Fjölnota Lag Eydísar Kvaran „Lampinn“ kom út í gær og í því leikur prótó-langspilið stórt hlutverk.
Fjölnota Lag Eydísar Kvaran „Lampinn“ kom út í gær og í því leikur prótó-langspilið stórt hlutverk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
The Intelligent Instruments Label gaf í gær út fjórða lagið af átta þar sem hljóðfærið prótó-langspil er í meginhlutverki. Tilgangur útgáfunnar er að sýna listrænan árangur rannsóknarverkefnis með fjölbreyttum hópi eftirtalinna listamanna; Berglind…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

The Intelligent Instruments Label gaf í gær út fjórða lagið af átta þar sem hljóðfærið prótó-langspil er í meginhlutverki. Tilgangur útgáfunnar er að sýna listrænan árangur rannsóknarverkefnis með fjölbreyttum hópi eftirtalinna listamanna; Berglind María Tómasdóttir, Eydís Kvaran, Egill Sæbjörnsson, Kira Kira, Eyjólfur Eyjólfsson, Keli, Esther Ýr Þorvaldsdóttir, Linus Orri og Davíð Brynjar.

Morgunblaðið náði tali af Esther Ýri Þorvaldsdóttur sem er jafnframt verkefnastjóri útgáfunnar og spurði hana nánar út í verkefnið sem hefur vakið athygli víða.

„The Intelligent Instruments Label er sem sagt undirverkefni stórrar rannsóknar Intelligent Istruments Lab sem snýr að því að skilja gervigreind 21. aldar í gegnum skapandi tónlistartækni. Þessi langspilsplata er því í raun afurð fyrstu rannsóknarinnar. Að útskýra svona vísindarannsókn getur verið þungur texti fyrir marga og tímafrekur en það geta allir hlustað á tónlist.“

Í samræðu við hljóðfærið

Esther segir mestan tíma hafi farið í smíðina á hljóðfærinu og þar hafi nokkrir af listamönnunum hér að ofan komið nálægt. Verkefnið hafi fengið styrk fyrir útgáfunni frá Hljóðritasjóði og stefnt er á að safnplatan komi út 2. febrúar 2024.

„Lögin eru mismunandi og rannsóknin snýst um að kanna hvernig hver og einn nálgast hljóðfærið og öfugt því innbyggt er flókið algrím sem aðlagar sig hverjum og einum listamanni.“

Geturðu útskýrt það nánar?

„Ef maður horfir á langspilið þá sér maður að það er holt að innan og undir strengjunum eru svartar rendur sem eru rafseglar. Inn í hljóðfærinu er svo lítil tölva sem heitir Bela. Þessi litla tölva geymir algrímið sem teymið okkar hefur verið að hanna og stýrir því hvernig hljóðfærið bregst við þegar spilað er á það.“

Þið Keli sömduð fyrsta lagið sem kom út, „Gufunes“. Hvernig nálguðust þið langspilið?

„Við Keli erum bæði trommarar að upplagi þannig að við byrjuðum eiginlega stax á að nota það eins og ásláttarhljóðfæri. Kipptum eða slógum í strengina til að sjá hvað myndi gerast. Hljómur strengja deyr út eftir smá tíma en hér dó tónninn út en lifnaði svo við aftur. Þessu stjórnuðum við ekki. Hins vegar prófuðum við mikið að afstilla strengina á meðan hljómurinn ómaði og þá vorum við við stjórnvölinn.“

Hvernig upplifun var þetta?

„Allt öðruvísi en sú sem ég hef vanist við á öðrum hljóðfærum. Þarna er einhvers konar vald tekið af þér en að sama skapi er maður í ákveðinni samræðu við hljóðfærið.“

Hver og einn listamaður fékk fullkomið skáldaleyfi og því eru lögin mjóg ólík, segir Esther Ýr.

„Í okkar tilfelli var algrímið ekki jafn fyrirferðarmikið og til dæmis hjá Eydísi. Þar heyrist það mjög greinilega þegar tölvan sjálf tekur við þeim nótum eða þeirri sköpun sem hún lagði upp með og leggur út af þeim.“

Í lokin áréttar Esther Ýr að tilgangur rannsóknarinnar sé í sjálfu sér ekki að hanna og smíða hljóðfæri heldur sé um hugvísindalega rannsókn að ræða.

„Við erum að skoða hvað gerist þegar gervigreindin tekur yfir eða fram fyrir hendurnar á listamanninum og hvernig maður bregst við því. Prótó-langspilið er bara einn partur af því stóra verkefni.“

Prótó-langspil

Hljóðfærið er samruni hefðbundins íslensks langspils og raftónlistarþátta. Langspilið er sjálf-ómandi, útbúið algrímum sem bregðast við og breyta ómun strengjanna þegar á það er leikið, sem gefur hljóðfærinu sjálfu (gervigreindinni) ákveðið listrænt „frelsi“.

Tímamótastyrkur

300 milljóna króna styrkur

Upphaf verkefnisins má rekja til tveggja milljóna evra styrks sem Evrópska rannsóknarráðið veitti prófessor Þórhalli Magnússyni, deildarforseta tónlistardeildar Sussex-háskóla í Englandi og rannsóknarprófessor við LHÍ, árið 2020 en Þórhallur hefur unnið að rannsóknum á tölvutónlist og gervigreind í yfir tvo áratugi og hefur á síðustu árum fært sig lengra í átt að heimspekilegri þýðingu þess að nota gervigreind við skapandi vinnu.

Verkefnið heitir Snjallhljóðfæri: að skilja gervigreind 21. aldar í gegnum skapandi tónlistartækni og er hýst hjá Listaháskóla Íslands. Rannsóknin hefur staðið yfir í tvö og hálft ár og heildartímarammi þess er fimm ár. Þrír doktorsnemar, tveir nýdoktorar og hjóðfærahönnuðir voru ráðnir til verkefnisins. Aðrir umsjónarmenn eru Jack Armitage, Halldór Úlfarsson og Victor Shepardson.

Höf.: Höskuldur Ólafsson