Júlí Skemmtiferðaskip settu sterkan svip á Ísafjörð í sumar og breyttu bæjarmyndinni um stund. Erlendir gestir streymdu þá í land og mest sóttu um sex þúsund gestir bæinn heim á einum og sama deginum, sem er ekki lítið inngrip í eitt samfélag. Þá er að vonum líf og fjör á götunum og dagsferðir í nálæga firði vinsælar.
Ágúst Stærsti sundbíóviðburður RIFF hingað til var haldinn 25. ágúst! Myndin Life of Pi var sýnd á 100 fermetra skjá sem er sá stærsti sem settur hefur verið upp utandyra á Íslandi.
Nóvember „Tunglið fór fyrir Venus í nóvember, sem er frekar sjaldgæfur atburður, og sem betur fer viðraði frábærlega um nánast allt land svo flestallir Íslendingar gátu notið sjónarspilsins,“ sagði Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar. „Svona samstaða gerist einu sinni í mánuði, en það gerist mjög sjaldan að tunglið nái að myrkva plánetu frá okkar sjónarhóli hérna á jörðinni.“
Júlí Eldgosin á Reykjanesskaga hafa vakið athygli langt út fyrir landsteinana enda slíkar náttúruhamfarir ekki daglegt brauð. Fjölmargir nýttu sér þyrluþjónustu til að fá sem mest út úr upplifuninni og flugu yfir gosstöðvarnar. Hér er þyrla Norðurflugs í einu slíku flugi yfir Litla-Hrúti í sumar.