Áramót Notkun Íslendinga á flugeldum vekur athygli erlendra gesta.
Áramót Notkun Íslendinga á flugeldum vekur athygli erlendra gesta. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is Ísland er vinsæll áfangastaður um áramótin eins og undanfarin ár. Fjöldi erlendra gesta mun dvelja á Íslandi þegar árið 2024 gengur í garð undir tilheyrandi sprengjuregni og tónum lagsins Nú árið er liðið.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ísland er vinsæll áfangastaður um áramótin eins og undanfarin ár. Fjöldi erlendra gesta mun dvelja á Íslandi þegar árið 2024 gengur í garð undir tilheyrandi sprengjuregni og tónum lagsins Nú árið er liðið.

Vel gekk að selja gistingu á höfuðborgarsvæðinu yfir áramótin að sögn Kristófers Oliverssonar formanns FHG, fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Jafnvel þótt gefið hafi á bátinn í greininni vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga.

„Eftir jarðskjálftana nærri Grindavík varð mikið högg á bókanir fyrir nóvember, desember og janúar en gamlárskvöldið heldur alveg sínu. Ef einhverjir hættu við þá pöntuðu aðrir í staðinn. Bókanir í gistingu á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld eru alveg í samræmi við væntingar en bókanir fyrir byrjun ársins eru það ekki,“ segir Kristófer en talsverður fréttaflutningur var erlendis af jarðhræringunum í nóvember og desember.

„Eftir jarðhræringar var lýst yfir neyðarstigi og fjölmiðlamenn um allan heim áttu ekki nýjar myndir til að myndskreyta og notuðu margir hverjir myndir af gosinu í Eyjafjallajökli. Skapaði það talsverðan óróa en þegar gosið hófst 18. desember birtust fallegar myndir sem breyttu ásýndinni. En að þetta skyldi fara svona er auðvitað alvarlegt fyrir þá sem selja gistingu og fyrir ferðabransann í heild sinni.“

Aðdráttarafl flugeldanna

Spurður um hvort bókanir í gistingu hérlendis hafi tekið við sér á nýjan leik að gosinu loknu segir Kristófer svo ekki vera en áhugavert verði að sjá hvernig nýja árið fer af stað.

„Bókanir hafa ekki tekið að fulllu við sér en vonandi mun það gerast fyrri partinn í janúar. Þeir sem höfðu tekið frá frídaga til að ferðast, og hættu margir við að fara til Íslands, völdu sér annan áfangastað.“

Kristófer telur ekki hægt að benda á eitt atriði sem skýri vinsældir Íslands sem áfangastaðar á gamlárskvöld. Flugeldasýningin sem myndast þegar hinn almenni borgari sprengir gamla árið í burtu hafi mikið að segja en fleiri þættir spili inn í.

„Áramótin verða góð eins og þau hafa verið mörg undanfarin ár. Margt spilar inn í þessar vinsældir. Ef þú ferð inn á erlendar vefsíður sem birta lista yfir áhugaverðustu staðina í heiminum til að eyða áramótunum þá er Reykjavík nánast alltaf á slíkum listum. Flugeldarnir hafa sitt að segja ásamt því að mikið líf er í borginni á gamlársdag og skemmtileg menning. Auk þess er margt hægt að gera hvort sem fólk velur dagsferðir eða lengri ferðir út á land.“

Höf.: Kristján Jónsson