Gylltur hani, sem inniheldur merkar minjar, mun prýða nýjan turn dómkirkjunnar Notre Dame í París en honum var lyft á sinn stað fyrr í mánuðinum.
Haninn, sem hannaður var af arkitektinum Philippe Villeneuve, hefur að geyma merkar minjar sem bjargað var þegar Notre Dame varð eldi að bráð árið 2019 sem og skjal þar sem finna má nöfn þeirra tvö þúsund sem tekið hafa þátt í endurbyggingu kirkjunnar.
Í frétt miðilsins France 24 er haft eftir arkitektinum að „eldvængir“ hanans eigi að minna á að dómkirkjan geti „risið úr öskunni eins og fönix“. Nýi haninn tekur við af öðrum eldri sem skemmdist of mikið í eldinum til að hægt væri að nota hann áfram.