— Reuters/Kim Hong-Ji
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nóvember Rúmlega 50 þúsund maraþonhlauparar hlupu í gegnum fimm borgarhluta New York þegar þeir þreyttu maraþonhlaupið 5. nóvember. Hlaupið er það umfangsmesta í heimi, að sögn skipuleggjenda, New York Road Runners

Nóvember Rúmlega 50 þúsund maraþonhlauparar hlupu í gegnum fimm borgarhluta New York þegar þeir þreyttu maraþonhlaupið 5. nóvember. Hlaupið er það umfangsmesta í heimi, að sögn skipuleggjenda, New York Road Runners. Tamirat Tola frá Eþíópíu sigraði í karlahlaupinu og kom í mark á 2:04:58. Bætti hann metið í hlaupinu fyrir kílómetrana 42 um átta sekúndur. Hellen Obiri frá Keníu kom fyrst í mark í kvennahlaupinu á 2:27:23. Catherine Debrunner frá Sviss bætti kvennametið í hjólastólakeppninni um rúmar þrjár mínútur á tímanum 1:39:32 og Marcel Hug frá Sviss sigraði karlamegin á 1:25:29, sem er aðeins þremur sekúndum undir meti, sem hann setti sjálfur. Þetta var sjötti sigur hans í maraþoninu. Fjöldi manns fylgdist með hlaupinu eftir því sem leið lá, hélt skiltum á loft, barði kúabjöllur og fagnaði. Þá má ekki gleyma lúðrasveitunum og sumir höfðu jafnvel með sér karókí-græjur þegar þeir hófu upp raust sína til að létta hlaupurum sporin.

Nóvember Réttarhöld hófust gegn Donald Trump, fyrrverandi forseta, á Manhattan í New York vegna ásakana um að hann hefði ýkt virði eigna fyrirtækja sinna til að fá hagstæðari lán og tryggingar en ella hefðu staðið til boða. Letitia James, saksóknari í New York, höfðaði málið gegn Trump og sonum hans, sem tóku við viðskiptum hans þegar hann varð forseti árið 2017. Fylgir krafa um 250 milljónir dollara í skaðabætur auk þess sem farið er fram á að Trump og sonum hans verði meinað að reka fyrirtæki í New York. Trump þvertekur fyrir að hafa haft rangt við og segir „réttarhöldin mjög ósanngjörn“. Sérstaka athygli vakti framburður Ivönku Trump, dóttur hans, sonanna Donalds Trumps Jr. og Erics Trumps, og fyrrverandi lögmanns hans, Michaels Cohens. Arthur F. Engoron, dómari í málinu, fyrirskipaði Trump að tjá sig ekki um það og var hann sektaður í tvígang um 15.000 dollara fyrir að brjóta bannið. Áfrýjunardómstóll aflétti síðar banninu, í það minnsta tímabundið. Trump fór einnig fram á að málinu yrði vísað frá og sagði að það bæri öll merki hlutdrægni.

Desember Þegar vetur hélt innreið sína í norðvesturhluta Bandaríkjanna þurftu embættismenn í New York að finna skjól fyrir 66 þúsund förumenn, sem dvelja í skýlum borgarinnar. Fjölskyldur geta að hámarki dvalið 60 daga í skýlunum og einstæðingar 30 daga. Þá þurfa þeir að yfirgefa skýlin og sækja um húsnæði á ný. Sumir bregða á það ráð að sofa utandyra í nístandi kuldanum á meðan þeir bíða í löngum röðum eftir að fá úthlutað flet. Rúmlega 140 þúsund hælisleitendur hafa komið til borgarinnar síðan í byrjun árs 2022 og á borgin í erfiðleikum með að bregðast við neyðinni með takmörkuð fjárráð.

Desember Sex mánuðum eftir að til átaka kom milli Meitei-fólksins, sem er í meirihluta, og Kuki-fólksins, sem er í minnihluta, í ríkinu Manipur í norðausturhluta Indlands í maí höfðu ekki verið borin kennsl á jarðneskrar leifar tuga fórnarlamba róstanna. Hundruð manna létu lífið í átökunum og þúsundir misstu heimili sín. Orsök blóðbaðsins var deila um hvaða hópar ættu að fá sérstaka þjóðflokkastöðu, sem tryggir yfirráð yfir landi og opinber störf. Ofbeldið var að mestu gengið niður í desember, en enn var óttast um öryggi og afdrif fjölskyldna hinna látnu, sem ekki hafði verið vitjað og flestir tilheyra Kuki-fólkinu. Þá er deilt um kröfu Kuki-fólksins um fjöldaútför og minnisvarða.