Andrea Sigurðardóttir
er blaðamaður á ViðskiptaMogganum og hefur mikið fjallað um viðskipti, athafnalíf og stjórnsýslu.
Viðskipta- og athafnalíf í landinu var á árinu 2023 mjög markað af aðstæðum í efnahagslífi og peningamálum, líkt og fram kom í rekstri einstakra fyrirtækja, fjárfestingu og umsvifum. Þar lék þrálát verðbólga og hátt vaxtastig stórt hlutverk, óróleiki á vinnumarkaði sömuleiðis og að miklu leyti ósvaraðar spurningar um hvernig ríkisvaldið hygðist bregðast við með öðru en orðum.
Hægt hefur gengið að tjónka við verðbólguna og stýrivextir komnir í 9,25%. Og væru eflaust hærri ef jörð hefði ekki skolfið og brunnið á Reykjanesskaga. Seðlabankinn er reiðubúinn til þess að hækka vexti meira ef þörf krefur, en það kostar, líkt og bæði heimili og fyrirtæki hafa fengið að kynnast. Til þess er leikurinn gerður.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, fólk er feimnara við skuldsetningu, leitar í verðtryggð lán fremur en óverðtryggð, innlán í bönkum aukast og íbúðaverð hækkar hægar. Og já, heildarmarkaðsvirði skráðra félaga í Kauphöllinni hefur fallið um rúma 200 milljarða króna á árinu.
Það er óvarlegt að spá um þróunina á nýju ári, þó flestir reikni með að verðbólga hjaðni mikið um mitt ár. Hugsanlega af nokkurri óskhyggju, því verðbólguþrýstingurinn er enn verulegur. Hagvöxturinn mun eflaust gefa eftir, en fátt bendir til þess að ríkisútgjöld minnki.
Stóri óvissuþátturinn er á vinnumarkaði, en komandi kjarasamningar þurfa að vera afar hóflegir til þess að þeir bæti ekki á verðbólgubálið og brenni upp allar kaupmáttarhækkanir. Þar vekur bjartsýni að hljóðið í aðilum vinnumarkaðarins hefur einkennst af mun meiri sáttfýsi og raunsæi en gerst hefur um langa hríð. Verði samið á þeim nótum kann svigrúm að gefast til vaxtalækkana fyrr en ella.
Árangur og erfiðleikar
Þrátt fyrir hræringar og hremmingar í atvinnulífi var stærsta frétt ársins af þeim vettvangi einkar gleðileg. Það var sala ísfirska lækningavörufyrirtækisins Kerecis til Coloplast, fjölþjóðlega fyrirtækisins frá Humlebæk í Danmörku, fyrir tæpa 180 milljarða króna. Salan var af þeirri stærðargráðu að hún hafði áhrif á gengi krónunnar og bjó til dágóðan fjölda milljarðamæringa á einni nóttu.
Um leið gerði hún Guðmund Fertram Sigurjónsson, frumkvöðul fyrirtækisins, að merkisbera framtakssemi og hann var ófeiminn við að tjá sig um hana og framfarir í landinu. Kannski sást það best í jólakveðju fyrirtækisins í Morgunblaðinu um daginn, en það var opnumynd af Ísafirði með einu orði: „Græðandi.“
En með fréttum af þessari sigurgöngu fylgdi neðanmálsgrein um þá sem ekki græddu á sölu Kerecis, því lífeyrissjóðirnir voru einkennilega ragir við að koma að fjármögnun fyrirtækisins. Hálfu neyðarlegra var samt að lífeyrissjóðurinn Lífsverk, sem þó hafði lagt í púkkið, hafði aðeins þremur mánuðum fyrir söluna losað allan hlut sinn í Kerecis eftir að hafa mótmælt kaupréttarstefnu félagsins. Og varð af um 800 m.kr. fyrir vikið.
