Listamenn Cirque du Soleil æfa sig fyrir uppfærslu á „Messi10“ þar sem blandað er saman fótbolta og sirkuslistum til að segja sögu Lionels Messis.
Listamenn Cirque du Soleil æfa sig fyrir uppfærslu á „Messi10“ þar sem blandað er saman fótbolta og sirkuslistum til að segja sögu Lionels Messis. — Reuters/Mariana Nedelcu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Því miður virðist ætla að verða meira um skjálfta en að létt verði stjakað við heiminum árið 2024. Árið 2023 markaðist af vaxandi spennu og kaflaskiptum á alþjóðasviðinu. Í apríl fór Indland fram úr Kína sem fjölmennasta land heims; skemmti- og…

Masha Goncharova

Því miður virðist ætla að verða meira um skjálfta en að létt verði stjakað við heiminum árið 2024. Árið 2023 markaðist af vaxandi spennu og kaflaskiptum á alþjóðasviðinu. Í apríl fór Indland fram úr Kína sem fjölmennasta land heims; skemmti- og bílaiðnaðurinn í Bandaríkjunum var í uppnámi í maí, júlí og september vegna verkfalla; fyrsta vikan var sögð hlýjasta vika í heimi frá því mælingar hófust, gróðureldar ollu meira tjóni en áður voru dæmi um í Kanada, sögulegur þurrkur herjaði í skógum Amason í Brasilíu og fellibylurinn Dóra olli banvænustu eldum, sem geisað hafa í Bandaríkjunum í meira en heila öld, á eyjunni Maui. Í júlí og ágúst voru framin valdarán í Níger og Gabon og eru þau þá orðin tíu alls í „valdaránsbeltinu“ í Afríku frá 2020. Japanar lögðu til metaukningu upp á 52 milljarða dollara (7,1 billjón króna) til varnarmála vegna spennunnar í samskiptum við Kína. Í september hækkuðu Svíar, vonbiðlar um inngöngu í Atlantshafsbandalagið, útgjöld sín til varnamála um 11 milljarða dollara (1,5 billjónir króna) og vísaði Pal Jonson, varnarmálaráðherra landsins, til „alvarlegasta ástandsins í öryggismálum frá lokum síðari heimsstyrjaldar“; og í október framdi Hamas hrikalegustu fjöldamorð á almennum borgurum í sögu Ísraels með því að gera árás frá Gasasvæðinu.

Í vændum er 2024, sem verður prófsteinn á lýðræðið: Í Bandaríkjunum gæti verið í aðsigi eitt afdrifaríkasta kosningaár seinni tíma, en í Rússlandi mun Vladimír Pútín forseti sennilega eiga frekar auðvelda leið að sínu fimmta kjörtímabili í forsetakosningum í landinu. Síðan er Úkraína þar sem verið gæti að Volodimír Selenskí þyrfti að sækjast eftir endurkjöri 31. mars þegar hans fyrsta kjörtímabili lýkur, nema herlög verði áfram í gildi, sem yrði til þess að kosningum yrði frestað.

Árið 2024 er atburða af ýmsum toga að vænta – allt frá mikilvægum kosningum til alþjóðlegra minningarathafna – sem munu margir minna á mikilvægi mannlegra samskipta og samfélags á erfiðum tímum.

JANÚAR

Bandaríkin, 1. janúar: Stríðnispúkaútgáfan af Mikka Mús verður almannaeign þegar einkaréttur Disney á frumgerð Mikka úr „Steamboat Willie“ rennur út. Þessi hrekkjótti Mikki er þekktur fyrir grikki á borð við að nota lifandi dýr sem hljóðfæri og krækja krók í nærbuxurnar á Mínu Mús til að fá hana um borð í bát með sér. Lögfræðiteymi og almannatenglar Disney munu hér eiga í höggi við netið. Megi leikarnir hefjast.

Holland, 1. janúar: Nemar í Hollandi verða sviptir snjallfríðindum á skólatíma og nær það til snjallsíma, -úra og spjaldtölva. Hollendingar fylgja þar fordæmi Frakka frá 2018 og Kína frá 2021. Verið getur að tækjabannið verði til þess að kynslóð, sem er ókunnug heimi án snjallfyrirtækja, muni leiðast óbærilega, en hollenska menntamálaráðuneytið á von á að það muni gera nemendum kleift að einbeita sér betur.

