Upplitað kóralrif við Looe Key í Flórída í júlí á þessu ári. Vísindamenn hafa flutt sýni í búr á landi þar sem sjávarhitabylgjur hafa rústað heilu rifunum.
Upplitað kóralrif við Looe Key í Flórída í júlí á þessu ári. Vísindamenn hafa flutt sýni í búr á landi þar sem sjávarhitabylgjur hafa rústað heilu rifunum. — The New York Times/Jason Gulley
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta ferli leiðir til ójafns samstarfs þar sem heimamenn og frumbyggjar eru notaðir án viðurkenningar eða þakklætis.

Asha de Vos

er sjávarlíffræðingur, kennari og stofnandi Oceanswell, sjávarverndarstofnunar á Srí Lanka, sem sinnir rannsóknum og fræðslu.

Ég er suðurasísk kona, lit á hörund og vinn við hafvernd á suðrænum slóðum hnattarins. Ég tilheyri einnig hitabeltismeirihlutanum – 1,59 milljörðum manna, sem reiða sig á úthöfin og búa í löndum á lágtekju- til millitekjubili í hitabeltinu.

Vegna bakgrunns míns hef ég þurft að yfirstíga óteljandi og óþarfar hindranir til að fá hæfni mína viðurkennda og fá sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar – þrátt fyrir að hafa útskrifast frá bestu háskólum, hafa gert frumkvöðlarannsóknir á höfunum og lífríki þeirra og öðlast alþjóðlega viðurkenningu fyrir framlag mitt.

Ég veit að tækifærin sem ég hef fengið blikna í samanburði við það sem jafningjar mínir í norðri hafa notið á meðan fordómarnir sem ég glími við og held áfram að mæta eru margfalt meiri.

Ályktanirnar sem fylgja því að vera lit persóna úr suðrinu – að okkur skorti til dæmis þekkingu, verksvit og áhuga á að taka þátt í verndun hafanna – hafa sögulega verið notaðar sem ástæður til að útiloka fólk eins og mig frá því að taka þátt í tilraunum til að breyta þeirri þróun, sem nú á sér stað í höfunum. En það er einmitt bakgrunnur okkar og skuldbinding á vettvangi sem gerir að verkum að við erum lykilatriði í þessu ferli.

Heimurinn fór á þessu ári í gegnum heitasta sumar frá upphafi mælinga – á láði og legi.

Um miðjan júlí náði daglegur hiti yfirborðs sjávar að meðaltali 20,96 gráðum á selsíus og fordæmalaus 38 stiga hiti mældist undan ströndum Flórída – meira en tveimur gráðum yfir venjulegum toppum að sumarlagi. Sums staðar skullu á sjávarhitabylgjur. Það er hægt að ímynda sér ótrúlegan hita af skógareldi, bara neðansjávar.

Við stöndum á afgerandi tímamótum í sögu sambands okkar við höfin. Við vitum meira um þau en nokkru sinni áður og við vitum líka að án gagngerra breytinga lítur framtíð þeirra, og okkar, dapurlega út.

Eins og staðan er á plánetu okkar um þessar mundir er á mannlegu valdi að gera nauðsynlegar breytingar áður en það er of seint. Hvað stoppar okkur? Augljós skortur á jafnrétti og að leyfa öllum að vera með í verndun sjávar.

Ferill minn hófst þegar ég uppgötvaði að steypireyðarnar í kringum eyjuna, sem ég er frá, lifðu allt sitt líf í hinu hlýja hitabelti. Hegðun þeirra var ólík öðrum steypireyðum, sem fara árlega milli kaldari svæða til að nærast og hlýrri til að tímgast og eignast kálfa.

Þegar ég bað um stuðning til að setja saman langtímarannsóknarverkefni um þessa hvali reyndu sérfræðingar í norðri að koma með sín teymi til að vinna rannsóknina. Ákvörðun þeirra byggðist á þeirri ályktun að ég, heimamaður í suðrinu, gæti ekki komið á fót rannsókn í bakgarðinum heima hjá mér.

Tuttugu árum síðar hafa rannsóknir mínar breytt skilningi okkar á hlutverki hitabeltisvistkerfa í lífi stærstu dýra, sem nokkurn tímann hafa lifað á jörðinni, og sýnt af hverju þessum einstöku dýrum stafar mest hætta – árekstrum við skip.

Verndun hafanna hefur löngum verið afmarkað rými vegna þess hvað er dýrt að taka þátt í henni, út af þörfinni fyrir sérhæfða innviði og fyrir það að suðrið hefur setið eftir í tæknilegri getu, að hluta til vegna þess að áratugum saman hafa verið stunduð fallhlífarvísindi, sem snúast um að grípa tækifærið frekar en að búa það til. Utanaðkomandi rannsakendur áttu til að kíkja við í löndum eins og mínu, gera sínar rannsóknir og fara án þess að fjárfesta í fólki á staðnum eða innviðum.

Þetta ferli leiðir til ójafns samstarfs þar sem heimamenn og frumbyggjar eru notaðir án viðurkenningar eða þakklætis. Það ýtir undir rangar ályktanir um getu heimamanna og stendur oft viðleitni heimamanna til verndar fyrir þrifum. Að baki rannsóknarverkefnum eru skoðanir aðkomumanna, tilgangur og persónulegar þarfir, sem óhjákvæmilega leiða til ójafnvægis í völdum milli þeirra sem koma að utan og þeirra sem eru á vettvangi.

Auðvitað hafa leiðangrar vísindamanna, sem hleypa ekki öðrum að og eru einsleitir, stungið sér niður í suðrinu fyrr á tímum og aukið umfang rannsókna, vísinda og verndunar. En við vitum nú að aðgerðir þeirra hafa einnig búið til flöskuhálsa, sem hafa torveldað framfarir, og falskar hugmyndir um að fámennir hópar geti bjargað heiminum.

Aukið aðgengi að höfunum myndi skipta minna máli ef þau hefðu enga þýðingu fyrir tilveru okkar. En það gera þau. Annan hvern andardrátt okkar eigum við höfunum að þakka; helmingurinn af því súrefni sem kostur er á kemur frá þeim. Höfin draga í sig hita – sem fyrst og fremst verður til fyrir okkar athafnasemi – og geymir hann. Þau eru stærsti kolefnisvaskur plánetunnar og eru stuðari gegn verstu áhrifum loftslagsbreytinga. Heilbrigð höf veita rúmlega þremur milljörðum manna atvinnu og milljónir manna um allan heim treysta á veiddan villtan fisk og ræktaðan fisk til að fá dýraprótein. Höfin eru líka mikilvægur hlekkur í birgðakerfinu; næstum allt, sem við eigum, er flutt um heiminn eftir höfunum. Og þetta eru bara beinu kostirnir við höfin.

Samkvæmt minni reynslu er augljóst að við verðum að gefa öllum jöfn tækifæri til að fást við, rannsaka og vinna í málefnum hafanna ef við viljum knýja fram jákvæðar, sjálbærar breytingar.

Til að gera þetta höfum við leitað uppi sjóði, þar sem er skilningur á mikilvægi rannsóknarverkefna undir forustu heimamanna, og síðan efnt til samstarfs með það að markmiði að valdefla og lyfta heimamönnum og frumbyggjum, sem upplifa og finna með hverjum andardrætti hvað bjátar á í hafskikanum næst þeim. Þessi viðleitni hefur gert rannsakendum eins og mér kleift að ávinna sér traust og vinna hratt, jafnvel við flóknustu aðstæður. Við getum klæðskerasniðið lausnir út frá aðstæðum með því að skipuleggja verkefni þar sem mikilvægustu áhyggjuefni heimamanna fá forgang og tekið því að þau endurspegli ekki alltaf eða séu í samræmi við hnattræn vandamál.

Með því að efna til samstarfs á jafningjagrunni víðs vegar um heiminn höfum við eflt og bætt tæknigetu á staðnum og getu sem aðeins nýtist þegar hún fer saman við þekkingu á staðnum, það sem þar hefur forgang og er í réttu samhengi. Þessi nálgun við hafið, hvort sem það er í raunheimi eða gegnum félagsmiðla, hefur aukið aðgengi að hafinu fyrir marga í suðrinu, sem ekki njóta þeirra forréttinda að nota sjóinn með þeim hætti að það veki gleði eða hrifningu. Fjárfesting í sjávarlæsi til að efla skilning og virðingu fyrir höfunum hefur gert okkur kleift að losa samfélög við ótta við sjóinn og gera þau forvitin um hann.

Þrátt fyrir línurnar sem við sjáum á kortum eru höfin eitt, stórt vatnsflæmi. Þau eru okkar sameiginlega arfleifð. Tæknikunnátta okkar og geta til nýsköpunar mun ekki fleyta okkur langt í að vernda þessa lífslind ef við gerum ekki meðvitaða atlögu að því að fá alla að borðinu með jafnræði að leiðarljósi.

Mestur hluti strandlengja heimsins er í suðrinu – þar sem hæfileikunum er skipt jafnt en tækifærunum ekki. Við munum aðeins ná árangri í að vernda höfin ef við viðurkennum að til þess að verja stærsta vistkerfi heims þurfum við fjölmennasta lið heims.

© 2023 The New York Times Company og
Asha De Vos

Höf.: Asha de Vos er sjávarlíffræðingur, kennari og stofnandi Oceanswell, sjávarverndarstofnunar á Srí Lanka, sem sinnir rannsóknum og