Fjölskyldan Frá vinstri: Aron, Regína, Emil K., Bára Rut og Emil árið 1994.
Fjölskyldan Frá vinstri: Aron, Regína, Emil K., Bára Rut og Emil árið 1994.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Emil Karlsson Thorarensen fæddist 1. janúar 1954, fyrsti Íslendingur þess árs, og varð því sjötugur í gær. Hann fæddist á Gjögri í Árneshreppi og ólst þar upp til 1962 en síðan á Eskifirði. „Ég á mjög indælar minningar frá Gjögri og hefði ekki …

Emil Karlsson Thorarensen fæddist 1. janúar 1954, fyrsti Íslendingur þess árs, og varð því sjötugur í gær.

Hann fæddist á Gjögri í Árneshreppi og ólst þar upp til 1962 en síðan á Eskifirði. „Ég á mjög indælar minningar frá Gjögri og hefði ekki viljað missa af því að hafa átt heima þar en svo á ég líka góðar minningar frá því ég var barn hérna á Eskifirði og ég bý hér enn.

Strax þegar ég flutti til Eskifjarðar fékk ég vinnu hjá Alla ríka [Aðalsteinn Jónsson] við að velta og vatna síldartunnum sem komu til landsins, eða átta og hálfs árs gamall. Stráklingar eins og ég gátu unnið þessa vinnu og sonur hans Alla var þar líka. Síðan vann ég hjá fyrirtæki Alla við síldarsöltun og pæklun síldartunna. Svo gerðist ég starfsmaður hjá honum hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar og lærði þar að flaka fisk. Síðar gerist ég sjómaður á skuttogaranum Hólmanesi.“

Skólaganga Emils hófst í barnaskólanum á Eskifirði. „Í Árneshreppi átti maður að byrja níu ára í skóla en ég flutti þaðan 8áttaára. Ég byrjaði því í fyrsta bekk á Eskifirði en var færður upp í aldursflokkinn minn eftir hálft ár.“ Emil útskrifaðist síðan með verslunarskólapróf 1975.

Árið 1977 varð Emil aðalbókari hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar. „Síðar gerði Alli ríki mig að útgerðarstjóra og starfaði sem slíkur til 2004. Þegar önnur og þriðja kynslóð Alla ríka tók við urðu hreinsanir í fyrirtækinu. Ég og framkvæmdastjórinn og skipstjórar og vélstjórar vorum allir reknir.“

Emil var virkur í félagsstörfum. Hann var í stjórn UMF Austra og í stjórn UMFA Austurlands. Emil var lengi tengdur Framsóknarflokknum og formaður framsóknarfélags Eskifjarðar. Hann sat í bæjarstjórn Eskifjarðar 1994-1998. Hann var einnig lengi í stjórn golfklúbbsins á Eskifirði. Emil var enn fremur formaður Útvegsmannafélags Austfjarða og sat í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Emil var lengi fréttaritari Morgunblaðsins. „Mamma var fréttaritari Morgunblaðsins og ég sá um að taka myndir fyrir hana og þegar hún flutti á Selfoss 1981 þá tók ég við sem fréttaritari hér á Eskifirði.“

Áhugamál Emils hafa að mestu verið þjóðmálin og stjórnmál.

Fjölskylda

Eiginkona Emils var Bára Rut Sigurðardóttir, f. 28.9. 1961, d. 13.10. 2006, skrifstofumaður hjá Sýslumannsembættinu á Eskifirði og húsmóðir. Foreldrar Báru voru hjónin Rósa Geirþrúður Halldórsdóttir, f. 14.10. 1928, d. 13.10. 2009, vann ýmis störf, og Sigurður Þorleifsson, f. 14.6. 1935, d. 2.3. 1977, sjómaður. Þau voru búsett á Eskifirði og í Reykjavík.

Börn Emils og Báru eru: 1) Aron Thorarensen, f. 2.1. 1983, lögfræðingur, býr á Egilsstöðum; 2) Regína Thorarensen, f. 28.12. 1984, býr í Mosfellsbæ. Eiginmaður hennar er Fannar Víðir Haraldsson bílstjóri. Synir þeirra eru Úlfur Loki, f. 9.5. 2011, og Kormákur Týr, f. 30.5. 2012; 3) Emil Thorarensen, f. 12.11. 1986, byggingafræðingur, býr í Kaupmannahöfn. Maki: Anette Nurmelaid. Synir þeirra eru Rikard Thorarensen, f. 7.7. 2018, og Alfred Thorarensen, f. 30.3. 2023.

Systkini Emils: Hilmar Friðrik Thorarensen, f. 8.6. 1940, trillukall og fv. bankamaður og starfaði hjá Fjármálaeftirlitinu, býr í Reykjavík; Guðbjörg Karólína Karlsdóttir, f. 18.4. 1947, d. 12.7. 2022, húsmóðir og fiskverkunarkona á Eskifirði og Drangsnesi; Guðrún Emilía Karlsdóttir, f. 17.11. 1948, húsmóðir, býr í Mosfellsbæ.

Foreldrar Emils voru hjónin Regína Thorarensen, f. 29.4. 1917, d. 22.4. 2006, fréttaritari Morgunblaðsins og DV, og Karl Ferdinand Jakobsson, f. 8.10. 1909, d. 28.2. 1996, ketil- og plötusmiður og járnsmíðameistari. Þau bjuggu í Skerjafirði 1939-1942, í Djúpuvík 1942-1947, á Gjögri 1947-1962, Eskifirði 1962-1981 og á Selfossi frá 1981 þar til Karl lést. Eftir það var Regína búsett á Eskifirði.