FEBRÚAR

Venesúela, 21. febrúar: Cirque du Soleil hefur samið akróbatískan óð til eins mesta fótboltamanns allra tíma og nefnist hann „Messi10“ og heldur áfram sýningaferðalagi sínu um Rómönsku Ameríku. Þetta er í fyrsta skipti sem Cirque du Soleil tekur fyrir þema úr íþróttum og var verkið frumflutt í Barselónu 2019. Það hefur verið uppfært þannig að nú er saga Messi sögð frá barnæsku þar til hann fagnaði heimsmeistaratitlinum í fótbolta með Argentínu 2022.

Þýskaland, Pólland og Eystrasaltsríkin, febrúar og mars: Staðfastur varnarmaður nefnist heræfing sem Atlantshafsbandalagið setur á svið á vetrarmánuðum. Þetta er umfangsmesta varnaræfing bandalagsins síðan kalda stríðinu lauk. Þar munu aðildarríki NATO auk Svíþjóðar, sem bíður inngöngu í bandalagið, tefla fram landher, flugher og sjóher. Æfingin er til marks um spennuna í samskiptum Rússlands og Vesturlanda.

MARS

Bandaríkin, 4. mars: Réttarhöldin yfir Donald J. Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, munu hefjast einum degi fyrir prófkjörin á ofurþriðjudegi þegar repúblikanar kjósa þriðjung fulltrúa fyrir landsþingið þar sem forsetaframbjóðandi flokksins verður valinn. Í maí hefjast síðan réttarhöld í máli um það hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar. Þótt ólíklegt sé að þessi mál muni standa í vegi fyrir að rebúblikanar útnefni hann forsetaframbjóðanda sinn gætu þau varpað skugga á kosningabaráttu hans.

England, 7.-10. mars: Í hundalífinu er Crufts, umfangsmesta hundasýning heims, eins og galaballið fyrir Borgarlistasafnið í New York, rétti staðurinn til að þefa af öðrum og láta aðra þefa af sér. Charles Cruft, sem seldi hundamat, stofnaði sýninguna 1891. Nú koma þar fram rúmlega 18.000 hundar og 160.000 hundavinir fylgja. Sumum fylgjendum gamalla hefða finnst hins vegar að ýmislegt sjónarspil hundasýninga samtímans, eins og fimiverkefni undir dynjandi popptónlist eða notkun hárfroðu og hárúða, eigi ekki heima þar sem sýndir eru heimsins virðulegustu hundar.

Rússland, 17. mars: Vladimír V. Pútín, sem hefur veitt Rússum forustu ýmist sem forsætisráðherra eða forseti frá 1999, mun sækjast eftir að sitja sitt 5. kjörtímabil. Kosningabaráttan verður sennilega átakalítil fyrir Pútín, sem mun eiga í höggi við andstæðinga með vottun og samþykki frá Kreml. 2020 var stjórnarskrá Rússlands breytt að undirlagi Pútíns til að gera honum kleift að sitja áfram allt til ársins 2036.

Frakkland, 26. mars til 14. júlí, og Bandaríkin, 8. september til 8. janúar: Til að minnast þess að 150 ár eru liðin frá fyrstu impressjónistasýningunni munu Orsay-safnið í París og Þjóðlistasafnið í Washington halda sýninguna „París 1874: Augnablik impressjónistanna“ með 130 verkum eftir Claude Monet, Auguste Renoir, Edgar Degas, Berthe Morisot, Camille Pissarro, Alfred Sisley og Paul Cézanne, sem allir sýndu verk sín á fyrstu sýningunni við Boulevard des Capucines þrátt fyrir vanþóknun Le Salon í París, sem naut velvilja ríkisins og einokaði listmarkaðinn.

APRÍL

Bandaríkin, Mexíkó og Kanada, 8. apríl: Setjið á ykkur sólmyrkvagleraugun og sjáið þegar máni skyggir á sólu í kosmískum kossi og steypir Kyrrahafinu, Mexíkó, hluta af Bandaríkjunum, Kanada og Norður-Atlantshafi í myrkur um miðjan dag. Þetta verður síðasti sólmyrkvinn í Bandaríkjunum næstu 20 árin. Halda má upp á sólmyrkvann á hátíðum í Arkansas (Total Eclipse of the Heart-hátíðin) og Mexíkó (Portal Eclipse-hátíðin). Hægt er að hlaða niður appinu SunSketcher 2024 hvar sem maður er. Það er frá NASA og geta þeir sem verða vitni að almyrkva myndað hann frá ýmsum sjónarhornum og lagt sitt af mörkum til rannsókna stofnunarinnar á eðlisfræði sólarinnar.

