Áætlað er að innvigtuð mjólk til aðildarfélaga Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði verði um 151 milljón lítra þegar upp verður staðið um áramót.
Er það um þremur milljónum lítra meira en á síðasta ári þegar magnið var rétt tæpar 148 milljónir lítra. Framleiðslan hefur verið heldur meiri allt árið að þessu sinni samkvæmt upplýsingum frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði en í fyrra jókst hún talsvert síðari hluta ársins. Í samanburði er framleiðslan svipuð og hún var á árunum 2016-2020 en mest var hún 2018 eða 152,5 milljónir lítra en þróunin sést á meðfylgjandi mynd. Árið 2018 var framleiðslan reyndar töluvert meiri en þörf var fyrir á innanlandsmarkaði.
Hæsta greiðslumark til þessa
Heildargreiðslumark fyrir árið sem er að líða var 149 milljónir lítra og hefur matvælaráðherra gefið út að greiðslumarkið verði 151,5 milljónir lítra á næsta ári. Heildargreiðslumark á að endurspegla þörfina á innanlandsmarkaði og greiðslumarkið fyrir næsta ár er það mesta sem verið hefur. Ef vel gengur að selja þarf framleiðslan að vera yfir heildargreiðslumarki næsta árs.
Ferðamannastraumurinn til landsins hefur áhrif á söluna eftir því sem fleiri heimsækja Ísland frá löndum þar sem mjólk er hefðbundin neysluvara. kris@mbl.is