Guðni Th. Jóhannesson hættir sem forseti Íslands, samanber yfirlýsingu hans í nýársávarpi í gær um að hann yrði ekki í endurkjöri þegar öðru kjörtímabili hans lýkur nú í sumar. Þar minnti hann á að í framboði sínu 2016 hefði hann sagst ætla að vera…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Guðni Th. Jóhannesson hættir sem forseti Íslands, samanber yfirlýsingu hans í nýársávarpi í gær um að hann yrði ekki í endurkjöri þegar öðru kjörtímabili hans lýkur nú í sumar. Þar minnti hann á að í framboði sínu 2016 hefði hann sagst ætla að vera ekki lengur í embætti en þrjú kjörtímabil, það er tólf ár. Nú eftir átta ár hefði hann hugleitt að sækjast eftir endurkjöri eitt tímabil enn, en ákveðið eftir vandlega íhugun að láta hjartað ráða og láta staðar numið nú. Hann haldi nú sáttur á braut innan tíðar, þess fullviss að Íslendingum muni auðnast að kjósa sér forseta sem þeir una við.

Kjörtímabil forseta rennur út 31. júlí í sumar, en áður en að því kemur munu landsmenn í kosningum hafa valið sér nýjan fulltrúa í embættið.

Með ákvörðun sinni verður Guðni Th. Jóhannesson sá þjóðhöfðingi sem skemmst hefur setið. Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, sat í sjö og hálft ár, það er frá 17. júní 1944 til dánardægurs í febrúar 1952. Áður var hann í þrjú ár, það er frá 1941-1944, ríkisstjóri og fór þá með embættisskyldur Danakonungs á Íslandi. Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir gegndu hvort um sig embætti í sextán ár, Kristján Eldjárn var forseti í tólf ár og Ólafur Ragnar Grímsson í 20 ár.

Margir virðast sjá eftir Guðna sem forseta, samanber umræður á félagsmiðlum í gærdag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talaði á þeim nótum við mbl.is í gær. Sjálf kveðst hún ekki vera að íhuga framboð. Birgir Ármannsson forseti Alþingis segist hefði viljað að Guðni sæti áfram, en virða beri persónulega ákvörðun hans.

Ýmsar fleiri breytingar á skipan í helstu embætti landsins eru nú fram undan. Einar Þorsteinsson tekur við sem borgarstjóri í Reykjavík 16. janúar. Þá verður biskupskjör í mars og í Morgunblaðinu í dag er rætt við tvo presta í þjóðkirkjunni sem segjast tilbúnir að gefa kost á sér fái þeir tilskilinn fjölda tilnefninga. Tvær konur í prestastétt höfðu áður gefið sig fram og vilja vera í kjöri. » 11