Erling Laufdal Jónsson fæddist í Reykjavík 21. desember 1954. Hann lést á sjúkrahúsi í Taílandi 2. desember 2023.

Foreldrar Erlings voru Jón Kristinn Tómas Ólafsson frá Leirum undir Eyjafjöllum, verkamaður, sjómaður og síðar verslunarmaður í Reykjavík, f. 14. ágúst 1910, d. 25. júlí 2023, og Guðlaug Ragnheiður Guðbrandsdóttir frá Stardal í Kjós, húsfreyja, f. 18. mars 1921, d. 27. febrúar 1966.

Börn Erlings eru: 1) Ragnheiður Laufdal Erlingsdóttir, f. 1979, eiginmaður Haukur Örn Davíðsson, f. 1977, og börn þeirra eru Davíð Aron, f. 2009, Brynjar Laufdal, f. 2011 og Kristófer Darri, f. 2014. 2) Brynjar Laufdal Erlingsson, f. 1982, eiginkona, Lilja Kristín Dagsdóttir, f. 1983, og börn þeirra eru Ísabella, f. 2009, Björn, f. 2019 og Kristján Aron, f. 2021. 3) Hulda Margrét Erlingsdóttir, f. 1994. 4) Erling Laufdal Erlingsson, f. 2003. 5) Telma Laufdal Erlingsdóttir, f. 2009.

Systkini Erlings eru Sirrý Laufdal Jónsdóttir, f. 1940, Ólafur Laufdal Jónsson, f. 1944, d. 2023, Trausti Laufdal Jónsson, f. 1947, Hafdís Laufdal Jónsdóttir, f. 1949, Stefán Laufdal Gíslason, f. 1964.

Erling ólst upp í Reykjavík. Hann byrjaði ungur að vinna til sjós og síðar starfaði hann við eigin rekstur. Hann rak veitingastaðinn Nautið í Keflavík, síðar framleiddi hann meðal annars pítsur undir því merki sem seldar voru í matvöruverslanir en það þótti nýjung á þeim tíma. Lengst af rak hann sælgætisgerðina Völu. Eftir að hafa selt sælgætisgerðina Völu dvaldist hann löngum stundum í Taílandi þar sem hann lést eftir stutt veikindi.

Minningarathöfn fór fram í kyrrþey 29. desember 2023.

Elsku pabbi minn er látinn eftir stutt veikindi. Nokkrum vikum áður en hann lést hafði hann rætt við mig um að hann langaði að koma heim til Íslands og komast þar undir læknishendur en heilsunni hrakaði mjög hratt eftir það svo hvorki heilsa né tíminn leyfði það.

Ung að árum var ég byrjuð að vinna hjá honum við að selja sælgæti á hinum ýmsu mörkuðum. Það var alltaf nóg hægt að gera í sölustörfum þar sem pabbi rak sælgætisgerðina Völu í rúm 20 ár og á ég margar góðar minningar þaðan og af því góða starfsfólki sem vann hjá honum.

Pabbi hafði alltaf gaman af því að segja sögur enda mjög góður sögumaður sem kunni að færa mátulega í stílinn þegar á þurfti að halda og hann þreyttist aldrei á því að rifja upp gamla tíma. Hann elskaði tónlist og skiptumst við oft á að senda hvort öðru góð myndbönd til að hlusta á í gegnum Messenger-forritið.

Pabbi glímdi lengi við alkóhólisma og var Bakkus alla tíð hans helsti óvinur sem tók frá honum það sem hann elskaði alla tíð mest, fjölskylduna sína, en þrátt fyrir það áttum við pabbi alltaf gott samband.

Síðustu árin þegar hann kom til Íslands dvaldi hann hjá okkur fjölskyldunni í nokkrar vikur í senn. Það var tími sem hann elskaði mjög mikið enda var hann þá umkringdur barnabörnum og fjölskyldu sinni. Hann naut þess mjög að fá íslenskan heimilismat, fylgjast með daglegu amstri okkar fjölskyldunnar, segja strákunum okkar sögur og áttu hann og okkar yngsti strákur sérstaklega gott samband því honum fannst mjög gaman að sækja jökul fyrir afa sinn. Jökull var það kallað þegar pabbi vildi fá ískalt vatn og þótti það mikið sport að ná í jökul.

Pabbi elskaði að fara á rúntinn og keyra um miðbæinn, segja okkur sögur frá æskuárum sínum. Á rúntinum bauð hann alltaf upp á Bæjarins bestu pylsur og auðvitað var komið við í ísbúð til að fá sér ís, alltaf ís í brauðformi.

