Elvanse Notkun ADHD-lyfsins Elvanse hefur aukist mikið.
Elvanse Notkun ADHD-lyfsins Elvanse hefur aukist mikið. — Morgunblaðið/Kristinn
Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is Embætti landlæknis (EL) er með til skoðunar mál er varða skammtastærðir ADHD-lyfsins Elvanse. Í svari við skriflegri fyrirspurn Morgunblaðsins til EL segir að embættinu hafi borist vísbendingar um að of stórir skammtar hafi verið skrifaðir út.

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Embætti landlæknis (EL) er með til skoðunar mál er varða skammtastærðir ADHD-lyfsins Elvanse. Í svari við skriflegri fyrirspurn Morgunblaðsins til EL segir að embættinu hafi borist vísbendingar um að of stórir skammtar hafi verið skrifaðir út.

„Ráðlagður hámarksskammtur Elvanse skv. sérlyfjaskrá er 70 mg á dag. Hins vegar verður að hafa í huga að sumir einstaklingar þurfa í raun nokkru hærri skammta. Hærri skömmtum fylgir hins vegar aukin hætta á alvarlegri aukaverkunum og því mikilvægt að sjúklingar á hærri skömmtum fái gott eftirlit og eftirfylgni hjá lækni sínum,“ segir í svarinu.

Skortur hefur verið á lyfinu síðan í sumar og hefur meðal annars verið greint frá því í Morgunblaðinu að fólk rúnti í örvæntingu milli apóteka í leit að lyfinu. Síðasta sending af Elvanse barst til landsins 13. desember. Um sjö þúsund manns á Íslandi á hafa fengið Elvanse uppáskrifað frá lækni og hefur notkun lyfsins aukist mjög hratt.

„Ávallt er til skoðunar hvort um einhverja ofnotkun eða misnotkun geti verið að ræða. Slíkt er ekki einungis til skoðunar hjá EL heldur bera læknar einnig mikla ábyrgð og verða að gæta þess að við ávísun þessa lyfs sem annarra sé farið að með fyllstu gát,“ segir í svari EL.

Vera kunni að skerpa þurfi á einhverjum atriðum í regluverkinu en mikilvægt sé að gæta að því um leið að regluverkið setji þeim ekki skorður sem nauðsynlega þurfa á lyfinu að halda í réttum skömmtum.

Hafið þið áhyggjur af því að Elvanse-faraldur sé í uppsiglingu ef fram heldur sem horfir?

„Ef í ljós kæmi að ofnotkun eða ofskömmtun Elvanse væri að valda fjölda manns heilsutjóni, þá mætti líkja því við faraldur. En merki þess eru þó enn ekki farin að sjást. Hlutverk landlæknis er að fylgjast með þróuninni. Jafnframt er það hlutverk landlæknis að hafa eftirlit með lyfjaávísunum ávana- og fíknilyfja og bregðast við óhóflegum lyfjaávísunum lækna eigi þær sér stað,“ segir í svarinu.