[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hamas er þó ekki jafn berskjaldað og ríki íslams, því fer fjarri. Hamas og hryðjuverkamenn samtakanna hafa haldið í eða aukið stuðning sinn meðal almennings í múslimaheiminum.

Ross Douthat

er dálkahöfundur hjá New York Times.

Nýtt ríki var stofnað í hjarta Mið-Austurlanda árið 2014. Það var með höfuðborg, stjórnvald, her og nánast 12 milljónir þegna – fleiri íbúa en Jórdanía eða Ísrael. Það helgaði sig einnig slátrun, villimennsku og ofstækisfullu ofbeldi, sem varð fljótt til þess að allur hinn siðmenntaði heimur varð því óvinveittur.

Þessi alheimsóvild varð til þess að erfitt var að ímynda sér að þetta ríki margra nafna – Ríki íslams, ÍSIS, Daesh – myndi lifa lengi. Á þeim tíma setti ég fram í formi vangaveltna líkingu við bolsévíka í Rússlandi, annan hóp miskunnarlausra byltingarhryðjuverkamanna, sem mættu almennri mótstöðu og íhlutun að utan, en þraukuðu og réðu ríkjum í Rússlandi í nokkrar kynslóðir.

Þegar til kom atvikuðust mál með þeim hætti sem sennilegri var. Með því að hafna jafnvel votti af hófsemi, með því að ganga fram af samvisku heimsins um leið og leitað var eftir beinum átökum við vestrænt vald naut Ríki íslams tímabundins liðssafnaðar áður en það var þurrkað út með afgerandi hætti. Ameríska heimsveldinu tókst þrátt fyrir að það hafi veikst og heimurinn sé orðinn margpóla í dreifingu valdsins að draga hring í kringum villimennskuna og binda enda á þetta ríki með vopnavaldi.

Þetta fordæmi er í bakgrunni yfirstandandi neyðarástands í Ísrael og Palestínu. Grimmdarverkin sem Hamas framdi á saklausum Ísraelum, manndrápsmyndskeiðin, limlestingar og hvernig menn glöddust í einskærri grimmd varð til þess að strax var farið í samanburð við voðaverk Ríkis íslams. Þau vöktu einnig spurningar um hvað vekti fyrir Hamas. Var þetta, eins og sumir fullyrtu, örvæntingarfullt en úthugsað stökk yfir í villimennsku, tekið á þeirri forsendu að aðeins með sönnum óhugnaði tækist að fá fram þau viðbrögð hjá Ísraelum sem þyrfti til að binda enda á friðarsamninga milli Ísraels og arabískra nágranna þeirra?

Eða var þetta þvert á móti sönnun þess að Hamas hefði alls enga venjulega hernaðaráætlun? Með því að ganga jafn langt og Ríki íslams í grimmd hefði Hamas einnig jafnað það í sjálfseyðingarglópsku. Ef til vill áttu fjöldamorðin ekki „rætur í hernaðaráætlun, heldur sadisma“, eins og Yair Rosenberg skrifaði í The Atlantic.

Ég held að við þurfum ekki að kjósa á milli þessara kosta. Róttækar hreyfingar eru oft margra gilda og hýsa sadista knúna hugmyndafræði og menn tilbúna að leggja mikið undir til að ná hernaðarmarkmiðum sínum, sem sameinast um sömu áætlun þótt skilningur þeirra sé að einhverju leyti ólíkur.

En það er önnur leið til að hugsa um öfgakennt ofbeldi sem hernaðaraðferð og þá er meira undir en aðeins hvaða áhrif það getur haft á stefnu Ísraela og sættir við Sádi-Arabíu.

Hreyfing, sem vísivitandi fer út í öfgar, tekur vissulega áhættuna á að fara sömu leið og Ríki íslams með því að einangra sig svo algerlega að fyrst missi hún allt siðferðislegt réttmæti og verði síðan króuð af og þurrkuð út. Það er augljóslega sú áhætta, sem Hamas er nú að taka. Hamas var ekki bara með völd á Gasasvæðinu, hún naut ákveðins réttmætis, velvildar hluta vinstri manna á Vesturlöndum og í arabaheiminum sem Ríki íslams hafði aldrei og sóttist ekki eftir. Með því að fremja villimannslegt ofbeldi sýndi hreyfingin að hún var tilbúin að leggja eld að þessari réttmætingu.

En hvað ef þú kveikir á þessari eldspýtu, ferð yfir línuna, leggur hinn siðmenntaða heim að baki og margir þínir helstu bandamenn einfaldlega … styðja þig áfram? Hvað ef þú breytir Ísrael í sláturhús og endar ekki eins og Ríki íslams eftir að hafa gert það? Hvað ef flestir þínir stuðningsmenn fara þess í stað í sitt venjulega horn, sumir búa til afsakanir og tala niður ofbeldið, aðrir styðja hins vegar fullum fetum dýrð þíns málstaðar?

Þá má segja eins og Damir Marusic skrifaði í umhugsunarverðri grein að þú hafir náð „byltingarlegu réttmæti“ sem þú hafðir ekki áður. Þú hefur tekið róttækt siðleysi upp á þína arma og neytt stuðningsmenn þína til að endurskrifa sitt siðferði, til að afsaka og viðurkenna, eða (eins og oft gerist) fyrst að afsaka og síðan að viðurkenna. Þetta ferli, skrifar Marusic, „kæfir alla pólitíska stefnu sem ekki er jafnöfgafull og byltingaráætlunin“. Hún lokar leiðum bandamanna þinna í framtíðinni: Eftir að hafa fylgt þér þetta langt inn í myrkrið verður hvert skref í viðbót eðlilegra og erfiðara að taka hvert skref til baka.

Hefur Hamas tekist þetta almennt? Nei: Víðast hvar meðal viðtekinna pólitískra afla á Vesturlöndum hafa samtökin augljóslega glatað því hóflega rétmæti sem þau áður nutu, valdið hryllingi meðal evrópskra leiðtoga sem og vinstri-miðju bandarískra stjórnmála, sem yfirleitt er hlynntari málstað Ísraels. Því er Hamas á geópólitískum berangri þegar Ísrael reynir að ráða niðurlögum þeirra.

Hamas er þó ekki jafn berskjaldað og ríki íslams, því fer fjarri. Hamas og hryðjuverkamenn samtakanna hafa haldið í eða aukið stuðning sinn meðal almennings í múslimaheiminum. Valdamiklir menn á borð við Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, hafa rokið þeim til varnar, mótmælendur hafa þyrpst út á götur, í vestrænum borgum blossar upp gyðingahatur og þeir njóta samúðar í ýmsum myndum innan samsteypu aðgerðasinna og akademíu.

Allt þetta hlýtur að teljast bráðabirgðasigur. Kannski mun hernaðarleg og pólitísk eyðilegging Hamas gleypa þennan sigur, ef til vill var tilræðið of dýrkeypt.

Eins og er má þó sjá móta fyrir myrkum, hernaðarlegum sigri, sem aðeins hefði náðst með öfgakenndu ofbeldi.

Á vegum The New York Times Licensing Group

Höf.: Ross Douthat er dálkahöfundur hjá New York Times.