Indland, apríl til maí: Gengið verður til þingkosninga í fjölmennasta lýðræðisríki heims. Þar mun sitjandi forsætisráðherra, Narendra Modi, eiga að etja við nýtt sameiginlegt framboð allra 26 stjórnarandstöðuflokka landsins. Hinu sameiginlega framboði er teflt fram gegn þjóðernisstefnu Modis, sem hefur dregið taum Hindúa og sat bak við skilti með áletruninni Bharat, sem merkir Indland á hindí og þótti það bera pólitík hans vitni, á fundi G20, sem hann hýsti í maí.

Ítalía, 20. apríl til 24. nóvember: Á Feneyjatvíæringnum, sem nú verður haldinn í 60. skipti og á sér engin listsýning á okkar dögum lengri sögu, verður yfirskriftin „Útlendingar alls staðar“. Í þeim anda var Adriano Pedrosa, safnstjóri Listasafns São Paulo, valinn sýningarstjóri og er hann sá fyrsti frá Rómönsku Ameríku til þess. Afstraktmálarinn og myndhöggvarinn Jeffrey Gibson verður fulltrúi Bandaríkjanna. Hann er af ættum Choctaw og Cherokee og hefur listamaður úr röðum frumbyggja ekki áður verið fulltrúi Bandaríkjanna. Hildigunnur Birgisdóttir verður fulltrúi Íslands.

MAÍ

Kína: Kínverjar hyggjast senda geimfar til tunglsins og er ferðin kölluð Chang’e. Ætlunin er að safna tveimur kílóum af sýnum af skuggahlið (eða tæknilega fjarhlið) tunglsins, þeirri hlið, sem alltaf snýr frá jörðu vegna samstillts snúnings fylgihnattarins á braut sinni. Ekki hefur enn fengist staðfest hvort fylgitónlist ferðarinnar sé eftir Pink Floyd.

JÚNÍ

Mexíkó, 2. júní: Í fyrsta skipti eru tvær konur í kjöri til forseta í stærsta spænskumælandi landi heims, Mexíkó. Frambjóðandi flokksins við völd, Morena-flokksins, er Claudia Sheinbaum, fyrrverandi borgarstjóri Mexikóborgar og eðlisfræðingur. Hún er talin undir verndarvæng Andrésar Manuels Lópezar Obradors, núverandi forseta landsins. Andstæðingur hennar er Xóchitl Gálvez, tölvuverkfræðingur og tæknifrumkvöðull, sem óx úr grasi í fátækt í sveit og er þekkt fyrir að vera jarðbundinn í framkomu, klæðast frumbyggjafötum og hjóla um Mexíkóborg.

Ástralía, 14. júní til 6. október: „Faraó“ nefnist tímamótasýning sem sett verður upp í Ástralíu og nær til forn-egypskrar listar og menningar í yfir 3.000 ár. Sýningin verður í Þjóðlistasafni Viktoríu í Melbourne og nýtur umfangsmesta láns á gripum, sem Breska safnið (British Museum) hefur nokkurn tímann látið frá sér fara. Til sýnis verða rúmlega 500 forn-egypskir munir, sem smíðaðir voru á tímum faraóanna, þeirra á meðal Tutankhamen, sem komst til valda níu ára og ríkti þar til hann lést 19 ára. Inntak sýningarinnar er hlutverk og siðir faraóanna.

JÚLÍ

Spánn, 15. til 19. júlí: 20. grasafræðiþingið verður haldið í Madrid. Þar munu grasafræðingar greiða atkvæði um að breyta dýranöfnum sem þykja ósæmileg. Eitt dæmi er nafnið Hypopta mussolinii, sem var gefið fiðrildi sem fannst í Líbíu og var nefnt þegar landið taldist ítölsk nýlenda.

