Björgvin eftir fyrsta flugið sitt hjá PLAY.
Björgvin eftir fyrsta flugið sitt hjá PLAY.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það sem heillaði mig mest við jarðfræði á sínum tíma var hversu áþreifanleg jarðfræði er miðað við margar aðrar vísindagreinar. Það sem mér líkaði best við námið sjálft var hversu mikið var gert úr verklega þættinum

Það sem heillaði mig mest við jarðfræði á sínum tíma var hversu áþreifanleg jarðfræði er miðað við margar aðrar vísindagreinar. Það sem mér líkaði best við námið sjálft var hversu mikið var gert úr verklega þættinum. En eftir á að hyggja stendur upp úr hversu frábærir kennarar voru við jarðfræðideild háskólans og að auki voru samnemendur mínir frábærir og gerðu tíma minn í háskólanum ómetanlegan,“ segir Björgvin.

Fórst þú að vinna við eitthvað tengt jarðfræði eftir útskrift?

„Ég vann hjá Orku náttúrunnar um stutt skeið. Ég hef þó starfað sem leiðbeinandi í stærðfræði og náttúruvísindum bæði á grunnskóla- og framhaldskólastigi þar sem nám mitt í jarðfræði hefur nýst mér mjög vel. Einnig starfaði ég um árabil sem umsjónarkennari í grunnskóla þar sem jarðfræðinámið nýttist vel.“

Örlagarík ferð til New York

„Ég hef eiginlega alltaf verið frekar áhugasamur um flug. Ég byrjaði svo að íhuga þetta almennilega þegar ég var í framhaldsskóla þegar vinur minn fékk einkaflugmannsréttindi og ég sá þá að einhver eins og ég gæti í rauninni alveg orðið flugmaður, hann starfar í dag sem þyrluflugmaður. Ég fór þó ekki í flugnám þá þar sem ég hafði ekki efni á því, einn helst galli flugnámsins er hversu dýrt það er og hversu fáar fjármögnunarleiðir eru í boði,“ segir Björgvin þegar hann er spurður um hvenær áhuginn á flugnáminu kviknaði.

Hann setti flugmannsdrauminn á pásu og eftir framhaldsskóla ákvað hann að fara í jarðfræði. „Rétt fyrir útskrift úr háskólanum ákvað góður vinur minn sem var flugstjóri á þeim tíma að bjóða mér með í ferð til New York sem ég þáði. Á leiðinni til og frá New York fékk ég að sitja frammi í hjá flugmönnunum og fékk að fylgjast með þeirra störfum. Þetta var eins og olía á áhugaeldinn minn gagnvart fluginu og ákvað ég eiginlega á staðnum að þetta væri það sem ég vildi gera. Ég tók mér þó smá umhugsunartíma og reyndi að púsla því saman hvernig ég myndi fara að því að því að láta drauminn rætast. Ég setti samt sem áður drauminn aðeins til hliðar og flutti með kærustunni minni til Kaupmannahafnar en áttaði mig fljótt á því að það eina sem mig langaði að gera var að fara í flugnám, og vorum við því flutt aftur heim ári síðar. Mánuði eftir heimkomu var ég byrjaður í flugnáminu.“

Hvað var skemmtilegast við námið?

„Almennt fannst mér flugnámið einstaklega skemmtilegt, leiddist ekkert í þessu námi. Verklegi hluti námsins var þó skemmtilegastur. Að fljúga eins og tveggja hreyfla vélum í sjón- og blindflugsaðstæðum á Íslandi er einstök upplifun sem ég elskaði hverja einustu mínútu af.“

En mesta áskorunin?

„Það sem mér fannst mest krefjandi við flugið voru bóklegu prófin en þau eru mjög krefjandi. Það þarf að þreyta 14 próf hjá flugskólanum og svo 14 próf hjá Samgöngustofu en í öllum þeim prófum þarf að ná 75% í einkunn með takmarkaðar tilraunir á takmörkuðum tíma.“

Var stefnan alltaf sett á að gerast atvinnuflugmaður?

„Ég var alltaf með stefnuna á atvinnuflugið þótt einkaflugið sé auðvitað frábært og mér finnst fátt skemmtilegra en að skella mér upp í rellu.“

Engir tveir dagar eins

Hvað er það sem heillar við flugmannsstarfið?

„Fyrir mér er þetta tvíþætt, í fyrsta lagi er einfaldlega bara ógeðslega gaman að fljúga. Og í öðru lagi er þetta bara svo áhugaverður, fjölbreyttur og skemmtilegur iðnaður sem er síbreytilegur og þar af leiðandi eru engir tveir dagar eins og finnst mér það mjög heillandi.“

Stundum er eins og flugbakterían sé bráðsmitandi og oft nokkrir í hverri fjölskyldu sem starfa við fagið. Var það þannig hjá þér, eða ertu sá eini í fjölskyldunni?

„Ég á enga náskylda ættingja í fluginu en á mjög góða vini í fluginu og hefur einn af mínum bestu vinum verið mín helsta fyrirmynd í faginu. Ég hef fengið mikla leiðsögn hjá honum í gegnum námið og ferilinn.“

Þessi fög hljóma eins og tvær andstæður, það er að segja jörðin og háloftin. Eiga þessi fög eitthvað sameiginlegt?

„Eins miklar andstæður og þetta eru hefur jarðfræðigráðan mín og reynsla af jarðfræði nýst mér furðumikið. Stærðfræði- og veðurfræðigrunnur minn úr háskólanum hefur reynst mér ómetanlegur í fluginu. Einnig hef ég þessa dagana verið að kenna flugmönnum hjá PLAY um eldstöðvakerfi landsins og hætturnar sem stafa af þeim. Og svo hef ég líka verið að vinna að endurbótum á ösku- og eldfjallahandbók flugmanna PLAY.“

Kaupmannahöfn stendur fyrir sínu

Ertu líka með ferðabakteríu?

„Ég hef alveg ferðast þó nokkuð um og er frekar duglegur að ferðast, því mætti kannski segja að ég sé með ferðabakteríu. Góð borgarferð með góðum vinum eða fjölskyldu er held ég samt sem áður mitt uppáhaldsferðalag.“

Áttu uppáhaldsborg eða land?

„Mjög erfitt að velja eina en fyrir mér stendur Köben alltaf upp úr, ég hef búið þar og get farið þangað endalaust, finn mér alltaf eitthvað nýtt að skoða eða gera.“

Til hvaða lands dreymir þig um að koma til?

„Mig hefur alltaf dreymt um að fara í tvær ferðir sem eru svona mínar „bucket list“-ferðir. Til Japans og þá sérstaklega að fara á snjóbretti í Japan. Svo væri ég einnig til í að fara í ferðalag þvert yfir Bandaríkin á húsbíl.“