Sókn Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði 15 mörk í 22 leikjum með Val og var kjörin sú besta í deildinni.
Sókn Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði 15 mörk í 22 leikjum með Val og var kjörin sú besta í deildinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnukonurnar Bryndís Arna Níelsdóttir og Þórdís Elva Ágústsdóttir, sem hafa orðið Íslandsmeistarar með Val undanfarin tvö ár, eru báðar komnar í atvinnumennsku í Svíþjóð þar sem þær hafa samið við úrvalsdeildarfélagið Växjö

Svíþjóð

Sævar Breki Einarsson

saevar@mbl.is

Knattspyrnukonurnar Bryndís Arna Níelsdóttir og Þórdís Elva Ágústsdóttir, sem hafa orðið Íslandsmeistarar með Val undanfarin tvö ár, eru báðar komnar í atvinnumennsku í Svíþjóð þar sem þær hafa samið við úrvalsdeildarfélagið Växjö.

Þær léku áður saman með Fylki og verða því áfram samherjar sjötta tímabilið í röð á árinu 2024.

Bryndís Arna, sem varð markadrottning Bestu deildarinnar 2023 og var kosin besti leikmaður deildarinnar af mótherjum sínum, lék í fyrsta sinn með A-landsliðinu í haust. Hún skrifaði undir þriggja ára samning við Växjö og sagði við Morgunblaðið að félagaskiptin legðust vel í sig.

Tel mig vera tilbúna

„Ég er mjög spennt að fara út og byrja. Ég fór út til að skoða aðstæður eftir síðasta landsleikjahlé og mér leist mjög vel á. Ég spjallaði mikið við þjálfarann og mér finnst hugmyndafræði hans mjög góð,“ sagði Bryndís.

„Það hefur alltaf verið markmið að fara út og mér finnst þetta vera rétt skref til þess að taka núna og ég tel mig vera tilbúna. Sænska deildin er mjög góð og ég er spennt að sjá hvernig mér gengur í henni. Ég hef fulla trú á minni getu.“

Bryndís, sem er tvítug, hefur leikið með Val frá árinu 2022. „Þetta lá fyrir í byrjun desember en ég fór að skoða valmöguleikana eftir síðasta tímabil. Það var áhugi annars staðar frá en ég reyndi bara að skoða allt eins vel og ég gat og taka góða ákvörðun. Þegar upp var staðið fannst mér þetta mest spennandi og ákvað að hoppa á tækifærið,“ sagði Bryndís sem skoraði 15 mörk í Bestu deildinni í ár, fimm fleiri en sú næstmarkahæsta.

Geggjað að skora mörk

„Sem framherji vil ég alltaf skora og hjálpa liðinu þannig. Ég hef mikla trú á minni getu fyrir framan markið og finnst geggjað að skora mörk. Ég er sátt og stolt af sjálfri mér eftir síðasta tímabil en það eru ennþá hlutir sem ég get bætt mig í, ég átti ekki fullkomið tímabil en ég er sátt við mitt. Að vera markadrottning er skemmtilegt og mikill heiður.

Fyrir tímabilið var markmiðið að komast í liðið þar sem ég spilaði lítið árið áður. Það er erfitt í sterku Valsliði þannig að það var helsta markmiðið. Þegar ég komst í gang og byrjaði að skora mörk þá vildi maður bara halda þeim dampi áfram og hjálpa liðinu. Markmiðið á Hlíðarenda er alltaf að vinna titla og þar er mikil sigurmenning. Þetta byrjaði svolítið erfiðlega en svo datt maður í gírinn.“

Skemmtileg tilviljun

Aðspurð hvernig leggist í hana að flytja til Svíþjóðar segist hún vera spennt að flytja út.

„Ég á marga fjölskyldumeðlimi og vini í Svíþjóð, svo það er mjög þægilegt, og svo er Þórdís Elva búin að skrifa undir líka þannig að við verðum tveir Íslendingar saman. Það verður mjög þægilegt að hafa hana enda erum við búnar að leika lengi saman.

Þetta var skemmtileg tilviljun, við vorum aðeins búnar að grínast með þetta enda komum við saman úr Fylki yfir í Val og svo einhvern veginn gerðist þetta bara.

Mér líður mjög vel með að hún sé þarna líka, það mun hjálpa mér mjög mikið. Það er mikill munur á því að vera einn í nýju landi eða vera með einhvern með sér. Þetta mun gera okkur báðum gott.

Stefnt á efri hlutann

Ég ætla að byrja á að læra sænskuna og leggja áherslu að reyna að verða betri og reyna að spila vel með nýju liði. Mig langar að brjóta mér leið inn í liðið og verða mikilvægur leikmaður.

