Fernando Botero í vinnustofu sinni í New York árið 1964. Myndir hans og höggmyndir af herforingjum, biskupum drottningum og glæpamönnum gerðu hann að einum þekktasta listamanni heims. Hann lést 15. september í Mónakó 91 árs að aldri.
Fernando Botero í vinnustofu sinni í New York árið 1964. Myndir hans og höggmyndir af herforingjum, biskupum drottningum og glæpamönnum gerðu hann að einum þekktasta listamanni heims. Hann lést 15. september í Mónakó 91 árs að aldri. — The New York Times/Sam Falk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir nokkrar aldir þegar fornleifafræðingar fara að grafa í rústum okkar miklu borga munu þeir verða í vandræðum með að átta sig á innan um allt sem þeir munu finna hvað við töldum vera list á okkar tímum.

Í minningargrein um kólumbíska listamanninn Fernando Botero rifjaði sonur hans, Juan Carlos Botero, upp að faðir hans hefði átt sér uppáhaldssetningu: „Maður þarf að lifa ástfanginn af lífinu.“

„Þessi setning kom mér alltaf á óvart,“ skrifaði Botero yngri, „vegna þess að maðurinn, sem hafði hana endurtekið eftir, missti föður sinn þegar hann var fjögurra ára, lifði í fátækt áratugum saman, missti son sinn – litla bróður minn – þegar hann var fjögurra ára og barðist gegn öllu og öllum án þess að falla nokkurn tímann frá sannfæringu sinni og án þess að vita hvort sá dagur myndi koma að hann nyti minnstu velgengni eða viðurkenningar. En þetta sagði faðir minn aftur og aftur: „Lifðu ástfanginn af lífinu.““

Fernando Botero lést 15. september, 91 árs gamall, í Mónakó þar sem hann bjó.

Botero var einn þekktasti listamaður heims og áttu fáir jafn mikilli velgengni að fagna. Árum saman hafa verk hans selst á uppboðum fyrir sjö stafa tölu og höggmyndasýningar hans – þar á meðal 14 bronsstyttur á Park Avenue í New York-borg og sýning með rúmlega 30 styttum á Champs-Élysées í París – hafa alltaf dregið að mikinn mannfjölda. En málverkið, sem hann sagði oft að hann elskaði að vinna við umfram allt annað og hélt því áfram allt fram á síðustu daga sína, var þungamiðjan í lífi Boteros. Einstök fagurfræði hans með holdmiklum, ávölum fígúrum kveikti af og til gagnrýni, oft úr röðum listrýna, en aðdáendur hans voru margfalt fleiri.

Botero fæddist í Medellín í Kólumbíu árið 1932 og hóf þar feril sinn á unglingsaldri. Hann teiknaði fyrir dagblað og málaði myndir af nautabönum, sem hann seldi við La Macarena þar sem nautaötin fóru fram.

Þegar hann komst á tíræðisaldur spurðum við Botero snemma árs 2023 hvort hann vildi koma í viðtal við The New York Times um arfleifð sína og áhrif á listheiminn. Við ræddum við hann í tölvupósti og byrjuðum á að biðja hann um að velja það verk sem gæfi hvað besta mynd af ferli hans. Hann valdi málverk, sem hann lauk við árið 2000, „Taller de Costura“, – saumastofan.

Farið hefur verið yfir brotin úr samtalinu með tilliti til lengdar og skýrleika. – Armando Arrieta

Arrieta: „Taller de Costura“ er frábært dæmi um „boterisma“ – einstakan stíl þinn, með djörfum litum og digrum hlutföllum. Hvað segir þetta verk um líf þitt sem listamaður og þína arfleifð?

Botero: Þetta verk er eins og öll hin yfirlýsing um grundvallaratriði. Það er stefnuskrá um það sem málverk ætti að vera – samþætting lita, samsetningar, lögunar og teikningar. Efnið er nánast fyrirsláttur til að mála.

Í því eru sjálfsævisögulegir þættir, mynd af þremur konum á saumastofu, alveg eins og þeirri sem móðir mín átti eftir að hún varð ekkja ung að árum. Það er ekki óvenjulegt [að bæta við slíkum þáttum] – sú Rómanska Ameríka, sem ég þekkti þegar á mínum yngri árum, er gegnumgangandi í verkum mínum og myndir úr lífi mínu í Kólumbíu skjóta oft upp kollinum í olíumálverkum og teikningum sem ég geri.