Það var þó ekki í eina skiptið á árinu, sem áleitnar spurningar vöknuðu um aðkomu lífeyrissjóða í íslensku atvinnulífi. Spurningar sem eflaust verða háværari ef um þrengist í rekstri og meira reynir á frumkvæði og tilsjón helstu eigenda skráðra félaga.
Á árinu harðnaði mjög á dalnum hjá Marel, sem undanfarin ár hefur verið með stærstu félögum á markaði, með mikil og vaxandi umsvif hér á landi og erlendis, svo mörgum þótti nóg um vöxtinn.
Þrátt fyrir goðsagnakennda pöntunarbók fyrirtækisins sló í bakseglin við efnahagstruflanir heimsfaraldursins, ófriður í Evrópu bætti ekki úr skák og enn síður snarhækkandi fjármögnunarkostnaður. Bæði fyrir félagið en einnig ráðandi hluthafa, sérstaklega þegar gengi hlutabréfa félagsins lækkaði og lækkaði. Hvert uppgjörið á fætur öðru olli fjárfestum vonbrigðum, síðbúnar aðhaldsaðgerðir virtust til lítils, en erlendir sjóðir losuðu um stöður sínar hér á landi (og ekki aðeins á Marel).
Staða Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marels, veiktist töluvert á þessum tíma, en samt kom á óvart þegar hann lét skyndilega af störfum í upphafi nóvember. Á daginn kom að Arion banki hafði eftir veðkall leyst til sín 5% hlut hans í Eyri Invest, stærsta hluthafa Marels. Arion hirti einnig 4,4% hlut í Eyri af Þórði Magnússyni, föður hans, en Landsbankinn gerði líka veðkall í ríflega 1% hlut Árna Odds í Eyri eftir að eignarhaldsfélag hans uppfyllti ekki lengur lánaskilmála.
Sú saga um gæfu og gjörvileika er áhugaverð, en mikilvægari er sjálfsagt umræða um stjórnarhætti og ráðandi hluti í almenningshlutafélögum með atbeina eða afskiptaleysi fjármálastofnana, lífeyrissjóða sem banka.
Áhyggjur af því komu skýrt fram í opnu bréfi Adams Epsteins hjá Teleios Capital Partners, eins stærsta erlenda fjárfestis Marels með 3,3% hlut. Stjórn fyrirtækisins var þar harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki gætt að umboðsskyldu sinni gagnvart öllum hluthöfum og vanhugsaðar ákvarðanir Eyris sagðar valda því að fjárfestingarfélagið rambaði á barmi gjaldþrots.
Sá darraðardans allur hlýtur að vera fleiri íslenskum fjárfestum umhugsunarefni.
Ekki voru þó minni athugasemdir gerðar við stjórnarhætti Íslandsbanka eftir að bankinn gerði sátt við fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) í kjölfar rannsóknar á starfsemi bankans við sölu á 22,5% hlut ríkisins í bankanum í mars 2022. Bankinn þurfti að greiða litla 1,2 milljarða króna í sekt vegna fjölmargra bresta í starfsháttum bankans.
Fram að því hafði gagnrýni vegna sölunnar aðallega beinst að Bankasýslu ríkisins, en nú beindust augun að yfirstjórn bankans. Fór svo að Birna Einarsdóttir bankastjóri var knúin til þess að láta af störfum um miðja nótt í júní, en í júlí var skipt um meirihluta stjórnarinnar á hluthafafundi.
Það var þó ekki hæsta sekt ársins, því eftir 13 ára langa rannsókn lagði Samkeppniseftirlitið (SKE) 4,2 milljarða kr. sekt á Samskip fyrir markaðssamráð upp úr hruni. Þetta er langhæsta sekt sem lögð hefur verið á nokkurt fyrirtæki áður, en sú næsthæsta var lögð á samkvæmt sátt við Eimskip í sama máli, en það sá um sakbendingu keppinautarins og ætlaðs samráðsaðila síns. Samskip hafa mótmælt sektinni og kærðu hana til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Sú góða nefnd kvað raunar upp sögulegan úrskurð á árinu um ólögmætt samráð Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra SKE, og Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, en enginn var þó sektaður fyrir vikið.
