Víðir Sigurðsson
hefur verið fréttastjóri íþróttafrétta á Morgunblaðinu og mbl.is frá 2008 og starfað hjá Árvakri frá 2000. Áður var hann íþróttafréttamaður hjá DV, Þjóðviljanum og Dagblaðinu.
En annað hvert Evrópumót hefur enn meiri þýðingu fyrir mörg þátttökuliðanna, vegna þess að þá er um ólympíuár að ræða og stóra gulrótin fyrir marga er að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum. Þannig er þetta einmitt á þessu nýja ári, 2024. Ólympíuleikarnir eru haldnir í París síðsumars og þangað komast aðeins tólf útvaldar þjóðir í hvert skipti.
Leiðin á ÓL er því afar erfið sem sést best á því að þó íslenska karlalandsliðið hafi verið með á öllum Evrópu- og heimsmeistaramótum karla nema einu á þessari öld hefur liðið ekki komist á Ólympíuleikana frá árinu 2012.
Þá hafði liðið reyndar unnið það afrek að komast á þrenna Ólympíuleika í röð, 2004 í Aþenu, 2008 í Peking þar sem silfrið fræga var hengt um háls leikmanna, og svo 2012 í London þegar mikil sigurganga var stöðvuð á dramatískan hátt af Ungverjum í átta liða úrslitum.
Erfið leið til Parísar
Eins og áður sagði komast aðeins tólf lið á Ólympíuleikana hverju sinni. Fjögur lið eru með örugg sæti á leikunum í París en það eru gestgjafar Frakklands, heimsmeistarar Danmerkur, sigurvegarar undankeppninnar í Asíu sem eru Japanir, undir stjórn Dags Sigurðssonar, og Ameríkumeistarar Argentínu.
Evrópumeistararnir 2024 bætast við á mótinu sem framundan er í Þýskalandi og á sama tíma verða Afríkumeistarar krýndir í Kaíró og þeir fá sjötta ólympíusætið.
Þá eru sex sæti á lausu og um þau spila tólf þjóðir í sérstakri úrslitakeppni um miðjan mars. Til þess að komast þangað þarf Ísland að ná langt á Evrópumótinu í Þýskalandi, og alls ekki enda neðar en í níunda sæti, væntanlega ofar. Þetta ræðst þó endanlega af því hvernig öðrum liðum, sem eru örugg á leikana eða í úrslitakeppnina, vegnar á mótinu.
Í þessari tólf liða úrslitakeppni verða Spánn, Svíþjóð, Þýskaland, Noregur, Egyptaland, Ungverjaland, Brasilía og Barein, ásamt tveimur Evrópuþjóðum í viðbót og tveimur Afríkuþjóðum. Þeim verður síðan skipt í þrjá riðla þar sem tvö efstu liðin í hverjum riðli komast á Ólympíuleikana.
Það gæti orðið þrautin þyngri að ná einu af níu efstu sætunum á EM. Fyrst þarf Ísland að komast í gegnum sterkan undanriðil þar sem liðið mætir Serbíu 12. janúar, Svartfjallalandi 14. janúar og Ungverjalandi 16. janúar. Þar verður liðið helst að vinna alla leikina því komist liðið áfram í milliriðil tekur það með sér úrslitin úr einum leikjanna, gegn því liði sem fylgir því áfram úr riðlinum. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram en tvö lið fara heim. Á EM er enginn Forsetabikar.
Firnasterkur milliriðill
Þá tekur við firnasterkur milliriðill. Þar verða fjögur önnur lið og þau eru ekki af lakari endanum. Reikna má með að það verði Frakkland, Þýskaland, Spánn og Króatía.
Í þessum milliriðli, nái íslenska liðið þangað á annað borð, og mögulega í leik um sæti í kjölfarið, ráðast örlögin varðandi möguleikana á að komast á Ólympíuleikana. Þar eru aðeins tvö sæti í úrslitakeppninni í mars í boði en Spánn, Svíþjóð, Þýskaland, Noregur og Ungverjaland eru þegar komin í úrslitakeppnina vegna árangurs á síðasta heimsmeistaramóti.
Ísland þarf sem sagt að verða annað þeirra tveggja liða sem verða efst á EM af þeim liðum sem eru ekki þegar komin á Ólympíuleikana eða í úrslitakeppnina. Það skýrist því ekki fyrr en á lokaspretti milliriðilsins á EM hvaða þjóðir eru í raun að berjast um þessi tvö sæti í úrslitakeppninni í mars.
Ef Frakkland, Danmörk, Spánn, Svíþjóð, Þýskaland, Noregur og Ungverjaland enda í sjö efstu sætum EM verða það því liðin í áttunda og níunda sæti sem fá sætin tvö í úrslitakeppni ÓL.
Fjórða og jafnvel fimmta sæti í milliriðlinum sterka gæti því dugað Íslandi til að ná settu marki. Þegar líklegu andstæðingarnir þar eru skoðaðir má draga þá ályktun að íslenska liðið gæti verið í hörðum slag við gestgjafa Þýskalands, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, og hina seigu og þrautreyndu Króata um að ná nægilega góðu sæti.
Og þá gefum við okkur að Íslandi hafi tekist að komast í gegnum hinn sterka undanriðil með þremur erfiðum Austur-Evrópuþjóðum. Það má ekki mikið út af bera til þess að íslenska liðið verði einfaldlega á heimleið 17. janúar og taki ekki þátt í milliriðlakeppninni í Köln. Þá yrði ólympíudraumurinn einnig úr sögunni.
Óreyndur en samt ekki
Snorri Steinn Guðjónsson tók við þjálfun landsliðsins af Guðmundi Þ. Guðmundssyni á síðasta ári og er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót. Snorri er nýliði á þessum vettvangi en er þrautreyndur sem landsliðsmaður og ólympíufari. Hann var einn þeirra sem sóttu silfrið til Peking 2008 og bronsið á Evrópumótið 2010 en tók síðan eitthvert örlagaríkasta vítakast í sögu landsliðsins þegar það missti af sæti í undanúrslitum Ólympíuleikanna 2012 á naumasta mögulega hátt.
Snorri hefur náð góðum árangri sem þjálfari Vals undanfarin ár og hans lið spila öðruvísi handbolta en lið Guðmundar. Síðasta vetur sáum við hvernig Valsliðið undir stjórn Snorra kom sterkum liðum í Evrópudeildinni í opna skjöldu með hröðum leik og í vináttuleikjunum við Færeyinga fyrr í vetur mátti sjá helstu áherslur hans.
Ljóst er að íslenska liðið mun spila hraðan handbolta á EM og leikir þess munu væntanlega einkennast af mörgum mörkum, keyrslu fram og til baka og færri uppstilltum sóknum en í tíð forvera hans. Skiptingum milli varnar og sóknar fækkar eðlilega fyrir vikið.
Margir í fremstu röð
Er Snorri með leikmenn sem geta fylgt eftir hugmyndum hans um hraðan handbolta þar sem endalaust er keyrt í bakið á andstæðingunum þegar þeir missa boltann, eða skora mark? Hann er í það minnsta með hóp sem getur gert harða atlögu að ólympíusætinu ef liðið nær sér á strik og sleppur þokkalega vel við meiðsli.
Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason eru í fantaformi með Evrópumeisturum Magdeburg og svo er Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem tryggði Magdeburg Evrópumeistaratitilinn í vor, að taka sín fyrstu skref á þessu tímabili með sama liði eftir hálfs árs fjarveru.
Bjarki Már Elísson og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru hornamenn í heimsklassa, allir vita hvað Aron Pálmarsson getur gert þegar hann nær sér á strik, Viktor Gísli Hallgrímsson er stöðugt að festa sig betur í sessi sem markvörður í einu af betri liðum Evrópu og svo er aldrei að vita nema Haukur Þrastarson springi endanlega út eftir sína löngu meiðslasögu.
Kristján Örn Kristjánsson og Viggó Kristjánsson eru örvhentar stórskyttur með mikla reynslu úr tveimur af sterkustu deildum heims og geta hvenær sem er leyst Ómar Inga af í sóknarleiknum. Það kann að reynast dýrmætt að gefa honum eins mikla hvíld og hægt er og halda honum ferskum allt mótið.
Spennandi hópur
Þannig má lengi telja og það er ljóst að Snorri fer með ákaflega spennandi íslenskan hóp á þetta Evrópumót. Flestir íslensku leikmannanna spila með mjög sterkum liðum í bestu deildum álfunnar.
Sem dæmi spila sex þeirra í Meistaradeild Evrópu í vetur og þrír í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Níu úr tuttugu manna hópnum leika í þýsku 1. deildinni, sterkustu deild heims.