Það voru aldrei málarar eða gáfumenn í minni fjölskyldu. Faðir minn var farandsali sem fór um fjöll Antioquiu með nokkra múlasna hlaðna varningi. Ég á nánast engar minningar um hann. Ég var bara fjögurra ára þegar hann dó, en ég man hvar hann geymdi múlasnana og ég man eftir gamla manninum sem hjálpaði honum, Don Antonio.

Þegar faðir minn dó vorum við hin (móðir mín, bræður mínir tveir og ég) skilin eftir í sárri fátækt, þannig að móðir mín hélt okkur uppi með því að nota hæfileika sína sem saumakona, eins og er lýst í þessu málverki. Minningar eins og þessar eru áberandi í mörgum minna verka; fósturjörðin hefur alltaf verið hráefni fyrir list mína.

Hvað varðar arfleifð mína held ég að hún verði öll mín list – sem var sköpuð á grundvelli sannfæringar minnar og var alltaf í samræmi við mínar hugmyndir.

Arrieta: Getur þú talað um hvernig þú slípaðir þennan stíl? Hvaðan kom hugmynd um að leggja áherslu á umfang? Hvað gerði að verkum að ýkt hlutföll urðu í brennidepli þinnar fagurfræði?

Botero: Umfang eða rúmtak var lykilþáttur listar í Grikklandi og Róm til forna. Það hvarf á miðöldum og fyrstu listamenn endurreisnarinnar enduruppgötvuðu það mörgum öldum síðar þegar Giotto tók af skarið. Upp frá því var umfang ráðandi þar til afstraktlistin kom fram á tuttugustu öldinni.

Fyrir mér er þessi þáttur lykilatriði. Það er ekki bara vegna þess að umfang gerir mögulegt að setja inn þrívíddaráhrif – að búa til sjónhverfingu ávalra forma og dýpt á yfirborði á borð við striga, pappír eða veggi – heldur vegna þess að það miðlar fegurð og munúð, sem eru grundvallarmarkmið verka minna.

Ég var heppinn að ég skyldi lesa Bernard Berenson, nafntogaða bandaríska sagnfræðinginn og listrýninn, þegar ég var 18 ára. Berenson veitti því vitsmunalegan skýrleika og heimspekilega dýpt sem fram að því hafði aðeins verið nokkuð sem ég hneigðist til af eðlisávísun eða kaus umfram annað. Hann færði rök að því að horfa til umfangs og hvernig það gæti komið á framfæri „áþreifanlegum gildum“, eins og hann orðaði það, í málverkinu. Ritgerðir hans höfðu varanleg áhrif á mig.

Sem nútímalistamaður get ég farið með ástríður mínar út í öfgar og þess vegna er umfang svona ríkjandi í verkum mínum. Áhugi minn stafar alls ekki af því sem fólk túlkar sem „það að vera feitur“. Fita og umfang eru gerólík vegna þess að á meðan það fyrra getur afbakað hluti höfðar það síðarnefnda til snertiskynsins og kallar fram fegurð og munúð.

Ekki bara það, umfang gefur tækifæri til að upphefja veruleikann. Eins og ég hef áður sagt er epli málað af meistara – risastórt, feiknlegt, umfangsmikið – frekar epli en hinn einfaldi ávöxtur okkar daglega lífs. Það er kjarni minnar fagurfræði: Ég leitast við að upphefja umfangið til að miðla fegurð og munúð, til að koma á framfæri tilfinningu um hið stórbrotna.

Arrieta: Eins og þú bentir á hafa minningar úr æsku haft djúpstæð áhrif á verk þín, þar á meðal nýlenduarkitektúrinn í Medellín og lögun og litir nautaatsins. Reyndar voru fyrstu málverk þín af nautabönum. Getur þú farið nánar út í það hvernig borgin og lífið í Kólumbíu veittu þér innblástur í verkum þínum?

Botero: Ég held að ætli maður vera altækur þurfi maður fyrst að vera heimakær og tilheyra ákveðnu landi. Þess vegna elskum við list Grikklands til forna, forna kínverska list, forna list frá Indlandi – vegna þess að þar er um að ræða ekta sköpunarverk sem bera upprunanum vitni.

