Arinbjörn Rögnvaldsson
arir@mbl.is
„Það hefur hægt og rólega dregið úr innflutningi á magni flugelda og Landsbjörg flytur inn allt sem er selt á okkar sölustöðum. Við flytum inn meirihlutann af flugeldum hingað til landsins og erum því stærsti innflytjandinn,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við Morgunblaðið, spurður um stöðuna á flugeldamarkaði.
Hann segir að erfitt sé að segja til um hver nákvæm markaðshlutdeild björgunarsveitanna sé. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er hún um 80%.
„KR flugeldar flytja sitt inn sjálfir og eru að selja í heildsölu til nokkurra íþróttfélaga. Allar björgunarsveitir og slysavarnadeildir á landinu kaupa í heildsölu af móðurfélaginu sem er Landsbjörg. Síðan eru tveir til þrír einkaaðilar sem flytja inn sjálfir til að selja. Heilt yfir eru þetta Landsbjörg, íþróttafélögin og fáir einkaaðilar,“ segir Jón Þór.
Skynja breytt viðhorf
Ef litið er yfir innflutning flugelda undanfarin ár er samdráttur í innfluttu magni flugelda, sem er í takt við tíðarandann, og þeim fækkar almennt sem kaupa flugelda að hans sögn.
„Umhverfisumræðan verður alltaf sterkari. Við erum meðvituð um það og höfum reynt að koma til móts við það eins og kostur er. Hins vegar hefur í langan tíma staðið yfir skoðun á því og verið leitað að betri fjármögnunarleiðum fyrir sjálfstæðar björgunarsveitir,“ segir Jón Þór.
„Slík leið hefur ekki fundist sem skilar þessum tekjum sem flugeldasalan hefur verið að skila björgunarsveitum í gegnum tíðina. Það er verið að skoða hvaða möguleikar eru í boði fyrir björgunarsveitir til þess að fjármagna sig,“ bætir hann við.
Landsbjörg sér þannig fram á að ef innflutningur heldur áfram að dragast saman verði björgunarsveitir að leita annarra leiða til að fjármagna starfsemi sína.
„Það er ekki launungarmál að einn góðan veðurdag verða flugeldar ekki í boði lengur; að það verði hreinlega sett bann á flugelda og flugeldasölu,“ segir Jón Þór. Hann tekur fram að Landsbjörg sé meðvituð um þessar umræður í samfélaginu um flugelda og standi ekki á sama.
„En við finnum fyrir velvilja á meðal þjóðarinnar um að styrkja starf björgunarsveita með þessum hætti. Við skynjum þó að tíðarandinn er að breytast og samdráttur á innflutningsmagni flugelda endurspeglar breytt viðhorf til þeirra,“ segir Jón Þór.
Flugeldar
Ekki verðbólga í verði
Áætlað er að um 580 tonn af flugeldum hafi verið flutt inn í ár, en þar af fluttu björgunarsveitirnar inn um 480 tonn. Svo virðist sem verðbólgan hafi ekki skilað sér inn í verð á flugeldum nema að litlu leyti. Óformleg verðkönnun Morgunblaðsins leiðir í ljós að lítill munur er á verði flugelda á milli ára í ár.