Róbert Spanó
Róbert Spanó
Tækifærin framundan eru mikil ef viljinn er fyrir hendi, ef framtíðarsýnin er skýr.

Róbert Spanó

Við erum rík þjóð, höfum nýtt okkur samfélag þjóðanna til að auka alþjóðaviðskipti á sviði tækni og nýsköpunar, með sjávarafurðir og aðrar framleiðsluvörur. Og svo erum við elskuð um víða veröld fyrir náttúru okkar. Erum orðin sannkölluð túristaþjóð með öllu því sem því fylgir, auði og ágangi. En hvert viljum við stefna? Hvernig sjáum við samfélag okkar þróast? Erum við á réttri leið? Um það vil ég fjalla á þessum vettvangi. Það geri ég eftir hátt í áratug í útlöndum þar sem ég hef fengið tækifæri til að horfa á landið mitt úr fjarska.

Það hefur oft verið sagt að gott sé að rannsaka Íslendinga. Við erum svo fá að ekki eru praktísk vandkvæði á því að greina okkur sundur og saman, heilsu okkar, skoðanir. Við erum líka ansi einsleit, ef grannt er skoðað. Það er þó kannski að breytast með þeim fjölbreytileika sem er farinn að einkenna okkar samfélag vegna fjölda aðfluttra. Að því verðum við að huga, eins og ég kem að hér síðar. En, samt, Ísland er ennþá lítið samfélag. Og í því felast að mörgu leyti tækifæri. Stórar samfélagslegar breytingar, sem samhljómur er um, er hægt að framkvæma á tiltölulega skömmum tíma. Eins og oft er sagt, við erum jafnstór og hverfi í stórborgum heimsins, jafnstór og smærri borgir eins og Coventry. En, aftur, í því felast okkar stærstu tækifæri.

Í mínum huga hverfist framtíðarsýn Íslands í kringum fjögur meginstefnumið.

Í fyrsta lagi aukinn jöfnuð og samfélagslega samhygð þar sem einstaklingsfrelsið nýtur sín í samfélagi sem verndar hvert okkar og styrkir. Í öðru lagi áherslu á að efla efnahagslega stöðu Íslands með því að tryggja og efla stöðu landsins enn frekar í samfélagi Evrópuþjóða. Í þriðja lagi að styrkja réttarríki okkar inn á við og bregðast við þeim hættum sem að okkur steðja. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að treysta innviði landsins, samgöngukerfið, orkuöflunarkerfið, heilbrigðiskerfið og efla áherslur okkar á sjálfbærni og vernd umhverfisins.

Það er röng hugsun og einkenni íslenskra stjórnmála nú um stundir að líta á þessi stefnumið sem einangruð hvert frá öðru eða í óviðunandi togstreitu. Þau hafa þvert á móti að geyma heildarsýn um Ísland framtíðarinnar sem sjálfbært fyrirmyndarsamfélag sem eflir einstaklinginn, en leggur þó áherslu á stöðu hans og skyldur í samfélagi við aðra og við umhverfið.

Við eigum í fyrsta lagi að byggja upp samfélag þar sem þeir sem minnst mega sín njóta forgangs í hvers kyns stefnumótun á vettvangi stjórnmálanna. Lífið er erfitt og flókið. Við þurfum að hjálpa hvert öðru. Nýlegir atburðir í Grindavík hafa enn á ný fært heim sanninn um mikilvægi samhygðar þegar á bjátar. Einstaklingsfrelsið ber að tryggja og vernda, en einstaklingurinn er í reynd ekki frjáls ef hann á hvergi heima, á hvorki í sig né á eða er of veikur til að takast á við lífsins ólgusjó. Velferð barna, þeirra sem glíma við hvers kyns veikindi og örkuml og eldra fólks, á að vera forgangsmál íslenskra stjórnmála. Við getum gert betur í því að búa hér til samfélag þar sem barnafjölskyldur njóta ríkulegs stuðnings úr opinberum sjóðum og úrræði fyrir þá sem glíma við veikindi eru í forgangi. Við erum auk þess að eldast sem þjóð. Það er brýnt að endurskoða frá grunni stefnumótun á sviði öldrunarþjónustu og vistunarúrræða. Það eru grundvallarmannréttindi að eldast með reisn, finna fyrir öryggi á gamals aldri, eiga greiðan aðgang að stuðningsþjónustu og búa við mannsæmandi aðstæður. Við eigum að vera fyrirmynd annarra þjóða í þessum efnum, en erum það ekki sem stendur. Framtíð Íslands á að vera framtíð jöfnuðar og samhygðar.