List Goya tilheyrir Spáni og list Monets tilheyrir Frakklandi. Þessir listamenn náðu því að vera altækir [höfða til allra] með því að sýna sinn eigin heim og með því að leita í rætur sínar fóru þeir inn í innstu þræði hins almenna sem við deilum öll.

Þegar ég var unglingur var Medellín útkjálkaborg, algerlega einangruð frá restinni af landinu vegna þess að hún er umkringd fjöllum, sem gerði erfitt fyrir að leggja vegi og hraðbrautir. Komið var fram við borgarstjórann eins og forsetann og biskupinn á staðnum eins og páfa í óendanlegum skrúðgöngum þar sem haldið var upp á þjóð- eða trúarhátíðir. Fyrir mér var það að fara í messu [við þessi tilefni] eins og að fara í bíó og allir þessir þættir samfélagsins skildu eftir sig varanlegar myndir í minni mínu.

Nautaat var mjög vinsælt í þá daga. Dag einn fór frændi minn með mér í La Macarena og ég skemmti mér svo vel við þetta sjónarspil að ég ákvað að ég vildi verða nautabani. Það var auðvitað skammlífur draumur, en þessi reynsla vakti hjá mér ævilanga hrifningu á nautaati.

Þegar ég var 15 ára fór ég að selja litlar vatnslitamyndir af nautaati í verslun, sem var í eigu klæðskera, Rafaels Pérezar, þar sem fólk gat einnig keypt miða á nautaatið. Það voru fyrstu málverkin sem ég seldi. Ég hef gert mörg olíumálverk og teikningar af nautaati síðan vegna þess að viðfangsefnið er eitt fárra sem eru veisla forms og lita.

Í þá daga málaði ég þá veröld sem ég sá í kringum mig vegna þess að ég þekkti ekki annað í æsku minni – húsin, þjóðsögurnar, fólkið. En þessi heimur hefur áfram verið minn helsti innblástur.

Arrieta: Þú hefur sagt að þegar þú ákvaðst að verða málari hafir þú haldið að þú værir að dæma þig til lífs í fátækt. En eðlishvötin til að skapa list hafi verið svo sterk að það hafi ekki skipt máli. Hvernig myndir þú lýsa þessari eðlishvöt – hvaðan kom hún til þín?

Botero: Ég man að þegar ég sagði móður minni að mig langaði til að verða málari sagði hún: „Fínt, en þú átt eftir að svelta í hel.“ Á þessum tíma var þó satt að segja ekki svo mikið um listamenn á kreiki og þeir fáu sem bjuggu í borginni minni skrimtu á lúsarlaunum við að kenna list í skólum hins opinbera.

Ég tók þátt í fyrstu sýningunni minni með hópi listamanna á Tejicondor-listasýningunni í Medellín þegar ég var 16 ára. Fyrstu einkasýninguna setti ég upp í Leo Matiz-galleríinu í Bogotá þegar ég var 19 ára. Þar sýndi ég mín nýjustu verk, vatnslistamyndir og olíumálverk.

Ein af þessum myndum, „Grátandi kona“, endurspeglaði greinilega tilhneigingu mína til umfangs; það hefði mátt halda að einn handlegg hennar hefði ég málað í dag. En uppspretta ástríðu minnar fyrir umfangi og hið mikla aðdráttarafl þessarar köllunar hefur alltaf verið ráðgáta.

Ári eftir þessa sýningu sigraði ég í málarasamkeppni og notaði peningana til að ferðast í fyrsta skipti til Evrópu. Þar bjó ég í Flórens og helgaði mig rannsóknum á verkum Giottos, hins mikla meistara umfangsins, sem og annarra endurreisnarmálara, einkum Pieros della Francesca. Eftir þetta var dálæti mitt á að gera fígúratíva list og sækja innblástur í hina miklu list fortíðarinnar að algerri sannfæringu, sem og að ég skyldi helga mig umfanginu.

