Liðskipti Ætlunin er að forgangsraða eftir aðgerðaflokkum.
Liðskipti Ætlunin er að forgangsraða eftir aðgerðaflokkum. — Morgunblaðið/Ásdís
Viðbótarfjárveitingu upp á milljarð króna var veitt til lýðheilsutengdra aðgerða við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi fyrir jól, en með þeim…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Viðbótarfjárveitingu upp á milljarð króna var veitt til lýðheilsutengdra aðgerða við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi fyrir jól, en með þeim fjármunum er ætlunin að standa straum af kostnaði við ýmsar læknisaðgerðir þar sem biðlistar hafa myndast, þ.e. liðskiptaaðgerðir, augnsteinaaðgerðir, bakaðgerðir, brjóstaminnkanir o.fl. og verður þessum fjármunum varið til þeirra.

„Við eigum eftir að fara í gegnum þetta og forgangsraða eftir aðgerðaflokkum og sjá hvar þörfin er brýnust,“ segir Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga í samtali við Morgunblaðið.

Segir Sigurður að við þá forgangsröðun verði litið til fjölda fólks á biðlistum eftir hverri aðgerð sem og til þess hve brýn þörfin sé, þar sem lengd biðlista segi ekki allt um það hve brýnt sé að viðkomandi einstaklingur komist í aðgerð. Jafnframt þurfi að ákveða hvernig peningarnir skiptist á milli ólíkra aðgerðaflokka.

Í lok mars á þessu ári var gerður samningur á milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkurinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um að gera 700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári. Ljóst er að framhald verður þar á eftir samþykkt fjárlaga, en mun dreifast á fleiri aðgerðarflokka en liðskipti sem verða þá eitthvað færri á næsta ári en voru á þessu. Segir Sigurður að unnið sé að gerð viðaukasamninga við framangreind fyrirtæki á grundvelli gildandi samninga um framhald liðskiptaaðgerða. Ætlunin sé að þeir samningar muni gilda fyrstu þrjá mánuði þessa árs, en síðan verði nýir samningar væntanlega gerði vegna seinni hluta ársins.

Eftir sem áður hefur fólk rétt á að fara í aðgerðir erlendis þegar það hefur beðið í tiltekinn tíma eftir slíkri. Segir Sigurður að talsvert sé um að fólk leiti eftir þessari þjónustu í útlöndum í ákveðnum aðgerðaflokkum, t.a.m. í liðskiptum, en einnig í öðrum flokkum eins og magaaðgerðum vegna efnaskipta eða þyngdarstjórnunar.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson