Hátíðirnar Fjölskyldur dvöldu í um 23 húsum í Grindavík yfir áramótin. Magni og fjölskylda glöddust er þau sáu fleiri skjóta upp flugeldum.
Hátíðirnar Fjölskyldur dvöldu í um 23 húsum í Grindavík yfir áramótin. Magni og fjölskylda glöddust er þau sáu fleiri skjóta upp flugeldum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta var frábært. Það var draumi líkast að fá að vera heima hjá sér um hátíðirnar,“ segir Magni Freyr Emilsson, málari og Grindvíkingur. Hann varði áramótunum heima hjá sér í Grindavík með eiginkonu sinni og fjórum börnum

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Þetta var frábært. Það var draumi líkast að fá að vera heima hjá sér um hátíðirnar,“ segir Magni Freyr Emilsson, málari og Grindvíkingur. Hann varði áramótunum heima hjá sér í Grindavík með eiginkonu sinni og fjórum börnum.

„Þetta hefði ekki getað orðið betra upp á sálarlífið og annað að gera,“ segir hann. „Þegar við komum inn í húsið þá fann maður fyrir ákveðnum létti.“

Ætla að dvelja áfram í bænum

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum greindi frá því 22. desember að Grindvíkingar mættu halda jólin heima hjá sér. Þá var Grindvíkingum jafnframt heimilt að verja áramótunum heima hjá sér og segist lögreglustjórinn telja að íbúar hafi gist í 23 húsum um áramótin. Spurður hvort áramótin hafi verið öðruvísi en þau sem hann er vanur svarar Magni því játandi. „Þetta voru ekki áramót sem maður hafði upplifað áður. Það voru fáir í bænum.“

Magni og fjölskylda hans hafa dvalið í Grindavík frá 27. desember og ætla þau að vera þar þangað til annað kemur í ljós. Hann segir fjölskylduna hafa fundið fyrir öryggi þegar þau fengu að fara heim til sín.

„Ef maður myndi telja sjálfur að það væri einhver hætta sem ógnaði manni að fara í bæinn, þá hefði maður aldrei farið. Maður myndi aldrei setja sjálfan sig eða sína allra nánustu í hættu til að vera heima hjá sér.“

Aðspurður segir Magni flugeldum hafa verið skotið upp í bænum þrátt fyrir ástandið. „Maður sá um tólfleytið að það voru fleiri en maður bjóst við í bænum.“ Hann segir fjölskylduna hafa glaðst yfir því að sjá fleiri íbúa í bænum.

Bærinn muni fyllast aftur

Magni byrjaði árið á að fara út að hlaupa með hundinn sinn um Grindavík. „Ég fer inn í þetta ár með bjartsýni í huga og hjarta,“ segir hann spurður hvernig hann fer inn í nýtt ár. „Ég veit það fyrir víst að bærinn mun á næstu dögum og vikum fyllast af íbúum aftur og við munum leggja hönd á plóg og byggja bæinn eins og hann var,“ segir hann.

Magni segir Grindvíkinga sem hann hefur rætt við fara með sama hugarfar inn í nýja árið. „Ég hef enga trú á öðru, þetta er sterkt bæjarfélag og samheldið.“