Máninn kann að vera hrímfölur og grár en hann er samt einn heitasti áfangastaður geimvísindamanna um þessar mundir. Mannlaust japanskt geimfar komst á braut um tunglið í vikunni og er áformað að það lendi þar 20

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Máninn kann að vera hrímfölur og grár en hann er samt einn heitasti áfangastaður geimvísindamanna um þessar mundir.

Mannlaust japanskt geimfar komst á braut um tunglið í vikunni og er áformað að það lendi þar 20. janúar. Takist það verða Japanar fimmta þjóðin sem lætur geimfar lenda á tunglinu. Raunar hafa Japanar reynt slíkt áður, þannig freistaði japanska fyrirtækið ispace þess sl. vor að verða fyrsta einkafyrirtækið til að senda geimfar til tunglsins en geimferjan brotlenti. Þá reyndu Ísraelsmenn að senda geimfar til tunglsins árið 2019. Aðeins fjórum ríkjum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína og Indlandi hefur tekist að lenda geimförum á tunglinu.

Í byrjun janúar er svo áformað að senda mannlaust geimfar til tunglsins með vísindatæki frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA til að undirbúa mannaðar geimferðir til tunglsins samkvæmt svonefndri Artemis-áætlun. Geimfarið nefnist Peregrine, framleitt af bandaríska fyrirtækinu Astrobotic. Notuð verður ný tegund af eldflaug, Vulcan Centaur, sem skotið verður frá Canaveral-höfða á Flórída. Gangi allt að óskum verður Peregrine fyrsta bandaríska geimfarið sem lendir á tunglinu frá því Apollo 17 lenti þar í desember 1972 og þrír geimfarar dvöldu á tunglinu í þrjá sólarhringa. Raunar átti að skjóta Peregrine á loft á aðfangadag en geimskotinu var frestað fram í janúar. Tory Bruno, forstjóri fyrirtækisins United Launch Alliance (ULA) sem framleiðir eldflaugina, skrifaði á X að smávægileg vandamál hefðu komið í ljós en þau væru nú leyst.

AFP-fréttastofan segir að auk þess að flytja Peregrine til tunglsins verði aska nokkurra sem tóku þátt í gerð upphaflegu Star Trek-sjónvarpsþáttanna með í för. Þá verður sýnishorn af erfðaefni Bruno einnig um borð.

NASA hefur gert samninga við einkafyrirtæki um vísindarannsóknir og að senda búnað til tunglsins með það að markmiði að draga úr kostnaði. Eitt þeirra, Intuitve Machines, áformar að flytja búnað til tunglsins með SpaceX-eldflaug snemma á næsta ári.

Um þrjátíu ríki, þar á meðal Ísland, eiga aðild að Artemis-samkomulaginu en um er að ræða tvíhliða milliríkjasamninga milli Bandaríkjanna og annarra þátttökuríkja um m.a. að deila rannsóknaniðurstöðum á sviði geimrannsókna. Mannlaus flaug, Artemis 1 fór umhverfis tunglið í fyrra og á næsta ári er áætlað að senda mannað far, Artemis 2, umhverfis tunglið. Áætlun NASA gerir svo ráð fyrir að mannað geimfar, Artemis-3, lendi á tunglinu árið 2025.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson