Pieta Fleiri aðstandendur leita ráða hjá Pieta-samtökunum.
Pieta Fleiri aðstandendur leita ráða hjá Pieta-samtökunum. — Morgunblaðið/Eggert
Starfandi formaður Pieta-samtakanna, Hjálmar Karlsson, segir að ekki sé hægt að sjá fjölgun í símtölum til samtakanna um hátíðarnar en að fjölgað hafi í hópi aðstandenda sem leita til samtakanna í leit að ráðum um hvernig sé best að hlúa að manneskju í nærumhverfi þeirra

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Starfandi formaður Pieta-samtakanna, Hjálmar Karlsson, segir að ekki sé hægt að sjá fjölgun í símtölum til samtakanna um hátíðarnar en að fjölgað hafi í hópi aðstandenda sem leita til samtakanna í leit að ráðum um hvernig sé best að hlúa að manneskju í nærumhverfi þeirra.

Hann segir þetta mögulega skýrast af árstímanum en oft er haldið betur utan um þau sem glíma við skaðlegar hugleiðingar á þessum tíma. Þá hvetur hann fólk í neyð, jafnt aðstandendur og þau sem glíma við skaðlegar hugleiðingar, að hringja í samtökin og oftast sé hægt að bóka viðtalstíma samdægurs.

Opið allan sólarhringinn

Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri samtakanna segir samtökin bjóða upp á sérstaka stuðningshópa fyrir aðstandendur og að hún hafi tekið eftir aukningu hjá þeim sem sækja hópinn.

Þá taka samtökin einnig við einstaklingum sem meðferðarráðgjafar taka á móti og ráðleggja hvernig bregðast skuli við, hvaða hættumerkjum ber að taka eftir og hvernig sé hægt að fyrirbyggja ástandið.

Hún bendir að lokum á ráðgjafarsíma Pieta-samtakanna, 552218, sem er opinn allan sólarhringinn og hvetur fólk eindregið til þess að hringja sé það eða einhver nákominn þeim í neyð. „Hjá mörgum er þetta bara mjög stórt skref að hafa samband,“ segir hún.

Höf.: Geir Áslaugarson