Kænugarður Fólk leitar vars gegn loftárásum Rússa í neðanjarðarlestarstöð eftir að loftviðvörunarkerfið fór aftur af stað í borginni í gær.
Kænugarður Fólk leitar vars gegn loftárásum Rússa í neðanjarðarlestarstöð eftir að loftviðvörunarkerfið fór aftur af stað í borginni í gær. — AFP/Sergei Chuzavkov
Minnst 30 almennir borgarar létust og um 160 særðust í umfangsmiklum loftárásum Rússa á Úkraínu sem hófust snemma í gærmorgun. Talið er að árásarhrinan hafi verið ein sú versta frá upphafi innrásarinnar

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Minnst 30 almennir borgarar létust og um 160 særðust í umfangsmiklum loftárásum Rússa á Úkraínu sem hófust snemma í gærmorgun. Talið er að árásarhrinan hafi verið ein sú versta frá upphafi innrásarinnar. Árásirnar beindust að að minnsta kosti sex héruðum í Úkraínu, þar á meðal Karkív í norðaustri, Lvív í vestri, Dnípro í austri og Ódessu í suðri auk höfuðborgarinnar Kænugarðs. Í gær var enn verið að reyna að bjarga fólki sem var fast undir rústum vöruhúss í Kænugarði.

Fólk leitaði skjóls hvar sem það gat í árásarhrinunni þar sem skotið var á skóla, sjúkrahús, verslunarmiðstöðvar og íbúðabyggingar. Talsmenn rússneska hersins sögðu að 50 eldflaugaárásir hefðu verið gerðar víðs vegar um landið og ein stór árás á hernaðarmannvirki og þeir hefðu náð öllum tilætluðum skotmörkum.

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu sagði í gær að Rússar hefðu ráðist á landið af öllum sínum krafti, en talið er að Rússar hafi skotið 158 eldflaugum og drónum að Úkraínu, þar af náði herinn að granda 114 þeirra. Talsmaður flughersins, Yuriy Ignat, sagði við AFP-fréttastofuna að þetta væri „umfangsmesta eldflaugaárás“ stríðsins, ef undanskildir væru fyrstu dagar innrásarinnar.

Þá fór ein eldflaug Rússa yfir pólska landhelgi, sem setti viðvörunarbjöllur Atlantshafsbandalagsins (NATO) af stað. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO ræddi við Andrzej Duda forseta Póllands. Sagði Stoltenberg NATO vera á varðbergi.

Josep Borrell utanríkismálastjóri Evrópusambandsins sagði árásirnar enn eitt dæmi um „huglausar“ árásir Rússa þar sem skotmörkin væru almennir borgarar.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að þingið yrði að sameinast um meiri fjárstuðning við Úkraínu tafarlaust, en stuðningur fulltrúadeildar þingsins við áframhaldandi fjárstuðning hefur dalað undanfarnar vikur. Rishi Sunak forsætisráðherra Breta sagði árásirnar sýna að Vladimír Pútín Rússlandsforseti myndi halda áfram að reyna að útrýma frelsi og lýðræði. „Við getum ekki látið hann vinna.“ Stuttu síðar tilkynntu Bretar að þeir myndu flytja hundruð flugskeyta til Úkraínu.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir