Þorsteinn Haraldsson
Þorsteinn Haraldsson
Sögur eru oft skemmtilegastar og best sagðar þegar þær eru nýjar og sögumaður heitur og ör, sagði séra Friðrik.

Þorsteinn Haraldsson

Þegar Séra Friðrik varð gamall og blindur þá kveikti hann ekki í vindlum sínum sjálfur. Gestir komu í heimsókn til hans á Amtmannsstíg og kveiktu í vindli fyrir hann.

Það voru oftast svokallaðir 100 kílómetra vindlar sem Séra Friðrik reykti og var miðað við að einn vindill entist til 100 kílómetra ferðalags í bíl.

Meðan séra Friðrik reykti var margt spjallað og hann sagði sögur af lífi sínu og starfi og gestir lásu fyrir hann af bók.

Oft var lesið úr Biblíunni og öðrum uppáhaldsbókum sem hann þekkti vel og hafði yndi af. Séra Friðrik hafði líka gaman af því að rifja upp sínar eigin sögur og þá var lesið fyrir hann úr sögunum sem hann skrifaði í Óðin og Akranes. Hann kunni líka að hlusta og gefa ungum sem öldnum ráð – og hughreysta þegar þess þurfti.

Einu sinni kom strákur á Amtmannsstíginn til séra Friðriks til að lesa fyrir hann. Þá brá svo við að Friðrik vildi heldur að hann færi í bæinn. Gamli Friðrik bað hann að taka nú vel eftir öllu sem á vegi hans yrði og koma svo aftur og segja sér frá.

Strákurinn lét ekki segja sér tvisvar og þaut af stað. Hann þaut eins og smalahundur út Skólastrætið og niður Bankastrætið.

Á Lækjargötuhorninu stóð lögregluþjónn á tali við strák sem hafði stolist til að hjóla niður Bankastræti. Löggan skrifaði nafn hans í vasabók og sagði að ef þetta kæmi fyrir aftur yrði talað við foreldra hans.

Strákurinn þaut svo niður í Austurstræti og beygði inn Kolasund í Hafnarstræti og fór þaðan út á höfn um Pósthússtræti. Gullfoss var að leggjast að hafnarbakkanum.

Farþegarnir stóðu við borðstokkinn og á hafnarbakkanum var múgur og margmenni eins og alltaf þegar Gullfoss kom til landsins.

Það var strengdur kaðall langsum eftir hafnarbakkanum til þess að halda mannfjöldanum í hæfilegri fjarlægð. Farþegarnir veifuðust á við fólkið í landi og það heyrðust hróp og köll. Það var spenna og eftirvænting í lofti.

Um síðir þaut strákurinn í vesturátt. Við bryggjur lágu bátar og hann lagði á minnið nöfnin. Fanney RE 4 skar sig úr því hún var frambyggð og honum þótti hún falleg.

Á bryggju nærri Ægisgarði þræddi gamall maður vír í gegnum tálkn á ýsu um leið og hann þakkaði sjómönnum um borð í bát kærlega fyrir fiskinn.

Og nú tók strákurinn stefnuna til baka á Amtmannsstíg.

Á leiðinni, í Tryggvagötu, sá hann lítinn dreng detta á hjóli. Þegar hann kom að var drengurinn að skæla. Hann hafði dottið á hné og rifið gat á buxurnar. Það blæddi lítið, en blæddi samt, og hann skældi. Strákurinn fann kandísmola í vasa sínum og gaf litla drengnum, sem hætti að skæla.

Svo þaut hann í Austurstræti og sá þar Óla blaðasala og áfram í Lækjargötu og upp Amtmannsstíg.

Strákurinn var heitur og ör, móður og másandi, þegar hann sagði gamla Friðriki af ferðalagi sínu. Og sagan var skemmtileg.

Sögur eru oft skemmtilegastar og best sagðar þegar þær eru nýjar og sögumaður heitur og ör, sagði séra Friðrik.

Höfundur er endurskoðandi og Valsmaður.

Höf.: Þorsteinn Haraldsson