Frakkland, 26. júlí til 11. ágúst: Ólympíuleikarnir verða haldnir í París og vill svo til að öld er liðin síðan þeir voru haldnir þar síðast árið 1926. Horfið verður frá hinni grísku hefð að halda opnunarhátíðina á leikvangi. Mun bátafloti flytja 15 þúsund íþróttamenn, sem keppa munu á leikunum, niður eftir Signu. Áhorfendur með miða geta fylgst með af neðri bökkum árinnar, en efri bakkarnir verða opnir almenningi frítt og er það einnig í fyrsta skipti í seinni tíma sögu leikanna. Brimbrettakeppnin verður haldin í rúmlega 2.400 km fjarlægð í þorpinu Teahupo’o á Tahiti. Heiti þess merkir „veggur höfða“ á tahítísku og á að lýsa foldgnáum öldum, sem teygja sig nærri átta metra til himins og skella þar á ströndinni. Notuð verður gervigreind til að fylgjast með gestum og greina og tilkynna óviðeigandi hegðun. Rússland og Belarús verða ekki með út af stríðinu í Úkraínu. Gvatemala verður einnig fjarri vegna afskipta stjórnvalda þar af störfum ólympíunefndar landsins.

ÁGÚST

Ítalía, 7. til 23. ágúst: Á Rossini-hátíðinni verða fimm óperur eftir tónskáldið settar upp í Pesaro, fæðingarborg hans við Adríahafið. Óperuunnendur taki einnig eftir því að Pesaro verður höfuðborg menningar á Ítalíu árið 2024.

Indónesía, 17. ágúst: Vegna þess hvað Djakarta er orðin þéttbýl auk þess sem hún er að sökkva mun Joko Widodo, forseti Indónesíu, vígja nýja höfuðborg, Nusantara, á Borneó, þriðju stærstu eyju heims. 30 milljörðum dollara (4,1 billjón króna) hefur verið varið í verkefnið. Vígsla Nusantara verður á þjóðhátíðardegi Indónesa og verður hulunni svipt af forsetahöllinni og öðrum stjórnarbyggingum.

SEPTEMBER

Bandaríkin, 10. september 2024 til 2. febrúar 2025: J. Paul Getty-safnið hyggst skipuleggja 60 sýningar í suðurhluta Kaliforníu undir yfirskriftinni „PST Art: Art & Science Collide“. Þessi viðburður er haldinn á fimm ára fresti. Á sýningunum á næsta ári verður tæknin, sem hefur gert manninum kleift að kanna bæði hið smáa og stóra í heiminum í kringum hann, í brennidepli. Meðal muna verður frönsk smásjá úr safni Gettys; handrit, sem sýnir hvernig miðaldastjörnufræði skaraðist við læknisfræði, yfirskilvitlegar uppgötvanir og lífið á miðöldum; og fjögurra feta glæra (í raun hreyfimynd frá 18. öld) eftir Louis Carrogis de Carmontelle.

OKTÓBER

Páfagarður: Í þessum mánuði verður lokasamkoma þriggja ára þings kölluð saman að beiðni Frans páfa til að endurskoða hvert katólsk trú eigi að stefna. Samkundan hefur verið kölluð kirkjuþing um samstöðu og tekur á málum eins og hlutverki kvenna í kirkjunni og blessun hjónabanda samkynhneigðra. Gæti þingið leitt til umbóta, sem myndu setja mark sitt á arfleifð Frans páfa.

Rússland: Leiðtogafundur ríkja sem ganga undir heitinu BRIC (stendur fyrir Brasilíu, Rússland, Indland og Kína) verður haldin í borginni Kasan í suðvesturhluta Rússlands. Ríkin eru keppinautur G7-ríkjanna. Í kringum fundinn verður sex nýjum ríkjum bætt í félagsskapinn, Argentínu, Egyptalandi, Íran, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Leiðtogar í þessum hópi hafa fagnað fyrstu stækkun hans í 13 ár sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, kallar „birtingu nýrrar skipanar í heimsmálum“. Ebrahim Raisi, forseti Írans, sagði við íranska ríkissjónvarpið, Al Alam, að þetta sýndi „hrörnun einhliða nálgunar“.

NÓVEMBER

Bandaríkin, 5. nóvember: Kjörseðillinn í kosningunum í nóvember kann að vera spegilmynd af einvígi Josephs R. Bidens og Donalds J. Trumps árið 2020, en kosningarnar sjálfar gætu orðið allt önnur pólitísk ella. Þetta gætu orðið dýrustu kosningar í sögu Bandaríkjanna. Búist er við að 10 milljörðum dollara (1,4 billjónum króna) verði eytt í pólitískar auglýsingar, að mati fyrirtækisins AdImpact. Að auki eru pólitískar auglýsingar orðnar vaxandi áhyggjuefni út af gervigreind og þætti hennar í að búa til djúpfalsanir og breiða út misvísandi og rangar upplýsingar. Þótt bandaríska kosningaeftirlitið hafi enn ekki gefið út neinar reglur um notkun gervigreindar í pólitískum auglýsingum hafa tæknifyrirtæki á borð við Google þegar gefið út að taka verði fram að stuðst hafi verið við gervigreind í öllum pólitískum auglýsingum, þar sem tæknin sé notuð.