Málið laut að verktöku SKE fyrir ráðherrann um stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi, en SKE krafði 30 útgerðir um ítarlegar rekstrarupplýsingar og viðskiptasamninga með skömmum fyrirvara. Brim hafnaði því og uppskar himinháar dagsektir SKE fyrir vikið, en áfrýjunarnefndin hnekkti þeim og kvað upp úr um að það stríddi gegn lögum að SKE beitti rannsóknarheimildum eftirlitsstofnunar í pólitískum tilgangi.
SKE lét sér fátt um finnast, en málið kann að hafa í för með sér frekari athugun á heimildum eftirlitsins, umfangi og stjórnun. Ekki þá síst í ljósi upplýsinga sem fram komu í málinu, um að Samkeppniseftirlitið áformaði mun víðtækara og forvirkt eftirlit með atvinnulífinu öllu, m.a. í krafti lagaheimilda annarra og óskyldra stofnana.
Vörn og sókn
Við blasir að á komandi ári mun atvinnulífið þurfa að spila nokkuð harðan varnarbolta, en það er þó jafnan þá sem best sést úr hverju fyrirtæki og stjórnendur þeirra eru gerð. Það er líka þá sem menn leggja grunn að næstu sókn. Og þar munu líka bestu ávöxtunartækifærin hafa gefist.
Í núverandi vaxtaumhverfi er freistandi að leggja bara inn á sparisjóðsbókina við jákvæða raunvexti. Það eru hins vegar nægar vísbendingar um að mörg hlutabréf séu á spottprís þessa dagana.
Það er ekki einkamál viðskiptalífsins, enda hefur áhugi almennings á hlutabréfaviðskiptum stóraukist á liðnum árum og margir með meira milli handanna en verjandi er að ávaxta aðeins í eigin íbúðarhúsnæði eða ríkisskuldabréfum.
Raunar má segja löngu kominn tíma til eftir tíðindalítil eftirhrunsár í Kauphöllinni, en aukins áhuga almennings varð vart upp úr 2019, m.a. með aukinni þátttöku almennings í velheppnuðum útboðum og skráningum eins og í Arion banka, Síldarvinnslunni, Icelandair, Íslandsbanka, Ölgerðinni og Alvotech svo dæmi séu nefnd. Og menn eru vakandi fyrir tækifærum, eins og sást á vel heppnuðu útboði Ísfélagsins á dögunum í einkar krefjandi umhverfi.
Segja má að mörg félög voru ofmetin eftir heimsfaraldur og ákveðin leiðrétting sjálfsagt óhjákvæmileg, jafnvel nauðsynleg. Slík leiðrétting er mikilvægt en oft sársaukafullt hlutverk markaðarins, en þá dregur skiljanlega úr áhuga almennra fjárfesta til þess að taka þátt í honum.
Til lengri tíma litið er hins vegar mikilvægt að almenningur taki virkan þátt á hlutabréfamarkaði. Fyrir utan það að dreifa áhættunni á fjárfestingum, þá leiðir virkni almennings á hlutabréfamarkaði til betra samfélags, þar sem fólk hefur aukinn áhuga og skilning á rekstri fyrirtækja, stöðu einstakra atvinnugreina, arðgreiðslum, verðmætasköpun; samhengi auðs og eklu og að velsældin komi ekki af sjálfu sér.
Umfram allt er það þó betra þjóðfélag, þar sem ríkir víðtækur skilningur á því að hagsmunir almennings og atvinnulífs, fyrirtækja og fólksins í landinu, fara saman, eru beinlínis samofnir. Í því felst auðstjórn almennings, því þá erum við að fjárfesta í sjálfum okkur.