Guðmundur Ingi Ásmundsson
Guðmundur Ingi Ásmundsson
Núverandi fyrirkomulag langtímasamninga hentar fyrst og fremst stærri notendum, en við þurfum að sammælast um fyrirkomulag viðskipta sem hentar íslensku samfélagi.

Guðmundur Ingi Ásmundsson

Við hjá Landsneti höfum bent á það undanfarin ár að svigrúm á orkumarkaðinum færi þverrandi og líkur á afl- og orkuskorti vaxandi. Nú í annað skipti á skömmum tíma er vatnsbúskapur mjög slakur, einkum á suður- og vesturhluta landsins. Þessi staða reynir mjög á og í ljós koma veikleikar raforkukerfisins. Í samfélaginu hefur verið fjallað mikið um þörfina á aukinni orku og styrkingu flutnings- og dreifikerfanna, sem eru aðgerðir til að bæta stöðuna, en minna farið fyrir umræðu um þá viðskiptahætti sem eru viðhafðir hér á landi og eru ólíkir því sem þekkist í kringum okkur.

Íslenska raforkukerfið er samtengt um allt land. Kerfið er einangrað frá öðrum löndum þar sem engar millilandatengingar eru fyrir hendi. Landsnet á og rekur flutningskerfið sem flytur orku til stórnotenda og dreifiveitna um allt land. Flutningskerfið afmarkar í raun heildsölumarkað með raforku á Íslandi. Á þessum heildsölumarkaði fara viðskiptin fram með beinum viðskiptum milli þeirra sem selja og kaupa orkuna. Samningarnir eru misjafnir að stærð, gildistíma og ákvæðum sem í þeim eru. Engir skipulegir uppboðsmarkaðir eru til staðar fyrir utan uppboðsmarkað Landsnets á orku til að tryggja öryggi kerfisins og uppboð á orku sem tapast í kerfinu. Ekkert gagnsæi er því á markaðinum og í raun afar erfitt að meta raunverulega stöðu heildsölumarkaðarins. Þá er umræða um orkumarkaðinn afar villandi. Sem dæmi má nefna umræðu um leka á milli markaða. Þar er verið að vísa í sölusíðu Landsvirkjunar og skilyrði fyrirtækisins í samningum. Eins og gefur að skilja er sú síða ekki heildsölumarkaður raforku.

Við hjá Landsneti sjáum skýr merki um þau vandræði sem nú steðja að. Þannig hafa tilboð í orku vegna flutningstapa hækkað mikið og verð á jöfnunarorku sömuleiðis. Miðað við framboð í útboðunum virðast líkur á markaðsbresti. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun mun markaðsbresturinn bitna á almennum notendum en ekki stórnotendum. Þessi staða gefur vísbendingar um að of langt hafi verið gengið í að gera bindandi samninga við stórnotendur og svigrúm í kerfinu sé of lítið til að bregðast við aðstæðum, sem geta komið reglulega upp, eins og vatnsskorti.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um tryggingu raforkuöryggis til heimila og fyrirtækja, þar sem framleiðendum er meðal annars skylt að eiga orku til reiðu í hlutfalli af viðkomandi heildarframleiðslu til að koma í veg fyrir markaðsbrest. Við hjá Landsneti hvetjum Alþingi til að samþykkja frumvarpið. Þess ber þó að geta að þótt inngrip eins og þetta geti verið nauðsynlegur öryggisventill í markaðsbresti eru þau ekki æskileg á samkeppnismarkaði með raforku. Eðlilegast væri að stjórnvöld og aðilar orkumarkaðarins einhentu sér í að breyta núverandi fyrirkomulagi orkuviðskipta og færa það í eðlilegt horf til framtíðar.

Miðað við þá þróun sem er fram undan á orkumarkaði, meðal annars með tilkomu vindorkuvera og mikils vaxtar notkunar hjá heimilum og minni notendum vegna orkuskipta, þarf að gera viðamiklar breytingar á því hvernig viðskipti með raforku fara fram. Núverandi fyrirkomulag langtímasamninga hentar fyrst og fremst stærri notendum en við þurfum að sammælast um fyrirkomulag viðskipta sem hentar íslensku samfélagi. Mikilvægast er að fyrirkomulagið geri orkuviðskiptin gagnsæ og skapi þá hvata til þess að við sem þjóð náum þeim markmiðum sem við ætlum að ná. Í þessu fyrirkomulagi þarf að jafna stöðu almennra notenda gagnvart stórnotendum, mynda jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar með aðferðafræði sem styður við markmið stjórnvalda um orkuskipti. Ef okkur tekst ekki að breyta viðskiptaumhverfinu til framtíðar, þá munum við áfram þurfa að gera inngrip í formi girðinga í nafni forgangsröðunar, án þess að raunverulega leysa undirliggjandi vandamál.

Höfundur er forstjóri Landsnets.

Höf.: Guðmundur Ingi Ásmundsson