Bandaríkin: Í fyrstu mönnuðu ferðinni í 52 ár munu fjórir geimfarar halda til tunglsins til tíu daga dvalar. Í áhöfninni verður fyrsti svarti geimfarinn og fyrsta konan til að fara í tunglferð. Ferðin er á vegum Bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA, og nefnist Artemis II. Safnað verður upplýsingum um borð í Orion-geimfarið og metnar forsendur Artemis-áætlunarinnar um að senda fleiri menn á yfirborð tunglsins.

DESEMBER

Karíbahafið, 6. desember: Árið 2017 flögguðu frægðarmenni á borð við Kendall Jenner og Bellu Hadid Fyre-hátíðinni, sem átti að vera tónlistarhátíð glamúrs og munaðar. Viðburðurinn fór allur í handaskolum. Gestir urðu strandaglópar á eyðieyju í Bahama-klasanum. Vatn var af skornum skammti og eini maturinn ostasamlokur í frauðplastkössum. Brandarinn „fábærasta partí sem aldrei gerðist“ fékk að heyrast ótæpilega og gerðar voru heimildarmyndir fyrir Netflix og Hulu. En þótt viðburðurinn sé orðinn frægur að endemum á að endurtaka leikinn á þessu ári. Billy McFarland, stofnandi Fyre Festival, útskýrði í kynningarmyndskeiði að hann hefði fengið hugmyndina um að gera aðra atrennu þegar hann mátti dúsa í sjö mánuði í einangrunarvist.

EINHVERN TÍMANN 2024

Afríka: Hefjast á handa við að dreifa bóluefni gegn malaríu, sem Oxford-háskóli og Bóluefnisstofnun Indlands hafa þróað saman, í 12 Afríkuríkjum. Vonast er til að hægt verði að uppræta sjúkdóminn, sem dregur nærri hálfa milljón manna til bana á ári í ríkjunum sunnan Sahara. R12/Matrix-M er annað bóluefnið gegn sjúkdómnum og er með meiri skilvirkni en fyrsta bóluefnið, RTS,S, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf grænt ljós í október 2021.

England: Áttu aur? Ásjóna Karls konungs III. mun prýða fimm, 10, 20 og 50 punda seðla, sem settir verða í umferð á árinu og verða þá notaðir jöfnum höndum og seðlar með ásjónu Elísabetar II. drottningar. Næsta verkefni er að uppfæra póstkassa og ríkisskjöl með opinberu fangamarki Karls.

Alþjóðageimstöðin: Árið 1975 tókust Thomas Stafford, herforingi í bandaríska hernum, og rússneski geimfarinn Aleksei Leonov fyrst í hendur í sameiginlega geimverkefninu Apollo-Sojus. Þetta þótti táknrænt fyrir þíðu í geimnum á meðan kalda stríðið var í hámarki. Nærri 50 árum síðar munu Rússar yfirgefa alþjóðlegu geimstöðina, sem þeir deila nú með Bandaríkjunum, Evrópu og Kanada. Hyggjast þeir setja sína eigin geimstöð á braut um jörðu árið 2028.

Kína: Feiknleg, hnattlaga bygging helguð rannsóknum á fiseindum verður tekin í notkun í Jiangmen-borg í Kína. Fiseindir eru litlar, óverulegar eindir settar saman úr efni frá fjarlægum stjörnum. Samkvæmt rannsóknum fara billjónir (milljónir milljóna) fiseinda í gegnum líkama okkar á hverri sekúndu. Í fiseindunum gæti verið að finna vísbendingar um uppruna alheimsins. Fiseindarannsóknastöðin í Jiangmen er neðanjarðar á um 700 metra dýpi. Ætlunin er að mæla fiseindir þannig að segja megi til um hvenær stjarna sé við það að springa. Það mun gefa stjarnfræðingum tíma til að stilla kíkja sína og um leið aðstoða við að setja saman heillegri mynd af alheiminum.

© 2023 The New York Times Company og Masha Goncharova.

Höf.: Masha Goncharova