Ég held að ekki séu til orð til að lýsa tilfinningalegum viðbrögðum mínum við að sjá mikla list. Það er eins og alger gleði. Ég finn fyrir henni í hvert skipti – hún dvínar ekki. Þetta er nákvæmlega tilfinningin sem kviknaði þegar ég sá „Las Meninas“ eftir Velásquez í fyrsta skipti og „Næturvaktina“ eftir Rembrandt og portrettmyndir Holbeins. Fyrir mér eru þessi mikilfenglegu verk ógleymanleg og persónurnar í málverkunum finnst mér raunverulegri og meira til staðar í lífi mínu en ef þær stæðu við hliðina á mér.

Arrieta: Þú hittir Dorothy Miller heitna, sýningarstjóra við Nútímalistasafnið í New York, fyrir einskæra heppni og hún keypti málverkið þitt „Mona Lisa, tólf ára“ fyrir safnið snemma á sjöunda áratugnum þegar þú bjóst í New York. Þetta reyndist marka tímamót á ferli þínum. Getur þú sagt mér frá reynslu þinni á þessum tíma?

Botero: Dorothy Miller var í heimsókn hjá bandarískum málara sem bjó í sama húsi og ég í Greenwich Village og hann nefndi í framhjáhlaupi að á hæðinni fyrir neðan byggi listamaður frá Kólumbíu, sem málaði „feitt fólk“. Hún vildi sjá verk mín og leit inn sama dag. „Mona Lisa, tólf ára“ stóð upp við vegg og um leið og Miller kom inn benti hún á hana og sagði án þess að hika: „Við viljum fá þessa í safnið.“ Mér til furðu kom sendibíll næsta dag að sækja málverkið. Þetta var alger heppni.

Ég hafði aðeins verið í New York í nokkur ár og bjó eins og fátæklingur við litla velgengni. En við það að málverk var til sýnis á áberandi stað í MoMA, mikilvægasta nýlistasafni heims, fengu galleríeigendur skyndilega áhuga á verkum mínum og fjárhagsstaða mín tók stakkaskiptum. Eftir þetta tóku frægir listaverkasalar verk mín í sölu, þar á meðal Claude Bernard í París, Marlborough-galleríið í New York og gallerí Ernsts Beyelers í Basel.

Arrieta: Grípandi form og lúmskur húmor eru einkennismerki listar þinnar, einkenni sem hafa laðað fjölda aðdáenda að verkum þínum. Í heimildarmynd um líf þitt sagðir þú að margir listamenn og gagnrýnendur teldu að „veitti list ánægju væri hún búin að selja sig“. Þú sagðir að þessi hugsun væri fáránleg. Telur þú að list í dag sé orðin of flókin, eða of vitsmunaleg eða of alvarleg?

Botero: Listin var sköpuð til að veita ánægju. Ef þú tekur breiðtjaldssýn á sögu listarinnar kemst þú að því að 99% listar snúast um þemu sem að mestu vekja ánægju. Hver hefur til dæmis nokkurn tíma séð dramatískt impressjónistamálverk? Að auki var fyrr á öldum næstum hvert einasta málverk portrett, trúarleg sena, landslag eða kyrralífsmynd – þægileg þemu sem veita áhorfendum ánægju.

Húmor er líka kunnuglegur þáttur í listasögunni og getur verið eins og að blikka áhorfandann, gluggi sem býður honum að koma inn í listaverkið. Hann er til staðar í verkum margra mikilvægra listamanna, þeirra á meðal eftir Pieter Bruegel, Bosch, Goya og jafnvel Velázquez, sem málaði dverga við spænsku hirðina með bæði húmor og blíðu og málaði einnig stríðsguðinn Mars sem klúra fígúru.

Hinir miklu meistarar fortíðarinnar hafa alltaf verið innblástur í minni list; þess vegna er einnig að finna háðsádeilu, húmor og blíðu í verkunum. Og ég hef aldrei málað einn einasta pensildrátt án heimildar frá sögunni.

Hvað sem því líður er margt af list okkar daga allt annað en vitsmunaleg. Hún þykist vera það, en er það ekki. Margir listamenn nýútskrifaðir úr akademíunni finna leið til að mála, en það er allt annað en að fága stíl. Hinir miklu meistarar sköpuðu sér hver og einn einstakan og auðþekkjanlegan stíl, þróaðan í tímans rás og með erfiðisvinnu, afrakstur ævilangrar íhugunar um hið framúrskarandi. Slíkur stíll er samsafn hugmynda listamannsins og sýnilegur í hverju einasta verki. Hann er sýnileg heimspeki.

