Vinsældir Campbell's-súpurnar eru notaðar í sósur og heita brauðrétti.
Vinsældir Campbell's-súpurnar eru notaðar í sósur og heita brauðrétti. — AFP/Spencer Platt
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Fólk er búið að hringja mikið og spyrja hér í búðinni. Því stendur ekki á sama og vill hafa þessa vöru. Það verður að vera Campbell's,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, kaupmaður í Melabúðinni.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Fólk er búið að hringja mikið og spyrja hér í búðinni. Því stendur ekki á sama og vill hafa þessa vöru. Það verður að vera Campbell's,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, kaupmaður í Melabúðinni.

Sælkerar hafa komið að tómum hillum í verslunum í aðdraganda hátíðanna þar sem áður voru hinar vinsælu Campbell's-súpur. Súpurnar eru til að mynda mikið notaðar í sósur og heita brauðrétti og hafa verið um áratugaskeið. Margir geta vart á sér heilum tekið þegar aspas- og sveppasúpurnar fást ekki.

Ýmsar kenningar hafa verið á lofti um þennan tilfinnanlega vöruskort, til að mynda að nýjar reglur í tengslum við Brexit hamli innflutningi þaðan eða vörurnar fáist ekki frá Bandaríkjunum vegna aukaefna sem ekki séu leyfð í Evrópu. Neytendur þekkja vel það grimma regluverk sem hefur svipt þá vörum á borð við Kókópöffs og Popcorners-snakkið. Samkvæmt fréttum í Bretlandi má þó skýringuna á vöruskorti þar í landi rekja til breytinga á birgjum. Upplýsingar frá Aðföngum, sem flutt hafa Campbell's-súpurnar inn og selt í verslunum Hagkaups og Bónuss, styðja þetta.

Erfið vara í innkaupum

Lárus Óskarsson framkvæmdastjóri Aðfanga segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hafi í gegnum árin flutt þessar vörur bæði inn frá Bandaríkjunum og Evrópu en erfitt hafi verið að fá þær reglulega á báðum þessum mörkuðum. Ekki sé hægt að kaupa beint af framleiðandanum í Bandaríkjunum né heldur verksmiðjunni í Evrópu. Stór pöntun hafi verið lögð fram hjá millilið í Evrópu í haust sem átti að skila hingað vörum. Þegar til kastanna kom fékk Lárus og hans fólk tilkynningu um að ekkert yrði til næstu mánuði. Engin haldbær svör hafi verið gefin um framhaldið.

„Þegar þetta kom í ljós fórum við í að reyna að verða okkur úti um vöruna í vöruhúsum í Bandaríkjunum en það var því miður of seint til að koma henni heim tímanlega fyrir desember,“ segir hann.

Von á sendingu á nýju ári

Góðu fréttirnar eru þó þær að sögn Lárusar að von er á fjórum tegundum af Campbell's með skipi eftir áramótin. Því er útlit fyrir að stór veislutímabil eins og fermingar og útskriftir séu ekki í hættu á nýju ári. „Við höfum lagt mikið á okkur til að nálgast þessa vöru í gegnum tíðina enda er ætlunin að hún sé alltaf til. Verðið frá Bandaríkjunum er hins vegar mun hærra en frá Evrópu vegna hærri flutningskostnaðar og hærra verðs út úr vöruhúsi þar.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon