Ótrúleg fegurð blasir víða við okkur í náttúrunni og við ættum að gefa henni gætur mun oftar og leyfa okkur að hrífast. Það er ein leið af mörgum til að efla sálarró.
Ótrúleg fegurð blasir víða við okkur í náttúrunni og við ættum að gefa henni gætur mun oftar og leyfa okkur að hrífast. Það er ein leið af mörgum til að efla sálarró. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það furðulegasta í þessu öllu saman er að fólk skuli nenna að eyða dýrmætri orku sinni í nöldur og reiðiköst þegar nýta má tímann á svo miklu uppbyggilegri hátt.

Kolbrún Bergþórsdóttir

er blaðamaður á sunnudagsblaði Morgunblaðsins og skrifar pistla og viðtöl sem oft tengjast menningarviðburðum.

Árin líða eitt af öðru og nú horfir maður enn á ný til nýs árs sem mun, ef allt fer vel, gera mann einu árinu eldri. Vitaskuld á maður að fagna hverju ári sem maður fær að gjöf í þessu lífi.

Eitt af því skemmtilegasta við að eldast er að maður fer að gera sér æ sterkari grein fyrir hlutum sem maður leiddi nær aldrei hugann að þegar maður var yngri. Þá hélt maður að maður hefði allan tímann í heiminum til afnota og eyddi honum því of oft í vitleysu. Með aldrinum og hverju ári sem líður áttar maður sig á mikilvægi tímans og þess að reyna að nýta hann vel. Við lifum nefnilega ekki að eilífu þótt við séum stöðugt að haga okkur eins og við séum ódauðleg.

Allt er orka og það er óendanlega heimskulegt að nýta hana til að efla neikvæðni og gremju, eins og alltof algengt er. Allir þekkja manneskjur sem hafa fest sig í biturð vegna einhvers sem gerðist áratugum fyrr og er yfirleitt talið vera einhverjum öðrum að kenna. Hugurinn er enn við það óréttlæti sem þessum manneskjum fannst þær þá vera beittar og það svo mjög að illmögulegt er fyrir þær að njóta lífsins. Þær eru orðnar pirraðar að eðlisfari.

Fjölmargir eru síðan, af ástæðum sem maður áttar sig ekki á, fullir af innibyrgðri reiði sem brýst út í margskonar heiftarlegum myndum, ekki síst á samfélagsmiðlum þar sem fólk fær því meiri athygli því æstara sem það er. Tækni samtímans hefur leitt til þess að stundum er eins og stöðugt sé í gangi bein útsending þar sem nöldurseggir og öskureitt fólk fær leyfi til garga hástöfum og fá útrás fyrir gremju sína og fúllyndi. Verst er að það er ætlast til að maður leggi við hlustir og taki mark á þessum látum.

Fjölmiðlar eru nær dáleiddir af hávaðanum og koma honum samviskusamlega til skila á netsíðum sínum þar sem fréttirnar fá metlestur. Reiðin hefur aldrei verið vinsælli en nú, það mætti næstum halda að hún væri talin eftirsóttur eiginleiki svo mjög er henni slegið upp.

Það furðulegasta í þessu öllu saman er að fólk skuli nenna að eyða dýrmætri orku sinni í nöldur og reiðiköst þegar nýta má tímann á svo miklu uppbyggilegri hátt.

Auðvitað fáum við öll okkar skelli á lífsgöngunni og þurfum að takast á við áföll en ef við vinnum rétt úr þeim þá höfum við þroskast og vitkast og fyrir vikið vonandi öðlast einhvern skammt af hinni eftirsóttu innri ró.

Stundum heyrist sagt um manneskju að henni hafi tekist að varðveita barnið í sér – og það er talið henni til mikilla tekna. Kannski fer það okkur ekki nægilega vel að eldast. Líklega ættum við að horfa til barnanna og reyna að líkjast þeim meir. Hugur barna er fullur af ímyndunarafli, þau trúa á það skemmtilega, hlæja mikið, eru ofur hrifnæm og full af forvitni. Börn eru undraverur en svo verða þau fullorðin og tapa nær óhjákvæmilega dágóðum skammti af þessum eftirsóttu eiginleikum. Okkur myndi farnast mun betur ef við gerðum börnin að fyrirmyndum okkar enda eru þau stórmerkilegar manneskjur.

Börn horfa í kringum sig og sjá undur í því sem okkur er farið að finnast næsta hversdagslegt. Þau gleðjast innilega þegar þau sjá regnboga meðan hinir fullorðnu taka varla eftir honum. Börn horfa með lotningu á sólina og tunglið og sjá alls kyns myndir í skýjunum meðan hinir fullorðnu horfa varla til himins nema til að gá til veðurs.

Hraðinn í nútímasamfélagi er ægilegur enda er vanlíðan fólks orðin alvarlegt vandamál. Í öllum þessum æsingi þarf manneskjan sjálf að leitast við að skapa sér ró. Það er hægt að gera á margvíslegan hátt. Lesa bækur, hlusta á tónlist, virða fyrir sér myndlist. Fara út að ganga, horfa upp í himininn og gleðjast ef maður sér tungl og stjörnur. Og alls ekki eyða miklum tíma í fólk sem er reitt og biturt því það mun einungis ræna frá manni orku.

Hver og einn velur sinn lífsstíl. Sumir kjósa að lifa í hávaða og haga sér stundum eins og þeir séu baráttu við umhverfi sitt, tortryggja flest og virðast trúa því að verið sé að hafa eitthvað af þeim. Þetta er vond leið til að lifa lífinu. Það finnast einfaldlega svo margar miklu betri aðferðir. Horfum á börnin, sem kunna svo dæmalaust vel að njóta lífsins.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir, er blaðamaður á sunnudagsblaði Morgunblaðsins og skrifar pistla og viðtöl sem oft tengjast menningarviðburðum.