar skipbrotsmenn lögðu af stað á björgunarbátnum voru, að dómi Kristjáns, liðnar um sjö til tíu mínútur frá sprengingunni. Illa voru þeir útbúnir, hefðu þeir þurft að dveljast lengi í bátnum. Sumir voru berfættir, skólausir og fáklæddir mjög, en verst voru þeir staddir sem veikir voru og nú voru komnir til meðvitundar og kvörtuðu um kulda. En reynt var að hlúa að þeim eftir föngum.

„Á leiðinni vorum við stöðvaðir af herskipi. Skipstjórinn skýrði því frá hvernig á stóð, og fékk þá leyfi til að halda áfram. Kl. 5 f.m. hinn 27. komum við til North Shields. Þegar við vorum búnir að binda okkur í skipakvínni, komu læknar frá herskipi um borð og tóku þá veiku, og fluttu til South Shields á sjúkrahús. Við hinir fengum ekki að fara í land, fyr en ræðism. hr. Zöllner kom, og kom hann okkur fyrir á sjómannaheimili og dvöldum við þar í 14 daga. Var þá Jón forseti ferðbúinn til Íslands og fórum við með honum heim,“ sagði Kristján.

Þá varaði hann við skipaferðum á þessum slóðum. „Svo vil eg með fáum orðum láta þess getið, að eg álít Norðursjóinn mjög ótryggan, sökum sprengidufla, sem Þjóðverjar hafa dreift út, vísast á allmörgum stöðum, og flytjast þessi dufl víða um sjó, þar sem þau eru laus. Eg las í norsku blaði í North Shields, að enska stjórnin léti þess getið, að sprengidufl þau, sem í Norðursjónum eru, væru eigi látin eftir neinum reglum, eins og þegar dufl væru lögð fyrir fljót eða ármynni, eða þegar króa ætti óvinaskip inni, heldur væri þeim dreift hingað og þangað. Stjórnin (enska) tók það líka fram, að duflin ónýttust ekki eftir vist tímabil. Af þessu geta menn séð, að Norðursjórinn er ótryggur að minsta kosti um langan tíma.

Að endingu þakkaði Kristján skipshöfninni af Skúla fógeta fyrir góða samvinnu; einnig fyrir stillingu og hugrekki hennar þegar þetta slys bar að höndum.

Höf.: Orri Páll Ormarsson