Stefnan hjá liðinu er að vera í efri hlutanum í deildinni og enda eins ofarlega og við getum. Þær eru búnar að ná í góða leikmenn og þetta er metnaðarfullt félag. Stefnan er sett hærra en þær enduðu í ár og ég tel að við getum náð því markmiði,“ sagði Bryndís en keppni í sænsku deildinni hefst 11. apríl og bikarkeppnin, þar sem leikið er í fjögurra liða riðlum, hefst 8. mars.

Ekki erfið ákvörðun

Þórdís Elva, sem er 23 ára, skrifaði undir tveggja ára samning við Växjö og sagði við Morgunblaðið að hún væri mjög spennt fyrir komandi tímum.

„Þetta leggst mjög vel í mig, ég er mjög spennt og í miðjum undirbúningi núna. Það eru átta dagar þangað til ég fer.

Ég get eiginlega ekki sagt að þessi ákvörðun hafi verið erfið, þetta er það sem maður er búinn að vera bíða eftir að komi upp og mig hefur dreymt um að gera, svo þegar kemur að því þá er kannski erfitt að hugsa til þess að maður sé að fara frá fjölskyldunni og frá Val og vinkonunum þar og allt það, en þetta er það sem maður er búinn að vera að stefna að síðan maður var krakki,“ sagði Þórdís Elva.

Rétti staðurinn fyrir mig

Hún, líkt og Bryndís, lauk tímabilinu með Íslandsmeistaratitli hjá Val og fór svo að skoða sig um. Aðspurð hvenær hún byrjaði að íhuga félagaskipti sagði hún að það hefði ekki verið fyrr en tímabilinu lauk.

„Það var stuttu eftir að því lauk. Þá fór ég alveg í það með umboðsmanninum að skoða hvað væri í boði. Það var eitthvað búið að koma upp í sumar en ég vildi ljúka tímabilinu með Val, enda samningsbundin þar. Við áttum frábært tímabil og svo þegar það var búið vissi ég að samningurinn var að renna út og ég hafði möguleika á að skoða önnur tilboð.

Ég þurfti að skoða mig aðeins um en mér fannst Svíþjóð vera mest spennandi og held að þetta sé rétti staðurinn fyrir mig á þessari stundu,“ sagði Þórdís.

Skilningur hjá Val

Hún á að baki 105 leiki í efstu deild á Íslandi með Val, Fylki og Haukum og segist hún ætla að taka reynsluna með sér til Svíþjóðar.

„Hvert ár sem maður spilar hérna heima í meistaraflokki í efstu deild er reynsla, maður fær reynslu með hverjum leiknum og með hverju liði sem maður spilar í. Þetta hefur verið vaxandi hjá mér, ég spilaði með Haukum í efstu deild, fór þaðan í Fylki og þaðan í Val. Mér finnst ég hafa komið mér vel inn alls staðar og náð að bæta mig, spila vel og koma mér inn í liðið.“

Þórdís segir ákvörðunina ekki hafa verið erfiða enda hafi Valur sýnt henni mikinn skilning og stuðning þegar kom að því að taka þetta stóra skref. Liðsfélagar hennar hafi hjálpað henni mjög mikið.

„Þær eru allar mjög skilningsríkar og styðja mann í því sem maður er að gera og Valur er bara þannig lið að þeir vilja að þegar maður fer frá félaginu sé maður að taka stökk og fara hærra. Í dag er ekkert hærra félag eða stærra skref á Íslandi en Valur.

Auðvitað er leiðinlegt að yfirgefa Val þar sem ég hef fengið að spila með þessum stelpum og vinna titla, sem maður óskar sér þegar maður er barn, en ég er mjög þakklát að hafa fengið það tækifæri hjá Val.“

Spurðu út í Bryndísi

Þær Þórdís og Bryndís fara saman til Svíþjóðar fyrir tilviljun, en samt ekki.

„Eftir að ég skrifaði undir samninginn fóru þau að spyrja mig út í Bryndísi og ég var náttúrulega mjög spennt fyrir því, ég þekki hana mjög vel og við náum vel saman. Við erum búnar að spila saman í fimm ár og það er frábært að við skyldum enda á sama stað.

Markmið félagsins er að halda áfram að byggja ofan á það sem er búið að vera að gera þarna. Þær komu upp í fyrra og náðu áttunda sætinu. Þetta var nokkuð tvískipt deild í fyrra og liðin fyrir ofan með langt forskot á neðri hlutann en markmiðið er að vera í efri hlutanum á næsta tímabili,“ sagði Þórdís Elva Ágústsdóttir.

Höf.: Sævar Breki Einarsson