Í öðru lagi á framtíð Íslands að byggjast á virku efnahagslegu samstarfi við aðrar þjóðir, einkum við Norðurlöndin, aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkin. Efnahagsleg velferð þjóðarinnar veltur á því hvernig okkur tekst til í þeim efnum og grundvöllurinn að öllum öðrum stefnumiðum sem hér eru rædd. Með fullveldi okkar að vopni eigum við að verða virkari þátttakendur á alþjóðavettvangi, en ekki einangra okkur frá umheiminum. Eins og glöggt mátti sjá þegar við skipulögðum Reykjavíkurfund Evrópuráðsins um miðjan maí sl., þá getum við verið leiðandi í stefnumótunarvinnu á alþjóðlegum vettvangi. Og þar liggur framtíð okkar, ef við þorum og trúum. Innganga í Evrópusambandið er ekki sjálfsögð niðurstaða, en hana þarf að ræða af yfirvegun og festu. Það getur ekki beðið lengur. Heimurinn er að breytast og það hratt og ekki endilega til betri vegar. Samstarf okkar við Evrópusambandið á vettvangi samningsins um Evrópska efnahagsvæðið hefur gjörbreytt Íslandi til hins betra á undanförnum þrjátíu árum. En þar erum við þiggjendur regluverks sem við tökum ekki beinan þátt í að móta. Það er ein mikilvægasta spurning íslenskra stjórnmála nú um stundir hvort það er ástand sem við sættum okkur við til framtíðar. Er það gott fyrir atvinnulífið? Er það gott fyrir fjölskyldur? Er það gott fyrir einstaklinginn? Stjórnum við í reynd vegferð okkar við þessar aðstæður?

Ferðaþjónustu, tækni og nýsköpun, sjávarútveg og landbúnað þarf að efla og styrkja með heildarsýn að leiðarljósi til næstu áratuga. Helstu atvinnuvegir þjóðarinnar eru forsenda lífskjara okkar. Sátt um sjávarútveginn er möguleg ef viljinn er fyrir hendi og að henni verður að stefna. En til þess þurfa allir málsaðilar að gefa eftir, skynja mikilvægi málamiðlunar, finna hinn gullna meðalveg.

Í þriðja lagi þarf að efla hið íslenska réttarríki enn frekar. Hættur steðja að samfélagi okkar með aukinni skipulagðri brotastarfsemi og árásum á stafræna innviði. Það þarf að efla löggæslu landsins verulega. Aukin fólksfjölgun er einnig áskorun, enda er það vel þekkt að einangrun hópa, sem ekki finna sér farveg í nýju samfélagi, getur skapað alvarleg vandamál. Það þekki ég því miður vel úr starfi mínu á mannréttindasviðinu. Það verður ávallt að koma fram gagnvart manneskjunni með mannúð og virðingu að leiðarljósi, sérstaklega þeim sem flýja stríð og ofsóknir, en það verður ekki gert með því að stinga höfðinu í sandinn og vona það besta. Við verðum að taka erfiðar ákvarðanir á þessu sviði og gera það strax í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.

Í fjórða lagi verður Ísland framtíðarinnar harla bágborið ef við eflum ekki innviði okkar. Samgöngukerfið stendur ekki undir þeim ágangi sem fylgir túrismanum. Þá eigum við að vera í fararbroddi við að efla enn frekar græna orkukerfið okkar. Skýr stefnumótun á því sviði til næstu áratuga er nauðsynleg þannig að orkuöryggi sé tryggt að en gætt sé að umhverfisvernd. Opnar og málefnalegar umræður um hvort lögfesta eigi nýtt auðlinda- og umhverfisákvæði í stjórnarskrá gæti orðið mikilvægt innlegg á þeirri vegferð.

Ísland framtíðarinnar er handan við hornið. Hvernig viljum við að það verði? Tækifærin framundan eru mikil ef viljinn er fyrir hendi, ef framtíðarsýnin er skýr.

Höfundur er lagaprófessor, lögmaður hjá Gibson, Dunn and Crutcher (París/London) og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.

Höf.: Róbert Spanó