Freyja Kristín Kristófersdóttir fæddist á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum 21. september 1924. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 21. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru: Þórkatla Bjarnadóttir, f. 25. febrúar 1895, d. 13. júlí 1975, og Kristófer Þórarinn Guðjónsson, f. 27. maí 1900, d. 11. apríl 1981.

Systkini Freyju voru: Guðlaugur Kristinn, f. 25. desember 1922, d. 24. júlí 2002. Guðrún, f. 10. desember 1925, d. 7. janúar 2018. Guðjón, f. 26. desember 1929, d. 9. apríl 1995.

Fyrsta vetrardag 1945 giftist Freyja Jóhanni Frímanni Hannessyni frá Eiríksstöðum í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var fæddur 18. maí 1924 og lést á Landspítalanum 19. desember 1997.

Börn þeirra: 1) Anna, f. 1946, gift Ragnari Þór Baldvinssyni, þeirra börn: a) Jóhann Freyr, f. 1965, giftur Júlíu Bergmannsdóttur, d. 2006 og eiga þau tvö börn. Núverandi eiginkona Jóhanns er Ingibjörg Andrea Brynjarsdóttir og á hún tvo syni. b) Hlíf, f. 1967, gift Stefáni Guðmundssyni og eiga þau tvær dætur. c) Þórunn, f. 1976, gift Angantý Einarssyni og eiga þau tvær dætur, fyrir átti Angantýr tvo syni. D) Ragna, f. 1979, var gift Smára Birni Þorvaldssyni og eiga þau einn son.

2) Rúnar Þorkell, f. 25. ágúst 1947, d. 18. júlí 2018, giftist Björgu Guðmundsdóttur, þau slitu samvistum, þeirra börn: a) Fríða, f. 1973, sambýlismaður Hermann Hermannsson, eiga þau tvær dætur. b) Freyja Kristín, f. 1978, gift Gunnari Geir Gústafssyni og eiga þau þrjá syni, fyrir átti Gunnar Geir einn son. c) Jóhann Frímann, f. 1987, giftur Axel Inga Árnasyni og eiga þeir einn son. Fyrir átti Rúnar Pál Þóri, f. 1967, með Ellý Pálsdóttur, sambýliskona Páls var Mekkín Árnadóttir og eiga þau tvö börn.

3) Hlynur, f. 1968, giftur Karen Ingimarsdóttur og eiga þau þrjú börn: a) Aron Ingi, f. 1997, sambýliskona Heiðrún Guðmundsdóttir og eiga þau eitt barn. b) Ólöf Marín, f. 2000, sambýlismaður Hafþór Már Vignisson. c) Nana Rut, f. 2003.

Útförin fór fram 15. desember 2023.

15. desember sl. fylgdu nánustu ættingjar Freyju Kristófersdóttur henni til grafar. Sporin með henni í gegnum lífið urðu mörg því hún náði háum aldri, 99 árum. Undirritaðir kynntust Freyju þegar eldri bróðir okkar varð tengdasonur hennar eftir miðja seinustu öld. Rætur Freyju voru í Vestmannaeyjum, þar sem lífsganga okkar allra hófst, og við urðum hluti af hennar fjölskyldu um leið og bróðir. Kynntumst henni, eiginmanni, sonum og svo auðvitað dóttur hennar, verðandi eiginkonu og lífsförunaut bróður æ síðan. Þar sem mikill samgangur var milli okkar við fjölskyldu stóra bróður fór ekki hjá því að Freyja yrði oft á vegi okkar. Við kynntumst konu sem var þátttakandi í lífi dóttur sinnar og tengdasonar og eignaðist afkomendur í börnum þeirra, sem gáfu henni ómælda gleði. Freyja fylgdist vel með þeim vaxa úr grasi og naut augljóslega samvista með þeim. Hún var ljúf kona, brosmild og létt í lund og börnin sóttu til ömmu sinnar, sem alltaf var nálæg. Freyja tókst á við lífið með léttleikann að leiðarljósi og þar voru þau hjón samstiga. Það var alltaf stutt í gleði og hlátur, þótt áföllin gleymdu ekki Freyju fremur en öðrum. Hún var í okkar augum sístarfandi, hélt þétt utan um fjölskyldu sína auk þess sem hún sótti lifibrauð utan heimilis í gróskumikið atvinnulíf eyjarskeggja. Flestum verkum sinnti hún þó innan heimilisveggjanna, en Freyja var m.a. ötul hannyrðakona. Prjón og saumar af alls kyns toga virtust leika í höndum hennar og urðu að flíkum eða öðru handverki. Hún var með afbrigðum afkastamikil, en einnig listfeng og hugmyndarík. Með handavinnu sinni gat hún létt heimilisreksturinn og það gerði hún með þessari hliðarbúgrein með fram umönnun á fjölskyldu og afkomendum.

Í miðju annríki lífsins í Eyjum tóku Freyja og Jói sig upp og fluttu til Reykjavíkur. Það varð lengra fyrir barnabörnin í faðm ömmu, en hann var sem fyrr alltaf opinn, þegar leið þeirra lá til höfuðborgarinnar. Við bræður misstum ekki tengslin við Freyju á nýjum vettvangi. Hún gekk að okkar mati um götur borgarinnar á sama máta og hún hafði gert í Eyjum og nálgaðist borgarbúana af þeirri mýkt og léttlyndi sem gefist hafði henni svo vel á heimaslóð. Eyjakonan hélt því áfram uppteknum hætti, eins og henni var áskapað og hún hafði tamið sér. Varð þátttakandi í borgarlífinu og hluti af því, þótt hún gleymdi aldrei uppruna sínum og ræktaði hann með vinum og vandamönnum.

Nú hefur hin aldna kona verið borin sína hinstu leið til grafar. Söknuðurinn er þungur og minningarnar sárar um líf sem aldrei kemur aftur. Við bræður þökkum fyrir samfylgdina, þegar við kveðjum heiðurskonuna Freyju Kristófersdóttur. Afkomendum öllum sendum við okkar samúðarkveðjur.

Birgir Þór og Gústaf Baldvinssynir.