Jónas S. Ástráðsson fæddist í Reykjavík 24. nóvember 1941. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 7. desember 2023.

Foreldrar hans voru Ástráður Þorgils Guðmundsson, f. 27. mars 1907, d. 29. desember 1965, og Svava Marín Guðmundsdóttir, f. 19. október 1907, d. 19. ágúst 1985.

Hann átti tvær systur, Gretu og Anný, og einn bróður sem var samfeðra þeim, Ragnar. Þau eru öll látin.

Eiginkona Jónasar er Hrefna Guðrún Gunnarsdóttir, f. 2. október 1941. Börn þeirra eru: 1) Gunnar Valur, f. 10. maí 1961, börn hans eru Hrefna Sif, Agnes Ýr, Aron Örn og Grímur Valur. 2) Marín Björk, f. 15. október 1963, börn hennar eru Sandra Hlín, Tanja Kristín og Ottó Valur. 3) Jónas Hrafn, f. 5. desember 1977 og barn hans er Ásdís Embla. Auk þeirra er fríður hópur langafabarna.

Jónas var lærður vélvirkjameistari og bifvélavirki og vann í þeim geira lengst af. Hann lauk starfsferli sínum hjá RÚV sem húsvörður og tækjavörður.

Útför Jónasar fór fram í kyrrþey.

Elsku besti afi Jónas, með hlýjasta faðminn, stærsta hjartað, styrku höndina og skemmtilegustu sögurnar.

Það eru svo margar minningar sem koma upp en þakklæti er okkur efst í huga. Takk fyrir að gefa þér alltaf tíma fyrir okkur, að stökkva alltaf til þegar við þurftum aðstoð og takk fyrir endalausa þolinmæði.

Í okkar huga var aldrei samkeppni, þú varst og verður besti afi sem við hefðum getað óskað okkur. Við gátum alltaf leitað til þín, þú varst kletturinn okkar, sá sem við gátum alltaf treyst á. Afi vissi oft hvernig okkur leið án þess að við værum búin að segja honum það, það gerðist ótrúlega oft ef eitthvað bjátaði á að afi hringdi upp úr þurru bara til þess að heyra í okkur hljóðið. Hann vissi hvenær við þurftum á afa að halda. Við vorum ekki gömul þegar við vorum farin að segja „ef afi getur ekki reddað því getur enginn reddað því“.

Afi kenndi okkur líka að veraldleg gæði skipta engu máli í stóra samhenginu, það er fólkið þitt sem skiptir máli. Við áttum alltaf athvarf hjá ömmu og afa og nutum þeirra forréttinda að búa rétt hjá þeim þegar við vorum að alast upp. Afi hafði einstakt lag á því að sveipa hversdaginn ævintýraljóma og sem dæmi um það þá var fátt betra en að fá boð í afafisk sem var betri en annar fiskur.

Að fylgjast með honum í langafahlutverkinu var dásamlegt og Hrafnhildur Sunna og Sara Mist heppnar að hafa fengið þennan stutta tíma með þér. Hrafnhildur kjarnaði þig vel: „Ég sakna afa, hann var svo alltaf svo góður. Hann var besti afinn og leyfði mér allt.“

Takk fyrir allt elsku afi, njóttu þess að hlusta á Elvis með viskí í annarri og vindil í hinni í sumarlandinu.

Þín afabörn,

Sandra, Tanja og Ottó.

Laugarneshverfi 1955 eða 1956. Vinirnir Jónas, Eggert og fleiri þeysast um hverfið á skellinöðrum og kannski fóru þeir fullhratt stundum og sagan segir að það hafi verið opin bílskúrshurð í hverfinu þar sem drengirnir skutust inn þegar lögreglunni leist ekki á hraðann á þessum skellinöðrum. Kannski náðu þeir alltaf að skjótast inn í bílskúrinn sem var opinn og loka á eftir sér eða ekki.

Ég var bara fimm eða sex ára og veit ekki mikið um þetta annað en ég heyrði seinna.

Jónas var góður vinur Eggerts bróður míns og þegar hann dó 1964 og lét eftir sig konu og tvö ung börn var ég 14 ára. Ég var að lesa minningargreinina sem vinurinn Jónas skrifar um Eggert bróður og þá sér maður þvílíka væntumþykju.

Böðvar sonur Eggerts var fjögurra ára og dóttirin Ingibjörg aðeins 18 mánaða þegar pabbi þeirra féll frá.

Ingibjörg þekkti því ekki Jónas og Hrefnu konu hans mikið, en fannst síðar ótrúlega gaman á fullorðinsárum að hafa fundið þau aftur og kynnst þeim. Við Ingibjörg heimsóttum Jónas og Hrefnu fyrir rúmu ári og áttum yndislega stund saman og var margt úr æsku Jónasar og Eggerts rifjað upp, okkur öllum til ánægju. Gunnukot var sælureitur Jónasar og Hrefnu og vorum við svo heppin að koma þar.

Í dag, 13. desember 2023, á dánardegi Eggerts bróður 59 árum seinna, er Jónas vinur hans lagður til hinstu hvílu.

Þakklæti er efst í huga fyrir þá vináttu sem Jónas og Hrefna sýndu okkur öllum.

Hrefnu og fjölskyldu vottum við okkar innilegustu samúð.

Sigrún Böðvarsdóttir,Böðvar Ari Eggertsson,Ingibjörg
Eggertsdóttir.