Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Enn aukast líkur á eldgosi í nágrenni Grindavíkur, en land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Hefur landrisið nú náð sambærilegri hæð og mældist skömmu fyrir eldgosið þann 18. desember sl. Þetta segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Segir þar að hraði landrissins síðan 18. desember hafi verið nokkuð stöðugur, ólíkt því sem var fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt sé þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss og óvissa sé um hversu mikill kvikuþrýstingur þurfi að byggjast upp áður en kvika fari að leita upp á yfirborðið.
Varnargarðar við Grindavík
Veðurstofan áréttar að síðasta gos hafi hafist með mjög skömmum fyrirvara. Svæðið sé vaktað allan sólarhringinn og beint samband sé haft við almannavarnir um stöðu mála. Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu dómsmálaráðherra um að ráðist yrði sem fyrst í gerð fyrsta áfanga varnargarðs við Grindavík til varnar byggð og innviðum. Ræður mat almannavarna hvar hafist verður handa, en í fyrstu lotu verður byggður helmingur af hæð efsta hluta varnargarðsins, þ.e. fjærst Grindavík, en staðan síðan endurmetin m.t.t. þróunar jarðhræringa og stöðu mála.
Hæð garðsins verður mismunandi eftir staðsetningu í landinu, en almennt verður hæð hans 6-10 metrar og áætlaður kostnaður þessa fyrsta áfanga er um hálfur milljarður króna.
Uppgjör í byrjun janúar
„Mikið skemmd hús eða ónýt standa á 20 til 25 lóðum í Grindavík og er mat á ástandi þeirra í forgangi hjá okkur. Við höfum þegar óskað eftir afstöðu Grindavíkurbæjar til þess hvort endurbygging verði heimil á 14 slíkum lóðum. Verði endurbygging ekki heimil, þá mun NTÍ falla frá viðgerðar- og endurbyggingarskyldu og greiða bætur beint til húseigenda. Við vonum að uppgjör á þessum tilteknu eignum hefjist strax í byrjun janúar,“ segir Jón Örvar Bjarnason, sviðsstjóri vátryggingasviðs hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Húsnæðið sem hér um ræðir er nær eingöngu íbúðarhúsnæði. Heildarvátryggingaverðmæti húsanna er um 1,7 milljarðar króna. Það er þó fjarri því að vera heildartjónskostnaður atburðarins, enda aðeins um að ræða hluta af tjóninu í Grindavík. Enn er eftir að skoða um 100 hús sem orðið hafa fyrir tjóni, en þegar hafa verið skoðuð um 200 hús í heildina. Jón Örvar segir líklegt að einhver fleiri hús verði metin ónýt, en víst sé að tugir húsa hafi orðið fyrir miklu tjóni, en þó metin viðgerðarhæf.
„Við erum nú í samskiptum við Grindavíkurbæ um það hvort viðgerðir og endurbyggingar á þeim húsum sem hafa orðið fyrir mestum skemmdum verði heimilaðar. Við eigum von á svörum frá bænum á næstu dögum,“ segir Jón Örvar.
Ákvörðun bæjaryfirvalda um það hvort byggingar verði heimilaðar á lóðum þar sem sprungur hafa myndast í undangengnum jarðhræringum ræður því hvernig fer með greiðslu tryggingabóta, en reglur kveða á um að verði hús fyrir tjóni skuli tryggingarféð nýtt til lagfæringar eða endurbyggingar.
Ef bæjaryfirvöld ákveða að heimila ekki búsetu í húsnæði á sprungusvæðunum munu eigendur húsnæðisins fá tryggingarféð greitt út. Upphæð tryggingarfjárins ræðst af brunabótamati húsnæðisins. Brunabótamat samanstendur af afskrifuðu endurstofnverði húseignarinnar auk þess að fela í sér kostnað við niðurrif og förgun. Í gangi er vinna við að skoða og meta tjón á eignum í Grindavík.