Vísindamaður Simon Klüpfel hefur sinnt rannsóknum í efnafræði, talgreiningu og forðafræði á Íslandi.
Vísindamaður Simon Klüpfel hefur sinnt rannsóknum í efnafræði, talgreiningu og forðafræði á Íslandi. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Breiðhyltingurinn Simon Klüpfel segir mikil tækifæri í þróun nýrra lyfja sem byggjast á hagnýtingu mRNA, líkt og gert var með þróun genabóluefna gegn kórónuveirunni.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Breiðhyltingurinn Simon Klüpfel segir mikil tækifæri í þróun nýrra lyfja sem byggjast á hagnýtingu mRNA, líkt og gert var með þróun genabóluefna gegn kórónuveirunni.

Simon hóf störf hjá lyfjaþróunarfyrirtækinu Axelyf í byrjun mánaðarins og bættist þar með í sístækkandi hóp sérfræðinga sem vinna að lyfjaþróun á Íslandi.

Af því tilefni settist hann niður með Morgunblaðinu og fór yfir tækifærin sem bíða í lyfjaþróun á Íslandi.

Gætti sín á jarðsprengjum

Simon ólst upp í norðurhluta Bæjaralands á 9. áratugnum, þegar Þýskaland skiptist milli vesturs og austurs, og var sex ára þegar múrinn féll.

„Ég man að ég mátti ekki leika mér á ákveðnum stöðum af því að þar voru jarðsprengjur. Það var spennandi svona eftir á að hyggja,“ segir Simon og brosir.

Færri þekktu til Íslands

Hvernig kom það til að þú fluttist til Íslands?

„Ég vildi alltaf fara í skiptinám í háskóla. Var viss um það en ekki alveg viss um hvert og svo þegar ég fór í ólympíukeppni í efnafræði í Hollandi hitti ég íslenskt teymi og það var svo skemmtilegt. Það var í fyrsta skipti sem ég lærði aðeins meira um Ísland. Þá vaknaði sú hugmynd að fara til Íslands en landið var þá ekki eins vel þekkt og nú í Þýskalandi og allt var spennandi. Það tók tvö ár að undirbúa að geta farið í skiptinám til Íslands og svo var ég námsárið 2005-2006 í Háskóla Íslands og stundaði rannsóknir.

Þegar ég var hér í skiptinámi, og átti um mánuð eftir af náminu, var ég viss um að ég myndi aldrei koma aftur til Íslands. Mín upplifun var að það væri mjög erfitt að ná sambandi við Íslendinga og tengjast þeim.“

Íslendingar lokaðir

Að þeir væru lokaðir?

„Já. Nema frá föstudegi til sunnudagsmorguns. Þá var allt skemmtilegt og allir að spjalla og svo kom maður aftur í skólann á mánudeginum og þá töluðu fáir við mann. Inn á milli hitti maður opið og hlýtt fólk og það var einn mjög góður vinahópur í Hafnarfirði sem tók mig í hópinn og eftir það ákvað ég að skipta um skoðun og koma aftur til að vinna í sumarfríi eftir háskóla. Þá kynntist ég stelpu sem er nú konan mín,“ segir Simon sem er kvæntur Kristínu Guðrúnu Gunnarsdóttur. Þau eignuðust dóttur.

Stóð á krossgötum

Simon lauk náminu í Þýskalandi og hóf svo doktorsnám í efnafræði við Háskóla Íslands en leiðbeinandi hans var Hannes Jónsson. Simon varð doktor í efnafræði árið 2012, þá 29 ára gamall

„Ég vildi ekki fara til útlanda en var sagt að ég ætti ekki möguleika á akademískum ferli [á Íslandi] ef ég starfaði ekki sem nýdoktor erlendis um tíma. Ég vildi það ekki vegna fjölskyldu minnar hér og varð þá að kveðja þá hugmynd að verða prófessor í efnafræði. Það var smá áfall þegar mér varð ljóst að mér myndi ekki takast að fara þá leið sem ég hafði undirbúið í tíu ár og enda sem prófessor einhvers staðar.

Ég var að leita að starfi utan háskólans við hæfi. Úr varð að ég fór að rannsaka talgreiningu hjá Háskólanum í Reykjavík. Það var smá stökk frá efnafræðinni en margt var líkt: Ég var að besta líkön og aðferðir til að lýsa fyrirbærum eins og ég gerði í efnafræðinni. Svo greindist ég með krabbamein árið 2014 og þurfti að hægja á mér,“ segir Simon en faðir hans greindist um líkt leyti með sama krabbamein.

Endurskoðaði lífið

Við tók ströng meðferð og beinmergsskipti í Svíþjóð. „Það sem krabbameinið kenndi mér er að stundum hefur maður ekki stjórn á hlutunum heldur verður að gera það besta úr stöðunni. Vera sveigjanlegur og lifa meira í núinu. Að maður þyrfti ekki að hugsa hvert einasta skref mörg ár fram í tímann. Ég fór að endurskoða forgangsröðunina í lífi mínu – vinnan mín, sem var þá allt of mikil, vék fyrir einkalífinu og tíma með fjölskyldunni.“

„Það er mjög þýskt“

Sumir lifa fyrir framtíðina. Ætla að vinna mikið og verða hamingjusamir þegar þeir hafa komið sér vel fyrir. Svo bankar ellin upp á.

„Það er mjög þýskt. Þú varst að spyrja um muninn á Íslendingum og Þjóðverjum. Skólasystkini mín í háskóla í Þýskalandi eru flest án barna, komin yfir fertugt. Forgangsröðunin er að menntast, fá góða vinnu, svo giftast og loks eignast börn. Mér finnst mjög skemmtilegt hér á Íslandi að fólk er að eignast börn mjög ungt. Því fylgir aðeins meira álag og svo þegar börnin eru vaxin úr grasi getur fólk farið að hafa það gott á meðan algengt er í Þýskalandi að fólk hefji barnauppeldi á fimmtugsaldri.“

Er meiri agi í Þýskalandi?

„Okkur finnst gott að hafa hlutina kassalega og fylgja reglum. Margir sækja í öryggi og vilja búa við fjárhagslegt öryggi til að geta alið upp börn. Það er erfiðara fyrir konur í Þýskalandi að vera með börn meðfram námi en hér. Leikskólakerfið er ekki komið jafn langt og hér.“

Doktorsnefndin ekki til

Vinnufélagi minn sagði mér að í Þýskalandi væru iðnaðarmenn pantaðir með löngum fyrirvara og að þeir kæmu á mínútunni eins og samið var um. Hér á Íslandi sé hins vegar ekki víst að iðnaðarmaðurinn komi í vikunni sem samið var um. Eru hlutirnir í fastari skorðum í Þýskalandi?

„Já, ég held það. Konan mín er farin að gera grín að mér fyrir að segja „þetta reddast“. Eitt af því sem ég lærði hér á Íslandi er að oft reddast hlutirnir bara. Það þarf ekki alltaf að plana of mikið. Ég man hins vegar þegar ég var að skrifa doktorsritgerð og þurfti að fá hana samþykkta. Þá kom í ljós að ég var ekki með doktorsnefnd korter í doktorsvörn en ég átti að hafa slíka nefnd í byrjun náms. Það fór vel en hefði getað farið mjög illa. En oft reddast hlutirnir bara.

Ísland er lítið land. Það er mun meiri samgangur milli fjölskyldna hér en í Þýskalandi og alltaf einhver til staðar ef maður þarf aðstoð. Samfélagið er lítið og flestir búa á höfuðborgarsvæðinu. Þýskaland er svo stórt land. Það er til dæmis erfiðara að skjótast frá Hamborg til München til að aðstoða ættingja.“

Vildi breyta til

Árið 2016 söðlaði Simon um og hóf störf hjá rannsóknardeild Orkuveitunnar. Nánar tiltekið á sviði forðafræði og sá um líkanagerð fyrir lághitaauðlindir Veitna.

„Starf mitt fór svo að snúast meira um gagnavinnslu og var ég að lokum meira í henni en í líkanagerð. Eftir sex ár vaknaði löngun til að breyta aðeins til. Um það leyti sá skólabróðir minn auglýsingu um starf hjá Axelyf og fór í tvö viðtöl en sá að starfið hentaði ekki alveg fyrir hann. Hann hvatti mig til að heyra í þeim en mér þótti mjög spennandi að fara aftur nær upprunanum í efnafræði. Svo þegar ég fór að spjalla við þá Örn Almarsson og John Lucas [stofnendur Axelyf] skapaðist mjög gott andrúmsloft. Svo að ég tók enn eitt stökk og fór þá inn í þetta nýja ævintýri.

Tilgangurinn skipti máli

Það var ekki ætlunin að færa sig svona um set. Ég var ekki að leita að einhverjum stað í lyfjabransanum. Þetta kallaði hins vegar á mig, þetta sambland af líkanagerð, gagnavinnslu og gervigreind sem ég var að kynnast í ráðningarferlinu og það var freistandi að hafa þetta saman sem viðfangsefni. Það er skemmtilegt ef það tekst að búa til eitthvað sem gerir líf fólks betra. Það var ekki aðalástæðan en það er plús að starfið hafi tilgang. Ég myndi líklegast ekki fara að þróa húðkrem eða eitthvað slíkt.“

Markvissari lyfjameðferð

Hvernig sérðu fyrir sér framtíðina hjá Axelyf?

„Það eru miklir möguleikar í þróun lyfja sem eru byggð á mRNA eins og var gert við þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni. Það er enn margt óunnið og margt hægt að gera betur til að auka skilvirkni og draga úr aukaverkunum. Markmiðið er að þróa lyf sem henta betur fyrir ákveðna notkun. Stuðla þannig að markvissari meðferð,“ segir Simon Klüpfel að lokum.

Hann hefur á opinskáan hátt fjallað um baráttuna gegn krabbameini á vef Krafts, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein.

Þróaði bóluefni gegn kórónuveirunni

Einn stofnenda Axelyf

Hjónin Örn Almarsson og Brynja Einarsdóttir stofnuðu lyfjaþróunarfyrirtækið Axelyf ásamt frumkvöðli á Bretlandi að nafni John Lucas.

Það hefur aðsetur í Lækjargötu í Hafnarfirði og einbeitti fyrirtækið sér í fyrstu að þróun lyfja úr astaxanthíni sem framleitt er af Algalífi á Ásbrú, að því er fram kom í viðtali Morgunblaðsins við Örn í apríl sl. Að loknu námi við Háskóla Íslands og Kaliforníuháskóla, í Santa Barbara starfaði Örn meðal annars við rannsóknir hjá Tækniháskólanum í Massachusetts, MIT, og hjá lyfjafyrirtækinu Moderna allt til ársins 2020 er það setti á markað bóluefni gegn kórónuveirunni. Var Örn meðal vísindamanna sem komu að þróun bóluefnisins en þar var notast við nýja aðferð með því að beita mRNA, eða svonefndu genabóluefni, líkt og komið hefur fram.

Höf.: Baldur Arnarson