[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Almannafyrirtækið sem ég stýri, Orka náttúrunnar, framleiddi í fyrra 17% af rafmagninu í landinu en sá fyrir 26% af þörfum almennings á Íslandi.

Árni Hrannar Haraldsson

Nú rétt fyrir jólahátíðina var Alþingi að velta fyrir sér hvernig sanngjarnast væri að skipa málum svo tryggja mætti að almenningur í landinu fái alltaf nægt rafmagn jafnvel þótt tíðarfarið þetta árið hafi reynst vatnsaflsvirkjunum á Suðurlandi erfitt. Verkefnið var sett á ís fram yfir
nýár.

Öll sammála

Þar sem hvort tveggja er viðbúið – að það komi slæm vatnsár og að almenningur geti orðið út undan á raforkumarkaðnum – var klókt af orkumálaráðherra að setja saman starfshóp um raforkuöryggi í ársbyrjun 2022. Þar voru saman komnir fulltrúar fjölbreyttra hagsmuna og sjónarmiða því í honum sátu fulltrúar Orku náttúrunnar, HS Orku, Landsvirkjunar, Landsnets, Orkustofnunar, Landverndar og Neytendasamtakanna. Starfshópurinn vann vel og skilaði af sér strax í fyrrasumar drögum að reglugerð. Hann var einhuga í tillögu sinni um að ábyrgð á ráðstöfun rafmagns til almennings ætti að skiptast hlutfallslega á milli raforkuframleiðendanna. Því stærri hluta raforkunnar sem hvert fyrirtæki framleiðir úr íslenskum náttúrugæðum, því meiri ábyrgð ber það á að almenningur fái sitt.

Þetta er ekki staðan nú. Almannafyrirtækið sem ég stýri, Orka náttúrunnar, framleiddi í fyrra 17% af rafmagninu í landinu en sá fyrir 26% af þörfum almennings á Íslandi. Almannafyrirtækið Landsvirkjun framleiddi 73% af rafmagninu en lagði til einungis helminginn af því sem almenningur þurfti.

Sanngirnismál

Í lagafrumvarpinu sem var lagt fyrir Alþingi í haust var gert ráð fyrir því að komi til þess að almenningur sé að verða út undan á raforkumarkaðnum megi langstærsta fyrirtækið á þessum samkeppnismarkaði – Landsvirkjun – deila út því rafmagni sem það kann að eiga aflögu nánast að eigin geðþótta. Þó þannig að það þurfi ekki að sjá almenningi nema fyrir helmingi af rafmagninu áfram. Hér þurfum við að hafa í huga að Landsvirkjun er í samkeppni við suma viðskiptavini sína, þeirra á meðal Orku náttúrunnar. Samkeppniseftirlitið varaði Alþingi sérstaklega við því að fara þessa ósanngjörnu leið. Atvinnuveganefnd virtist hafna ósanngirninni fyrir jólafrí af því að sanngjarnari leið er til, sú sem fulltrúar fyrirtækja og almannasamtaka voru sammála um innan starfshóps ráðherra. Engu að síður hafa talsmenn Landsvirkjunar lagst aftur á árarnar nú strax eftir jólin að knýja ósanngirnina í gegn.

Í umræðum síðustu daga hefur verið vont að sitja undir því að Orka náttúrunnar leggi ekki sitt af mörkum í að útvega almenningi rafmagn. Tölurnar að ofan tala þar sínu máli, sjá mynd.

Það hefur líka verið vont að sitja undir því að Orka náttúrunnar sé að lauma rafmagni keyptu af Landsvirkjun til stórnotenda. Þar tala tölur líka sínu máli en sala ON á stórnotendamarkað hefur minnkað síðustu ár.

Í ljósi sameiginlegrar niðurstöðu verkefnishóps ráðherra um hlutfallslega ábyrgð raforkuframleiðenda á að sinna þörfum almennings er líka vont að horfa upp á þann málflutning að
Landsvirkjun þurfi enn meiri
völd á raforkumarkaði til að almenningi verði sinnt. Orka
náttúrunnar sinnir sínu á almennum markaði og vel það.

Horfum til framtíðar

Fólkið í landinu og fyrirtækin ekki síður hafa notið góðs af samkeppni á raforkumarkaði. Hér hefur raforkuverð á almennum markaði verið tiltölulega stöðugt og lágt í flestum samanburði. Samkeppni þarf að efla fremur en að færa klukkuna 20 ár aftur í tímann. Þurfi að grípa til sérstakra úrræða nú í vetur, þá er Orka náttúrunnar boðin og búin að koma að borðinu til að finna sanngjarna skammtímalausn.

Höfundur er framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.

Höf.: Árni Hrannar Haraldsson