Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks segist sammála öllum sjálfstæðismönnum um að horfast þurfi í augu við rót vandans í orkumálum, þegar hún er spurð um afstöðu til ummæla Jóns Gunnarssonar

Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks segist sammála öllum sjálfstæðismönnum um að horfast þurfi í augu við rót vandans í orkumálum, þegar hún er spurð um afstöðu til ummæla Jóns Gunnarssonar. Er haft eftir honum í viðtali á fréttavef Viljans að hann vilji mynda þingmeirihluta um raforkumál vegna yfirvofandi orkuskorts.

„Það sýndi sig í því frumvarpi sem við vorum að eiga við rétt fyrir jól um neyðarráðstöfun og forgangsröðun orku, að grunnvandinn er að við þurfum meiri orku,“ segir hún og bætir við að allir þurfi að setjast niður við sama borð.

„Við þurfum að halda því samtali áfram og það verður áhugavert að sjá hvar hinir flokkarnir á þingi munu staðsetja sig í þeirri umræðu þegar á reynir. Það er gömul saga og ný að vilja tala almennt um ýmis mál en við stöndum frammi fyrir nauðsyn þess að umræðan verði meira afgerandi og það verður forvitnilegt að sjá hvar flokkarnir munu staðsetja sig í því.“

Margir flokksmenn Sjálfstæðisflokks nefni það mál ásamt öðrum varðandi fýsileika þess að mynda nýjan meirihluta.

„Það er þannig í stjórnmálum að maður myndi auðvitað helst geta myndað ríkisstjórn um þá sýn eingöngu sem maður sjálfur aðhyllist. Það er verkefni okkar í stjórnmálum að reyna að gera meira gott en ekki. Það er því ábyrgðarhluti okkar að spyrja í sífellu hvort við náum að gera meira gott en ekki í því ríkisstjórnarsamstarfi sem er augljóst öllum að inniheldur ákveðinn áherslumun á hvað sé samfélaginu fyrir bestu. Þetta ríkisstjórnarmynstur er krefjandi en fékk endurnýjað umboð í síðustu kosningum og er því núna komið á sjöunda ár, sem er langur tími í öllum samanburði.“