Arrieta: Ekki öll þín verk eru fyndin eða kaldhæðin, vitaskuld. Árið 2024 verða 20 ár liðin frá því að þú byrjaðir að gera Abu Ghraib-seríuna, sem byggðist á ljósmyndum af pyntuðum föngum sem teknar voru í hinu illræmda fangelsi í Írak. Nokkrum árum áður málaðir þú „Dauða Pablos Escobars“ þar sem þú lýstir víginu á leiðtoga Medellín-glæpasamtakanna ásamt tengdum listaverkum um hina myrku daga ofbeldis og eiturlyfja í Kólumbíu. Hvað varð til þess að þú skapaðir þessi pólitísku verk og blandaðir þér í hina opinberu umræðu?

Botero: Þegar ég komst að því að pyntingum hefði verið beitt í Abu Ghraib í Írak fannst mér ég tilneyddur til að segja eitthvað vegna þess að að mér blöskraði algerlega og ég var hissa hvað fáir listamenn gerðu hið sama.

Ég málaði ekkert annað í rúmt ár og ég lauk við seríu af málverkum og teikningum, sem ég síðar ánafnaði Kaliforníuháskóla í Berkley og American University í Washington. Þegar ég var búinn varð mér enn einu sinni ljóst að ekkert væri mikilvægara en stíll vegna þess að þegar listamenn eru trúir sinni fagurfræði mun fólk alltaf geta sagt hver höfundurinn er alveg sama hvað þeir mála. Út af stílnum.

Ég gerði einnig röð verka um ofbeldið í Kólumbíu á tíunda áratugnum þar sem ég málaði skæruliða, þjóðvarðliða og eiturlyfjasmyglara, þar á meðal glæpamanninn Pablo Escobar þegar hann lést. Þá var Escobar þegar orðinn að þjóðargoðsögn og ég málaði hann þar sem hann lá á þakinu á litlu húsi, hálfnakinn.

Ég held ekki að list geti breytt raunveruleikanum, en hún getur vissulega haft áhrif á sameiginlegt minni mannkyns. Frægasta pólitíska málverk seinni tíma, „Guernica“ eftir Picasso, kom ekki í veg fyrir að Franco væri við völd í næstum 40 ár til viðbótar, en í dag er hryllingur þess harmleiks skýr í hugum okkar út af þessu meistaraverki.

Þannig að siðferðisleg skyldurækni var ástæðan að baki þessari myndröð. Ég gat einfaldlega ekki þagað þegar slík ódæðisverk blöstu við og vegna þess að ég trúi að listin geti vissulega hjálpað okkur að muna hrylling fortíðarinnar og fengið fólk til að una aldrei því sem er óviðunandi.

Arrieta: Þú sagðir einhvern tímann í viðtali að þú værir „fulltrúi hins gagnstæða við það sem er að gerast í list í dag“. Hvað finnst þér um nútímalist á okkar tímum?

Botero: Einhver sagði einu sinni: „Til að búa til list þarft þú að gera eitthvað sem líkist list.“ Það sem verið er að gera í dag líkist ekki list.

Eftir nokkrar aldir þegar fornleifafræðingar fara að grafa í rústum okkar miklu borga munu þeir verða í vandræðum með að átta sig á innan um allt sem þeir munu finna hvað við töldum vera list á okkar tímum. Hún verður ósundurgreinanleg frá mörgu því sem þeir munu finna í ruslagámum. Það var ekki raunin í fortíðinni. Það var þannig að þegar bóndi fann brot úr fornri styttu eða vasa í dýrastíu vissi hann um leið að hann hefði fundið eitthvað verðmætt, listaverk. Hvort sem hann var fágaður og menningarlega sinnaður eða ekki, hann vissi það. Gæði og gildi listar voru öllum augljós.

Þannig er það ekki með það sem búið er til nú til dags, með margt af því sem fólk kallar list.

Arrieto: Ertu enn að mála?

Botero: Ég vinn enn á hverjum degi – ekki á þessum stóru flötum, sem ég málaði á olíumyndir allt mitt líf, en ég mála vatnslitamyndir, sem færir mér mikla ánægju. Þannig byrjaði ég og við endalokin líður mér eins og ég sé kominn heim.

© 2023 The New York Times Company