Ég kveð elsku pabba minn þar sem hann hefur nú fengið hvíldina góðu en góðar minningar lifa í hug og hjarta okkar fjölskyldunnar.

Nú ertu horfinn í himnanna borg

og hlýðir á englanna tal.

Burtu er kvíði, sjúkdómur, sorg

í sólbjörtum himnanna sal.

Þeim öllum sem trúa og treysta á Krist

þar tilbúið föðurland er.

Þar ástvinir mætast í unaðarvist

um eilífð, ó, Jesú, hjá þér.

(Ingibjörg Jónsdóttir)

Þín

Ragnheiður.

Ég minnist ennþá okkar fornu kynna,

og ennþá man ég ljómann drauma þinna,

er bernskan móti báðum okkur hló.

Hver dagur nýrri frægð og frama spáði,

og fögur, mikil verk þinn hugur þráði.

Á köllun þína engum efa sló.

(Tómas Guðmundsson)

Elsku bróðir minn og mágur Erling Laufdal Jónsson er fallinn frá, hann lést í Taílandi 2. desember síðastliðinn eftir stutta en snarpa sjúkralegu.

Góðar minningar streyma nú fram og hugur leitar til bernsku okkar. Ég var fimm ára gömul þegar Erling bróðir minn fæddist og þótti mér strax vænt um litla bróður minn og hann varð upp frá því stór partur af mínu lífi. Bíóferðirnar eru einstaklega minnisstæðar þar sem foreldrar okkar gáfu okkur fyrir tveimur bíómiðum akkúrat og enginn afgangur fyrir nammi en ég dó ekki ráðalaus heldur keypti ég einn miða fyrir okkur bæði og nammi fyrir afganginn svo ég sat undir Erling bróður mínum í mörg ár þangað til starfsmaður stoppaði okkur því hann var orðinn of stór til að halda á honum, þar með hvarf nammið. Önnur ljúf minning er frá ísbúðaferðunum en það kom aðeins ein ísbúð til greina en Dairy Queen-ísbúðin átti hug okkar allan. Þá er minnisstætt að á hverjum sunnudegi fórum við í sunnudagaskóla til að syngja og hlusta á sögur af Jesú en aðalmálið var að safna Jesúmyndunum sem við fengum fyrir mætinguna en það varð fjársjóður okkar.

Við fráfall móður okkar hugsaði ég mikið um litla bróður minn eins og systkini mín öll. Erling var augasteinninn minn og seinna vann ég með honum í Völu/Völusælgæti og voru kókosbollur og lakkrís okkar ær og kýr. Erling var fæddur sölumaður, hann var stórhuga og hugmyndirnar sem hann fékk voru margar og góðar.

Við hjónin unnum hjá Erling um árabil og ferðuðumst einnig með honum og stórfjölskyldunni til Spánar og Ítalíu og eru margar góðar minningar frá þessum ferðum enda var Erling skemmtilegur maður með mikinn húmor.

Síðustu ár bjó Erling í Taílandi og samverustundum fækkaði. Við minnumst með þakklæti okkar síðustu samverustunda í desember fyrir ári þegar Erling kom síðast heim. Við áttum góðar stundir með honum, Ragnheiði og Hafdísi barnsmóður hans.

Við ætlum ekki í þessum fátæklegu orðum að skrifa ævisögu Erlings, aðeins þakka samfylgdina í gegnum árin.

Elsku Erling bróðir og mágur, við þökkum þér samfylgdina og óskum að friður Guðs þig blessi, og hafðu þökk fyrir allt og allt. Samfylgd og samverustundir allar þökkum við, minningin fyllir hugann birtu og yl.

Við sendum börnum Erlings, tengdabörnum og afabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hugur okkar er hjá ykkur og ástvinum Erlings.

Guð blessi minninguna um elsku litla bróður minn og mág.

Bróðir, við fylgjum

hinstu spor í heimi,

vildum svo fegin þér leggja lið.

Enginn það vissi

að þín stund var komin

með hinstu lækning, hinsta frið.

(Hulda)

Hafdís systir og
Aðalsteinn (Alli).

Elsku Erling frændi, það eru margar ljúfar og skemmtilegar minningar sem við systur eigum um þig og gömlu góðu dagana. Margar af þessum minningum eru tengdar kókosbollum, lakkrís og Völu-sælgæti. Þá unnum við systur þér við hlið á mörgum bæjarhátíðum og seldum candy floss.

