Með pabba Gísli faðmar hér dætur sínar, Kristvinu og Gunnhildi, eftir tónleika Álftagerðisbræðra í Hörpu.
Með pabba Gísli faðmar hér dætur sínar, Kristvinu og Gunnhildi, eftir tónleika Álftagerðisbræðra í Hörpu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er pínu vandræðalegt fyrir okkur af því stór hluti af fjölskyldu okkar er í kórnum, Gísli pabbi okkar, Agnar bróðir okkar og tveir synir hans og svo er Atli maður Kristvinu formaður kórsins,“ segja skagfirsku systurnar Gunnhildur og…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta er pínu vandræðalegt fyrir okkur af því stór hluti af fjölskyldu okkar er í kórnum, Gísli pabbi okkar, Agnar bróðir okkar og tveir synir hans og svo er Atli maður Kristvinu formaður kórsins,“ segja skagfirsku systurnar Gunnhildur og Kristvina Gísladætur Álftagerðisbróður, en þær munu syngja tvísöng með Karlakórnum Heimi á árlegum áramótatónleikum kórsins í Miðgarði í Varmahlíð í Skagafirði í kvöld.

„Þetta er sannarlega mikill heiður fyrir okkur og við ætlum að syngja Heyr mína bæn, lagið sem Guðrún Gunnars söng með kórnum á afmælistónleikum Óskars frænda Álftagerðisbróður í haust. Þetta er svolítið skondið því þegar við systur fréttum á sínum tíma að Óskar ætlaði að fá Guðrúnu til að syngja á afmælistónleikunum, þá göntuðumst við með það okkar á milli hvers vegna í ósköpunum hann ætlaði að fá hana þar sem við tvær gætum alveg sungið í hennar stað! Við vorum bara að fíflast, enda er Guðrún fagmanneskja og gerði þetta með miklum sóma,“ segja þær systur og bæta við að tími sé kominn til að auka kvennakraft í söng stórfjölskyldunnar.

„Nú rísum við Álftagerðissystur upp og syngjum, en vissulega verður svolítið skrýtið fyrir okkur að hafa heilan karlakór fyrir aftan okkur, þar sem við þekkjum þetta lið töluvert. Óneitanlega verður þetta svolítið yfirþyrmandi, en þetta verður gaman og við erum til í þetta. Við munum væntanlega engjast sundur og saman af frammistöðukvíða þar til við stígum á svið,“ segja þær og bæta við að Óskar frændi muni klárlega hjálpa þeim í gegnum þetta með því að segja einhverja brandara.

Svolítið vandræðalegt

„Við systur erum vanar að syngja í fjölskyldukórnum okkar heima hjá mömmu og pabba, en hann kom samt fram og söng þegar við Atli giftum okkur árið 2020,“ segir Kristvina og bætir við að fjölskyldukórinn sé blandaður kór fjölskyldumeðlima.

„Fjölskyldukórinn hefur sungið árum saman heima í Álftagerði á jóladag og við einstaka fjölskyldutengdar athafnir. Ísak, 17 ára sonur Agnars bróður, er tónlistarundrabarnið okkar sem spilar á nokkur hljóðfæri og er orðinn fjölskylduundirleiksfær á píanó. Þar fyrir utan syngur hann líka eins og engill,“ segja þær og bæta við að þar sem Sigfús Álftagerðisbróðir hafi ekki getað sungið með á afmælistónleikum Óskars, þá hafi vantað smá fyllingu og stungið hafi verið upp á að fá fjölskyldukórinn til liðs.

„Við systur veðruðumst upp og fögnuðum, en þá kom hið vandræðalega í ljós: Aðeins karlmenn í fjölskyldukórnum áttu að vera með, það átti semsagt að yngja upp Álftagerðisbræður,“ segja þær og skellihlæja og taka fram að það finnist þeim frábært.

Gríðarleg vonbrigði

„Í okkar fjölskyldu hefur alltaf verið mikið hlustað á tónlist og gjarnan sungið með, enda mikill áhugi á hvers konar tónlist. Pabbi okkar, Gísli Pétursson, hefur sungið með Karlakórnum Heimi frá því við munum eftir okkur, löngu áður en hann og bræður hans fóru að koma fram sem syngjandi Álftagerðisbræður. Við fórum auðvitað á flesta tónleika hjá kórnum og seinna bræðrunum, og eigum góðar minningar frá slíkum ferðalögum. Þegar Álftagerðisbræður fóru á flug þá fléttuðust þeirra söngferðalög inn í líf okkar. Til dæmis þegar ég var í námi fyrir sunnan og þeir að syngja á Hótel Íslandi, þá hitti ég pabba og bræður hans þar og fékk svo far með þeim heim í Skagafjörð,“ rifjar Kristvina upp og bætir við að hún muni eftir sér á bernskuárunum að hlusta á vínilplötur.

„Fyrir fermingarpeningana mína keypti ég svo græjur með plötuspilara og geislaspilara, og verandi með Gunnhildi systur inni í herbergi hjá mér, þá hlustuðum við mikið saman á tónlist og sungum með. Við hlustuðum líka og sungum með Agnari bróður. Tónlist og söngur hefur alltaf verið hluti af okkar lífi,“ segir Kristvina og bætir við að þar sem þær systur séu kvenkyns hafi þær því miður ekki átt möguleika á að komast inn í karlakórinn Heimi.

„Þegar ég var lítil stelpa var það alltaf planið hjá mér, eða þar til ég áttaði mig á að kyn mitt hamlaði því, sem voru mikil vonbrigði. Þegar ég flutti aftur í Skagafjörð eftir að hafa lokið námi í borginni, þá fór ég í kirkjukórinn, það var það næsta sem ég gat komist því að vera í karlakórnum Heimi, því Stefán stjórnaði kirkjukórnum, sá sami og stjórnaði Karlakórnum Heimi,“ segir hún og hlær.

Gubbuðu í heila viku

Þær systur byrjuðu báðar í kvennakórnum Sóldísum árið 2016.

„Að koma fram með kór lét mér líða eins og ég væri að koma fram ein í Hörpu,“ segir Kristvina og hlær.

„Tilfinningin sem fylgdi því að vera uppi á sviði var svakalega slæm, en gaman að vera hluti af kór. Í fyrra sungum við systur saman sóló með kvennakórnum, en þá var júróvisjónþema og við komum fram sem Abba-systur, sem var mjög gaman.“

Gunnhildur segist vera orðin svolítið sjóuð í því að koma fram, því Elvar Logi Friðriksson frændi þeirra hafi dregið hana með sér í að koma fram á þorrablótum, syngjandi gamanvísur um fólkið í sveitinni.

„Fyrir mig var það mikil lífsreynsla að yfirstíga gríðarlegan frammistöðukvíða og sviðsótta. Ég velti því oft fyrir mér hvort þetta væri þess virði, því ég fékk mikil líkamlega einkenni vegna sviðsskrekks. Í fyrsta skipti sem ég söng þorrablótsbrag með Elvari Loga var þetta svo svakalegt að þegar ég gekk af sviðinu þá virkuðu ekki lappirnar á mér. Ég varð alveg máttlaus af stressi. Nú hef ég sjóast og það er merkilegt ferli að losna að mestu við þennan skrekk. Að koma fram venst, og nú er ég jafnvel farin að njóta þess. Ég hef líka tekið þátt í góðgerðartónleikum á Blönduósi undanfarin tvenn jól og ég hló að því eftir þá tónleika að sennilega væri gigg-víman að detta í hús hjá mér. Þetta væri farið að verða gaman og ég að njóta þess að standa og syngja fyrir framan fólk en ekki langa mest til að skríða út af sviðinu, já og gubba í viku áður en að tónleikum kom,“ segir Gunnhildur og hlær.

„Þar sem Karlakórinn Heimir er gamalgróið fyrirbæri í sál okkar, þá kallar það aftur fram pínu sviðshroll að koma fram með þeim,“ segja þær Gunnhildur og Kristvina sem svara því til að enginn viti hvað framtíðin beri í skauti sér þegar þær eru spurðar hvort söngdúóið Álftagerðissystur sé komið til að vera.

„Við erum vissulega systur og við erum frá Álftagerði, því verður ekki breytt, og við hættum sennilega seint að syngja,“ segja systurnar, sem báðar búa í sinni heimasveit, Skagafirðinum. Kristvina býr í Álftagerði þar sem þær eru uppaldar, en Gunnhildur í Syðri-Hofdölum, á æskuheimili eiginmanns síns. Kristvina er skólastjóri í Varmahlíðarskóla en Gunnhildur er ljósmyndari og blaðamaður á Feyki.

„Við erum hvorugar bændur á jörðunum þar sem við búum, en pabbi er nýbúinn að taka aftur kindur eftir riðuniðurskurð og við reynum að verða að liði, sérstaklega í sauðburðinum. Í fyrravor komum við systur sterkar inn þegar einvörðungu gemlingar voru að bera.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir