Hrefna Gunnsteinsdóttir frá Ketu á Skaga fæddist á Hrauni á Skaga 11. apríl 1945. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 16. desember 2023. Hrefna var dóttir hjónanna Gunnsteins Sigurðar Steinssonar frá Hrauni f. 10.1. 1915, d. 19.12. 2000 og Guðbjargar Hólmfríðar Guðmundsdóttur frá Holti í Kálfshamarsvík, f. 15.4. 1922, d. 31.12. 2011. Systir Hrefnu er Guðrún Gunnsteinsdóttir, f. 26.4. 1949.
Fjölskyldan fluttist í Ketu þegar Hrefna var níu ára og bjó hún þar lengst af eftir það. Skólagangan var eins og venja var á þessum tíma, barnakennsla í farskóla á Skaga en síðar fór hún til náms í Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal. Eiginmaður Hrefnu var Björn Halldór Halldórsson frá Halldórsstöðum á Langholti, f. 29.11. 1943, d. 5.9. 2000. Þau giftu sig 1. júlí 1967 og hófu búskap í Ketu það sama ár og bjuggu þar sauðfjárbúi saman þar til Björn lést árið 2000, hún hélt þá áfram búskap ásamt dóttur sinni til ársins 2020 er hún flutti til Sauðárkróks.
Börn Hrefnu og Björns eru: 1. Gunnsteinn, f. 2.5. 1967, kona hans er Sigríður Ingunn Káradóttir, f. 19.8. 1965, börn þeirra: a) Steinunn, f. 1.8. 1985, maki Jón Eymundsson, f. 13.6. 1979, börn þeirra Eva Lilja, f. 28.3. 2008, Frosti Hrafn, f. 18.10. 2014 og Íris Mjöll, f. 4.10. 2016. b) Hafþór, f. 4.5. 1987, sambýliskona Steinunn Jónsdóttir, f. 17.8. 1989, börn þeirra eru Styrmir Örn, f. 19.12. 2015 og Aría Mist, f. 16.4. 2022. c) Ægir Björn, f. 27.9. 1994, sambýliskona Þórunn Katrín Björgvinsdóttir, f. 7.11. 1990, börn hennar Björgvin Skúli, f. 19.7. 2011 og Baltasar Ernir, f. 3.5. 2017. d) Hrannar Örn, f. 29.10. 1995. 2. Guðrún Halldóra, f. 3.6. 1968, sambýlismaður hennar Rögnvaldur Ottósson, f. 22.2. 1965, sonur þeirra er Björn Halldór, f. 28.10. 2012. 3. Sigurður Ingimar, f. 2.7. 1977, kona hans er Anna Szafraniec, f. 15.1. 1977. Dætur þeirra eru: a) Klara, f. 30.6. 2006, b) Lára, f. 30.7. 2009.
Meðfram bústörfum lét Hrefna ekki sitt eftir liggja er kom að félagsmálum og tók þátt í öllum helstu samfélagsverkefnum sveitarinnar í stjórn Kvenfélagsins sem hún var í til dauðadags, í sóknarnefnd, meðhjálpari til fjölda ára ásamt öllum þeim verkefnum sem vinna þurfti innan sveitar hvort sem það var að semja skemmtiatriði fyrir þorrablót eða annað. Hún var félagi í aðþýðulist þar sem hönnunarhæfileikar nutu sín þar sem mörg munstrin voru hönnuð frá grunni og var hún mikilvirk í framleiðslu allskyns handverks til sölu og gjafa.
Útför Hrefnu fer fram frá Sauðárkrókskirkju 30. desember 2023 kl. 13. Streymi á slóðinni:
http://mbl.is/go/5n32j
Þá er lokið þessum leik,
þrýtur allt sem byrjun hefur.
Segir í ljóði Gunnars Einarsson sem oft er nefnt Skagalagið og sungið er á þorrablótum á Skaganum. Það er víst að þínum leik mamma hér á meðal vor er lokið, minningar standa eftir, margar og góðar um æskuna með ykkur pabba og systkinum mínum á Skaganum. Hlýtt og öruggt umhverfi sem þið og reyndar allt samfélagið á Skaganum skapaði, samfélag þar sem allir skiptu máli. Ég finn sterkt hvað þetta umhverfi hefur mótað allt mitt líf, gildin mín, og viðhorf til samfélagsins. Þú varst stór hluti af þessu samfélagi og tókst þátt í öllu því fram fór í sveitinni hvort sem það var réttarkaffi kvenfélagsins eða undirbúningur þorrablóts og margt fleira. Það var venja í sveitinni að hjálpast að og þar tókst þú sem og allir aðrir þátt. Þú hafðir mikla ánægju af samskiptum við fólk og þá var rætt um málefni dagsins, það sem var að gerast í samfélaginu, þetta voru þér ánægjustundir og þú vildir alltaf koma mörgu á framfæri og í þeim tilgangi hafðir þú einstakt lag á að skipta viðstöðulaust um umræðuefni svo allt fengi athygli.
Það stóð ekki á að þú værir tilbúin að ræða við börnin þín um hvað eina sem okkur vanhagaði um og skipti þá engu þó að verkefni lægju fyrir, t.d. að afstaða hlutanna á heimilinu væri ekki eins og best verður á kosið. Þú hafðir mjög gaman af að taka á móti gestum og þá má nefna messukaffi sem framreitt var í Ketu að lokinni messu. Þar voru margar sortir af kökum og allskonar brauði. Það voru allflestir kirkjugestir sem komu í kaffi og spjall eftir messu, en ósagt skal látið hvort dró fólk meira til kirkju, guðsorð eða kaffið á eftir. Fyrir ömmubörnin var vinsælt að komast í kökurnar hjá ömmu, því til staðfestingar er ein smá saga af Hrannari mínum sem þá var stubbur í pössun hjá ömmu og afa og við foreldrarnir fjarri. Það var hringt og stubburinn spurður hvort allt væri ekki í lagi, hann taldi svo vera nema það að maturinn hjá ömmu væri bæði ógeðslegur og eitraður. Var þá spurt ertu svangur og svaraði hann að bragði, nei, amma býr til svo góðar kökur.
Búskapurinn var þér alltaf hugleikinn og hélst sá áhugi allt til dauðadags, það var alveg gefið að ef ég fór í sveitina í eitthvert rollurag þá hringdir þú um kvöldið til að fá fréttir um allt sem fram fór. Það er ekki hægt að segja að þú hafir farið áfallalaust í gegnum lífið, stóra áfallið var ótímabær dauði pabba fyrir 23 árum, það hafði mikil áhrif á alla fjölskylduna og þig þó að þú bærir alltaf harm þinn í hljóði.
Nú þegar komið er að kveðjustund er þakklæti mér efst í huga fyrir allan tíma sem þú gafst okkur, allar góðu stundirnar sem við áttum, flestar við eldhúsborðið í Ketu, alla hlutina sem þú töfraðir fram með prjónum, heklunál eða saumavél allt frá sokkum upp í jakkafötin sem þú saumaðir á Hafþór fyrir brúðkaupið okkar Siggu. Sennilega mun ég sakna mest símtalanna okkar sem oftast voru á kvöldin og tóku tíma, Sigga spurði þegar síminn hringdi á kvöldin, er þetta mamma þín, vitandi að þau símtöl tækju tíma.
Takk mamma, far í friði.
Gunnsteinn Björnsson.