Fyrir tuttugu árum ókum ég og maðurinn minn meðfram dýrðlegri strönd Maine. Á leiðinni í Acadia-þjóðgarðinn stoppuðum við hjá risastórri, veðraðri byggingu þar sem bækur og fornmunir voru til sölu. Við erum ekki miklir safnarar, en í rykföllnu horni stóð gamall gripur, sem reyndist ómótstæðilegur. Ég hef alltaf elskað útvarp og þarna innan um haug af ónýtu rafmagnsdótti var upplýst skilti með orðunum „Í útsendingu“ í fullkomnu lagi. Ég varð einfaldlega að eignast skiltið.
Þegar ég var barn hlustaði ég dreymin á þáttinn „Make Believe Ballroom“ á útvarpsstöðinni WNEW. Ég ímyndaði mér að ég væri í fallegum fötum á meðan ég liði um íburðarmikinn danssal á lúxushóteli í New York. Útvarp var uppspretta drauma í líflegu ímyndunarafli mínu.
Þegar ég var í framhaldsnámi í eðlisfræði við Princeton-háskóla beindist hrifning mín á útvarpi að fréttaþættinum „All Things Considered“. Allt annað í lífi mínu nam staðar þegar þátturinn var sendur út, barmafullur af fréttaskýringum og menningarefni. Þegar Susan Stamberg varð umsjónarmaður þáttarins veitti mér innblástur að heyra í konu í forustustöðu á ljósvakanum þegar dyrnar voru lokaðar konum í raunvísindum. Eftir því sem ferli mínum vatt fram stækkuðu hindranirnar í vegi mínum. En þá fóru fréttamennirnir Cokie Roberts og Nina Totenberg í loftið. Mér fannst eins og afgerandi og beittar útsendingar þeirra segðu við mig: „Já, þú getur þetta.“
Um miðjan níunda áratuginn var ég hinum megin við hljóðnema í fyrsta skipti. Ég sat í hljóðveri útvarpsstöðvarinnar WBUR í Boston og horfði furðu lostin á allan búnaðinn og fylgdist með að því er virtist endalausum hljóðprófunum. Loks var ég komin í loftið og dró upp mynd af því hvernig ævafornt ljós ferðast um alheiminn í mörg hundruð milljónir og jafnvel billjónir ára. Ljósið afhjúpar hin feiknlegu mynstur sem sólkerfin skilja eftir sig í heiminum. Ég yfirgaf hljóðverið heilluð af galdri útvarpsins. Öldur ljósvakans báru rödd mína óravegu til fólks sem ég gat aðeins gert mér í hugarlund hvert væri.
Fyrir nokkrum mánuðum leiddi ég annan útvarpsleiðangur ímyndunaraflsins um alheimsgeima. Að þessu sinni talaði ég frá skrifstofunni heima hjá mér í félagsskap fjársjóðsins míns, gamla rauða og gyllta „Í útsendingu“-skiltisins.
Viðtalið tók Lara McCoy
Margaret Geller er stjarneðlisfræðingur.
© 2023 The New York Times Company