Frost Vegfarandi á gangi í Peking. Bóla hefur blásið út í Kína.
Frost Vegfarandi á gangi í Peking. Bóla hefur blásið út í Kína. — AFP/Noel Celis
Verð nýrra íbúða í Kína hækkaði lítillega í desember og var það fjórði mánuðurinn í röð sem markaðurinn var ekki á niðurleið. Að sögn Reuters mældist verðhækkunin í desember 0,1% á milli mánaða og 0,05% í nóvember

Verð nýrra íbúða í Kína hækkaði lítillega í desember og var það fjórði mánuðurinn í röð sem markaðurinn var ekki á niðurleið. Að sögn Reuters mældist verðhækkunin í desember 0,1% á milli mánaða og 0,05% í nóvember.

Eins og Morgunblaðið hefur fjallað um blés gríðarmikil fasteignabóla út í Kína undanfarinn áratug og frá árinu 2021 hefur bólan sýnt merki þess að vera við það að springa. Undanfarin tvö ár dró verulega úr hækkunum á markaðinum og á tímabili fór fasteignaverð lækkandi, en kínversk stjórnvöld hafa reynt af krafti að örva fasteignamarkaðinn og afstýra því að hann hrynji með látum.

Má m.a. rekja hækkunina að undanförnu til þess að borgaryfirvöld í Peking og Sjanghaí ákváðu í nóvember að hækka leyfilegt lántökuhlutfall vegna kaupa fólks á bæði sinni fyrstu og annarri íbúð. Ekki er hægt að skrifa hækkunina á aukna bjartsýni meðal kínversks almennings en frá því snemma árs 2022 hafa viðhorfsmælingar sýnt að Kínverjar eru almennt meira svartsýnir en bjartsýnir á efnahagshorfur landsins. ai@mbl.is