Ljósmyndin eftir Robert Doisneau sem er á skrifstofu Laurence des Cars í Louvre.
Ljósmyndin eftir Robert Doisneau sem er á skrifstofu Laurence des Cars í Louvre. — Musée du Louvre/Audrey Viger
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég myndi ekki kalla sjálfan mig safnara. Stundum kaupi ég ljósmynd eða teikningu þegar þær hafa einhverja merkingu fyrir mér og meðfylgjandi mynd af fullorðnum manni og barni að dást að málverki í Louvre gerir það jafnvel meira en nokkur önnur

Ég myndi ekki kalla sjálfan mig safnara. Stundum kaupi ég ljósmynd eða teikningu þegar þær hafa einhverja merkingu fyrir mér og meðfylgjandi mynd af fullorðnum manni og barni að dást að málverki í Louvre gerir það jafnvel meira en nokkur önnur. Ég rakst á hana stuttu eftir að ég var ráðinn forseti og stjórnandi safnsins og fannst ég knúinn til að kaupa hana. Ég ákvað strax að hafa hana á skrifstofu minni, við borðið mitt.

Þetta er upprunaleg prentun frá 1969, hluti af röð svarthvítra ljósmynda eftir Robert Doisneau. Það sem vakti strax athygli mína var þessi öfluga sýn á nútímasafn, sem Louvre var smátt og smátt að verða, þetta alúðlega augnatillit á almenning í gegnu linsu stórfenglegs listamanns.

Auðvitað minnti þetta mig á þegar ég uppgötvaði Louvre fyrst – alltaf grundvallaraugnablik. Þessi litli drengur er af minni kynslóð; hann hefði getað verið ég. Undirmeðvitundin ann sér engrar hvíldar.

En burtséð frá fortíðarþránni finnst mér þessi ljósmynd táknræn fyrir umbreytingu safnsins – tvíeykið á henni er með eldri útgáfu af hljóðleiðsögninni okkar. Hún er einnig til marks um hvernig safnið tengir saman kynslóðir. Þetta eru grunnþættir þeirrar köllunar Louvre að þjóna almenningi.

Mestu skiptir að barnið – lítið og smátt í samanburði við foldgnátt listaverkið fyrir augum þess, undir umhyggjusamri leiðsögn föður síns að ætla má – er einlæg áminning um þá ábyrgð okkar að tryggja að þessi tilfinning uppgötvunar fylgi komandi kynslóðum. Hún minnir okkur á að breytast með tímanum til að halda djúpri tengingu við samfélagið okkar. Maðurinn og barnið horfa nú á mig á hverjum degi og hjálpa mér að uppfylla þessa skyldu.

Þessi ljósmynd er stöðugur óður til þess hvers vegna ég elska það sem ég geri: mynd sem grípur, með miklum húmor, hvernig tilfinningar geta orðið til á slíkum lykilaugnablikum í lífi gesta safnsins. Tilfinningar sem listaverk vekja eru einmitt tilgangur þess að hafa þau til sýnis og það er með miklu stolti, sem ég reyni að kveikja slík augnablik í dag, leitast við að gera gestum okkar kleift að njóta tíma síns í Louvre.

Laurence des Cars er forseti og stjórnandi Musée du Louvre.

© 2023 The New York Times Company og Laurence des Cars