Mars Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, rak Heimi Má Péturssyni, fréttamanni Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, rembingskoss í Karphúsinu rétt eftir að hann hafði lagt fram miðlunartillögu í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar. Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar Ástráður tilkynnti miðlunartillögu sína á blaðamannafundi sem og að vinnustöðvunum yrði frestað. Segja má að vendingar hafi orðið í kjaradeilu SA og Eflingar skömmu áður þegar Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar samþykktu að slíðra sverðin og taka upp þráðinn í viðræðunum í Pallborði Vísis sem Heimir Már stýrði. Fyrir það framtak var Ástráður þakklátur.
JANÚAR Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, ræst í 16. skiptið í janúar og er markmiðið að hvetja landsmenn til að gera hreyfingu að föstum lið í lífi sínu á tímum sófans og Netflix. Lífshlaupið var ræst í höfuðstöðvum Advania þar sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var meðal þeirra sem ávörpuðu viðstadda auk þess að bregða sér í „plankann“ með svipbrigðum sem Júvenalis hefur kannski sett upp við ritun Satíranna á sínum tíma.
Júní Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi bauð í júní kærustupörum að ganga í hjónaband í snarpri, merkingarþrunginni, hátíðlegri og síðast en ekki síst lögformlegri athöfn í Ráðhúsinu í Reykjavík.
Júlí Eldgosið við Litla-Hrút í sumar vakti sem von er mikla athygli og spennu, og fjölmargir lögðu leið sína þangað til að berja náttúruöflin augum, ekki síst erlendir ferðamenn. Kraftar náttúrunnar voru enda risavaxnir miðað við mannfólkið, en miklir gróðureldar í nágrenninu reyndu einnig á. Gosið hófst 10. júlí og stóð í um mánuð.