Sigríður Margrét Oddsdóttir
Sigríður Margrét Oddsdóttir
Gerum fólki og fyrirtækjum kleift að gera raunhæfar framtíðaráætlanir, náum niður verðbólgu og sköpum skilyrði til vaxtalækkunar.

Sigríður Margrét Oddsdóttir

Á Íslandi er samfélagssáttmáli um jöfnuð. Jöfnuður mælist enda einna mestur hérlendis, hvort sem horft er til launadreifingar eða eignadreifingar. Sáttmálinn speglast ekki bara í þeim kjarasamningum sem við gerum heldur líka skattkerfinu okkar, tilfærslukerfunum og viðhorfi fólks. Rannsókn Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins í aðdraganda kjarasamninga sýnir að 50% aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins telji mikilvægast, næst mikilvægast og þriðja mikilvægast að leggja áherslu á sérstaka hækkun lægstu launa umfram almennar launabreytingar og 55% almennings eru sammála. Langsamlega mikilvægast af öllu hjá báðum hópum er þó að kjarasamningar stuðli að lækkun verðbólgu og vaxta.

Sérstök áhersla á hækkun lægstu launa, oft útfærð sem „krónutöluhækkun“, er vel skiljanleg í samfélagi sem leggur áherslu á jöfnuð. Þau sem hafa lægstu launin þurfa einna mest á kjarasamningsbundnum launahækkunum að halda, sérstaklega þegar verðbólga er mikil. Verðhækkanir á nauðsynjavörum og húsnæði vega þyngra í útgjöldum launalægri hópa en launahærri hópa. Þau eru líklegri til þess að fá greidd laun samkvæmt taxta, eru síður á markaðslaunum og njóta síður launaskriðs.

Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að launahækkanir í krónutölum eru líka hlutfallslegar launahækkanir þó þær séu mismiklar eftir hópum. Sagan sýnir að þær hlutfallslegu hækkanir sem eiga sér stað neðar í launastiganum skila sér upp stigann í formi launaskriðs þar sem fólk mun áfram krefjast umbunar fyrir aukna menntun, reynslu og ábyrgð. Þegar krónutölunálgun er höfð að leiðarljósi við gerð kjarasamninga eru kostnaðaráhrifin því oft vanmetin í upphafi.

Góð lífskjör eru ekki sjálfgefin

Ísland býður upp á bestu lífskjörin á marga virta mælikvarða. Fyrir hundrað árum síðan var Ísland eitt af fátækustu löndum Evrópu en í dag erum við með þeim ríkustu. Kynslóðunum á undan okkur – forverum mínum og þínum – tókst með vinnusemi, fórnum og framtíðarsýn að gjörbreyta lífsgæðum á Íslandi. Af því getum við öll verið stolt, en við verðum samt að halda vöku okkar, því staðan er fljót að breytast, verðbólgan étur upp kaupmáttinn og óstöðugleiki ógnar framtíðargæðum.

Við höfum val: við getum haldið áfram á sömu braut og fest verðbólguna í sessi eða við getum breytt um hegðun og tileinkað okkur ný vinnubrögð sem gera fólki og fyrirtækjum kleift að gera raunhæfar áætlanir um framtíðina. Komið í veg fyrir að reglulega myndist „snjóhengja“ sem þarf að leiðrétta með ærnum fjárhagslegum og tilfinningalegum tilkostnaði.

Stöðugleikaákvæði í samfélagssáttmálann

Við verðum að bæta stöðugleikaákvæði við sáttmálann um jöfnuð. Við verðum að læra að hugsa um tölur upp á nýtt þegar kemur að ákvörðunum um verð- og launabreytingar. Tími umhugsunarlausra verð- og launabreytinga er liðinn. Við þurfum að tileinka okkur nýja hætti og breyta hegðun, við höfum miklu að tapa og ekkert að vinna með óbreyttu ástandi. Það vita enda allir að þetta gengur ekki svona lengur.

Það er ekkert eðlilegt við það að laun og verðlag hækki árlega um 5-10%, það er einfaldlega merki um óstöðugleika og agaleysi. Auk þess er margsannað að innistæðulausar launahækkanir leiða til þess að meira verður á endanum minna – minna skilar sér í vasa launafólks og til fyrirtækja þegar upp er staðið.

1-3% og 2-4%

Það er miklu nær að verðlag hækki um 1-3% árlega og laun um 2-4%, enda er það í samræmi við þau lönd sem við berum okkur saman við. Það er í samræmi við þá verðmætaaukningu sem við sjáum í hagtölum undanfarinna áratuga. Það er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og það er í fullkomnu samræmi við mat almennings og aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins um það svigrúm sem sé til launahækkana í áðurnefndri rannsókn Gallup, en miðgildi hópanna voru 2,5% og 3,5%.

Með slíkum stöðugleika snýst dæmið við og minna verður meira með auknum kaupmætti og með því að verðbólgubálið nærist ekki heldur þveröfugt. Það er kominn tími til þess að við hlustum á visku fjöldans, bætum stöðugleikaákvæði í samfélagssáttmálann um jöfnuð og göngum frá skynsömum kjarasamningum til lengri tíma. Gerum fólki og fyrirtækjum kleift að gera raunhæfar framtíðaráætlanir, náum niður verðbólgu og sköpum skilyrði til vaxtalækkunar. Það væri áramótaheit sem vit er í.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.