Þú varst alltaf stórhuga og með stóra drauma. Við munum vel eftir El Toro-pítsunum sem þú framleiddir ásamt veitingastaðnum Á rúntinum þar sem þjónar staðarins voru á hjólaskautum.

Mamma okkar syrgir litla bróður sinn sem hún vann með til margra ára og við erum þakklát fyrir að þið áttuð góða tíma saman þegar þú komst heim fyrir ári.

Við vottum börnum Erlings, tengdabörnum og afabörnum okkar dýpstu samúð. Hugur okkar er hjá ykkur.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Valdimar Briem)

Jóna og Regína Laufdal Aðalsteinsbörn.

Elsku hjartans frændi.

Það er þungt að kveðja góðan vin en þegar ég hugsa til þín þá kemst ég ekki hjá því að brosa.

Við eigum saman svo dýrmætar minningar sem ég mun varðveita alla mína ævi. Ég veit líka í hjarta mínu að þú munt taka hlýtt á móti mér þegar þar að kemur og ef ég þekki þig rétt þá setjum við Rolling Stones og Abba undir nálina og gerum okkur glaðan dag eða tvo.

Ofarlega í huga eru bíóferðirnar sem þú fórst með okkur Brynjari í og hvað þú varst alltaf svo fyndinn og skemmtilegur. Lífsgleðin þín var svo smitandi og reyndi ég að tileinka mér þetta þegar ég var orðinn eldri og geri enn.

Efst í huga mínum er ferðin sem að við Brynjar fengum að fara með þér til Hveragerðis og fara í tívolíið í stóra ameríska skrjóðnum þínum. Meira að segja bíllinn þinn var framandi og spennandi fyrir lítinn strák. Þú réttir okkur bláan seðil og við Brynjar héldum að við gætum bara sest í helgan stein fyrir svona mikinn aur. En viti menn, sá blái var ekki lengi að hverfa í tívolíinu og ekki leið á löngu þar til við komum hlaupandi til baka með bænarsvip, orðnir auralausir, og þá var ekki að spyrja að því. Frændi rífur upp annan bláan.

Peningar einir og sér eru ekki merkilegur pappír en hugurinn og gjafmildin var svo einlæg og sagði mér meira en þúsund orð. Frændi minn elskar okkur svo mikið.

Um kvöldið þegar að við ætlum okkur að keyra til Reykjavíkur þá hefur snjóað svo mikið að það er orðið ófært. Þá voru góð ráð dýr en þú áttir góðan vin í Hvergerði sem tók á móti okkur af hlýhug og allt í einu var þessi ferð, sem átti að vera nokkrir klukkutímar, búin að breytast í heila nótt.

Okkur Brynjari fannst það ekkert lítið spennandi og ekki skemmdi fyrir að við „þurftum“ að fá frí í skólanum daginn eftir. Þvílíkt ævintýri.

Þegar fór að rökkva og við sonur þinn vorum búnir að hlusta á Jólahjól svona 120 sinnum kallar þú á okkur inn í stofu. Þar situr þú í öllu þínu veldi við einhvers konar skrýtið borð með allskonar fígúrum á. Þetta var skákborð og þetta fallega vetrarkvöld kenndir þú mér að tefla.

Þú ert fyrsta manneskjan í mínu lífi sem ég man eftir að hafa talað við mig eins og manneskju, ekki barn. Það fannst mér rosalega merkilegt, að fullorðin manneskja væri ekki að tala niður til mín heldur komið fram við mig sem jafningja.

Það er svo sárt að sakna en ég veit að þú ert kominn heim í faðm mömmu þinnar og ástvina. Takk fyrir samveruna og vináttuna frændi minn.

Ég ætla mér út að halda,

örlögin valda því.

Mörgum á ég greiða að gjalda,

Það er gömul saga og ný.

Guð einn veit hvert leið mín liggur,

lífið svo flókið er.

Oft ég er í hjarta hryggur

en harka samt af mér.

Eitt lítið knús elsku mamma,

áður en ég fer,

nú er ég kominn til að kveðja,

ég kem aldrei framar hér.

Er mánaljósið fegrar fjöllin

ég feta veginn minn,

dyrnar opnar draumahöllin

og dregur mig þar inn.

Ég þakkir sendi, sendi öllum,

þetta er kveðjan mín.

Ég mun ganga á þessum vegi

uns lífsins dagur dvín.

(Einar Georg Einarsson)

Trausti Laufdal
Aðalsteinsson.