Á Akranesi Kór Akraneskirkju. Hilmar Örn Agnarsson, organisti og kórstjóri, fremst til hægri.
Á Akranesi Kór Akraneskirkju. Hilmar Örn Agnarsson, organisti og kórstjóri, fremst til hægri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kór Akraneskirkju verður með nýárstónleika í Bíóhöllinni á Akranesi klukkan 20 á morgun, miðvikudaginn 3. janúar. Einsöngvararnir Björg Þórhallsdóttir sópran, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran og Kristján Jóhannsson tenór syngja með kórnum en Hilmar Örn Agnarsson, organisti kirkjunnar, er kórstjóri

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Kór Akraneskirkju verður með nýárstónleika í Bíóhöllinni á Akranesi klukkan 20 á morgun, miðvikudaginn 3. janúar. Einsöngvararnir Björg Þórhallsdóttir sópran, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran og Kristján Jóhannsson tenór syngja með kórnum en Hilmar Örn Agnarsson, organisti kirkjunnar, er kórstjóri. Á efnisskrá eru vínartónlist og þekktar óperuaríur.

Kórstarf kirkjunnar hefur verið öflugt og metnaðarfullt og hefð er fyrir góðu kórstarfi. „Aðalhlutverk okkar er að syngja við kirkjuathafnir,“ segir Rún Halldórsdóttir, formaður kórsins. Þá sé hópnum þrískipt en tvískipt á stórhátíðum. „Við höfum verið 40 til 50 í kórnum að undanförnu og yfirleitt hefur verið vel mannað í öllum röddum.“

Alþingi samþykkti fyrir jól að bæta Kristjáni Jóhannssyni óperusöngvara í hóp listamanna sem fá heiðurslaun. „Ég er mjög snortinn og þakklátur,“ segir hann og bætir við að gaman sé að hefja nýtt ár með því að syngja með Kór Akraneskirkju á tónleikum á Akranesi.

Byrjaði í kór

Ferill Kristjáns hófst á Akureyri. Þar söng hann með ýmsum kórum og síðar lá leið hans í stærstu óperuhús heims. „Ég söng á Akranesi þegar ég var ungur maður en hef ekki sungið þar í marga áratugi. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég syng með kórnum og ég er mjög spenntur fyrir því.“

Kristján segir að enginn munur sé á því að syngja með atvinnumönnum og áhugafólki. „Allir reyna alltaf að gera sitt besta, hvort sem þeir eru í kór, einsöngvarar eða stórlistamenn, og á Akranesi verð ég einn af hópnum. Ég byrjaði í kór og ber mikla virðingu fyrir kórfélögum. Mottóið mitt er að koma vel fram við alla og sýna þeim virðingu.“

Venjulega eru kóræfingar einu sinni í viku en oftar vegna stærri verkefna eins og jóla- eða nýárstónleika, vortónleika og annarra viðburða. Hilmar Örn stjórnar einnig Söngfjelaginu og héldu kórarnir sameiginlega tónleika í haust, þar sem þeir fluttu Requiem Faurés í Kristskirkju. „Við sinnum bæði kirkjulegu og veraldlegu efni,“ segir Rún.

Rún er svæfingalæknir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Hún bjó áður í Noregi en flutti á Akranes 2004 til að taka við starfinu og gekk þá í kórinn. „Ég var alltaf í tónlistarnámi þegar ég var ung og fór í kórinn til að uppfylla tónlistarþörfina.“

Kórinn hefur sungið víða heima og erlendis og fór til dæmis í vikusöngferðalag til Norður-Ítalíu í júní. „Við förum gjarnan í vorferð þar sem við sameinum skemmtun og söng.“