Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson ásamt einum aðstoðarmanna sinna, Merron Gordon frá Jamaíka, á æfingu jamaíska landsliðsins.
Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson ásamt einum aðstoðarmanna sinna, Merron Gordon frá Jamaíka, á æfingu jamaíska landsliðsins. — Ljósmynd/JFF.football
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson hefur gert góða hluti með karlalandslið Jamaíka frá því hann tók við stjórnartaumunum hjá landsliðinu í september árið 2022. Heimir, sem er 56 ára gamall, hafði stýrt Al-Arabi í Katar í þrjú ár áður en hann lét af störfum sumarið 2021

Jamaíka

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson hefur gert góða hluti með karlalandslið Jamaíka frá því hann tók við stjórnartaumunum hjá landsliðinu í september árið 2022.

Heimir, sem er 56 ára gamall, hafði stýrt Al-Arabi í Katar í þrjú ár áður en hann lét af störfum sumarið 2021.

Hann var svo án starfs í rúmlega ár áður en hann sneri aftur á knattspyrnuvöllinn en hann hefur einnig stýrt karla- og kvennaliði ÍBV á þjálfaraferlinum, ásamt því að stýra íslenska karlalandsliðinu.

Hann var aðstoðarþjálfari Lars Lagerbäcks með liðið frá 2011 til 2013, hann og Lagerbäck stýrðu landsliðinu svo saman frá 2013 til 2016 þar til Svíinn lét af störfum og Heimir stýrði liðinu svo einn til 2018 áður en hann lét af störfum.

Undir stjórn Heimis komst Ísland á tvö stórmót, EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018, en hann hefur nú þegar komið Jamaíka í Ameríkubikarinn (Copa America) 2024, í undanúrslit Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku, sem verða leikin í mars, og undanúrslit Gullbikarsins 2023.

Stór verkefni framundan

„Þetta hefur verið mikil og dýrmæt reynsla en á sama tíma hefur þetta verið erfitt líka,“ sagði Heimir í samtali við Morgunblaðið.

„Menningin hér er ólík þeirri sem við þekkjum og það er ýmislegt, þegar kemur að innviðunum, sem þarf að laga ef svo má segja. Árangurinn inni á vellinum hefur því verið framar vonum og það er mikil ánægja með gengi liðsins hjá knattspyrnusambandinu. Við unnum riðilinn okkar í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku og mættum Kanada í átta liða úrslitum keppninnar. Kanada á að vera betra lið en við á pappír og hefur staðið sig betur en við síðustu ár og því var mjög gaman að leggja þá að velli í þessu einvígi.

Sigurinn gegn Kanada tryggði okkur ekki einungis sæti í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar heldur líka sæti í Suður-Ameríkubikarnum 2024 sem verður sá stærsti sem haldinn hefur verið hingað til. Árangurinn hefur í raun komið okkur á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilinn en hann er engu að síður mjög ánægjulegur og það er virkilega gaman að fara inn í nýtt ár þar sem þessi tvö stóru og spennandi verkefni eru framundan,“ sagði Heimir.

Eina sem skiptir máli

Heimir stýrði sínum fyrsta leik sem þjálfari Jamaíka í vináttulandsleik gegn Argentínu í New Jersey í september 2022 þar sem Argentína fagnaði sigri, 3:0, en fyrsti sigur liðsins undir stjórn Heimis kom gegn Trínidad og Tóbagó í Gullbikarnum í júní í sumar í Missouri þar sem Jamaíka vann 4:1.

„Ég myndi segja að árangurinn og aðferðafræðin til að byrja með hafi verið mjög svipað og þegar ég kom inn í þjálfarateymi íslenska landsliðsins á sínum tíma. Við þurftum að skoða hvaða möguleikar voru í boði til að byrja með og ég breytti mikið um lið og leikmenn sem kostar alltaf sitt þegar horft er til úrslitanna. Að auki lékum við gegn mjög sterkum andstæðingum í þessum vináttuleikjum og fyrstu mánuðirnir fóru í raun í það að greina helstu veikleika liðsins.

Við höfum hins vegar staðið okkur vel í þeim keppnisleikjum sem við höfum spilað þar sem við höfum unnið sjö þeirra, gert þrjú jafntefli og aðeins tapað tveimur þeirra og fyrir mér er það það eina sem skiptir máli. Jamaíka á fjölda leikmanna sem geta spilað fyrir þjóðina, leikmenn sem spila í Bandaríkjunum, á Bretlandi og í Kanada til dæmis. Þetta eru strákar sem eiga brottflutta foreldra frá Jamaíka og við eigum leikmenn út um allan heim. Það þyrfti helst sérstaka deild innan knattspyrnusambandsins til þess að fylgjast með öllum þessum strákum en þetta er lítið samband með lítið fjármagn á milli handanna og starfið hjá mér snýst að mörgu leyti um það að sníða okkur stakk eftir vexti og vinna með það sem hægt er að gera.“

Eru á réttri leið

Eins og Heimir kemur sjálfur inn á er nóg framundan hjá liðinu á árinu 2024 sem er nýgengið í garð.

„Við erum komnir í undanúrslit Þjóðadeildarinnar í fyrsta sinn sem er mjög merkilegur árangur. Suður-Ameríkubikarinn er eitthvað sem maður er mjög spenntur að taka þátt í líka og hann kemur hálfóvænt inn í þetta. Það var sem sagt ákveðið að breyta fyrirkomulaginu á keppninni og Norður- og Mið-Ameríka koma inn í hana til þess að gera keppnina stærri. Suður-Ameríkubikarinn verður haldinn í Bandaríkjunum og Kanada næsta sumar og er það hluti af undirbúningi þeirra fyrir heimsmeistaramótið árið 2026 sem fer fram þar og í Mexíkó. Norður- og Mið-Ameríka hagnast mikið á þessu enda er Suður-Ameríka sterkari karlamegin í fóboltanum.

Kvennamegin er þessu öfugt farið þar sem Bandaríkin og Kanada eru mjög sterk og þar fá liðin frá Suður-Ameríku tækifæri til þess að mæta þeim í Suður-Ameríkubikarnum. Það er hagur allra knattspyrnusambandanna að vinna saman að því að gera mótin sterkari og þetta stækkar þau líka sem gerir þeim kleift að fá meira út úr þessum stórmótum. Markmiðið er að koma liðinu á heimsmeistaramótið 2026 en það er langur vegur framundan og það þarf ýmislegt að breytast ef við ætlum okkur á HM en við erum á réttri leið.“

Þurfa að nýta meðbyrinn

Líkt og Heimir kemur inn á er ýmislegt sem má betur fara en hann hefur myndað gott samband við leikmenn liðsins frá því hann tók við þjálfun liðsins.

„Einn af þeim hlutum sem betur mættu fara snýr að fjármagni og það þarf að leggja meiri peninga í það sem við erum að gera, sérstaklega ef við ætlum að bera okkur saman við þessar stærstu þjóðir í dag. Umgjörðin heilt yfir er frekar fátækleg hjá okkur og vellirnir eru ekki eins og best verður á kosið. Búningsaðstaðan sömuleiðis og þetta eru allt hlutir sem við þurfum að uppfæra á næstu árum ef við ætlum að taka skref fram á við þegar kemur að fótboltanum á Jamaíka.

Margir af leikmönnum liðsins spila í mjög sterkum deildum, til dæmis á Englandi, og þar eru æfingavellirnir til dæmis betri en keppnisvellirnir hérna. Við þurfum að hækka rána og vera klókir með þær úrbætur sem við ráðumst í.

Hvað leikmennina sjálfa varðar þá líður mér mjög vel með leikmannahópinn og þann stuðning sem ég hef fengið frá stjórninni. Ég hef myndað gott samband við leikmennina og ég reyni að vera alltaf í góðu sambandi við þá. Undanfarin ár hefur verið bæði neikvæð ára og umræða í kringum landsliðið enda hafa þeir í raun ekki náð neinum árangri þannig séð, allt frá því að þeir fóru á HM 1998 í Frakklandi.

Núna er umræðan og áran aðeins önnur, mun jákvæðari, og leikmenn og umboðsmenn hafa haft samband og margir eru spenntir að spila fyrir Jamaíka. Við þurfum að nýta meðbyrinn eins og best verður á kosið.“

Myndi gefa liðinu mikið

Jamaíka mætir Bandaríkjunum í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar 21. mars í Texas og þá leikur liðið í B-riðli Suður-Ameríkubikarsins næsta sumar ásamt Mexíkó, Ekvador og Venesúela.

„Þegar þú ert kominn í undanúrslit þá horfir þú auðvitað í það að vinna keppnina en hvort það sé raunhæft þarf svo bara að koma í ljós. Við þurfum góða frammistöðu í tveimur leikjum og eins og þetta horfir við mér þá eigum við 25% möguleika á því að vinna Þjóðadeildina og við förum með það hugarfar inn í þessi undanúrslit.

Suður-Ameríkubikarinn er svo annað dæmi og þar er ég aðeins að horfa í tímann sem ég fæ með leikmönnunum og starfsliðinu. Í heildina fáum við einn og hálfan mánuð saman og það er gríðarlega mikilvægur tími fyrir mig sem þjálfara þar sem ég get slípað hópinn saman. Ég fæ líka að kynnast leikmönnunum ennþá betur sem mun koma sér vel þegar við byrjum að undirbúa okkur fyrir undankeppni HM 2026.

Ég fann það sérstaklega núna, í undirbúningnum fyrir Gullbikarinn síðasta sumar, hversu miklu máli það skiptir að eyða alvöru tíma með leikmönnunum. Í þessum hefðbundnu landsleikjagluggum er tíminn ofboðslega knappur og ég fæ lítinn tíma með þeim. Við gætum náð þremur stórum mótum í röð, Gullbikarinn var síðasta sumar, Suður-Ameríkubikarinn verður í sumar og svo aftur Gullbikarinn árið 2025 og það myndi gefa mér og liðinu ótrúlega mikið. Ef við komumst svo á HM yrðu þetta fjögur stórmót í röð og það myndi gefa Jamaíka ofboðslega mikið.“

Stjórnleysið er verst

Heimir flutti ásamt fjölskyldu sinni til Jamaíka þegar hann tók við þjálfarastöðunni en þar er umhverfið öðruvísi en hann hefur áður vanist, bæði þegar kemur að hinu daglega lífi og svo samskiptum við fjölmiðla.

„Mér líður öðruvísi þarna en annars staðar, svo ég sé nú bara alveg hreinskilinn með það. Sumt er mjög jákvætt og svo er annað sem er neikvætt eins og gengur og gerist. Við fjölskyldan höfum það gott á Jamaíka og ég er heppinn að eiga fjölskyldu sem lifir og hrærist í fótbolta svo það sé nú sagt. Það er alltaf gaman að upplifa nýja hluti en ef við berum þetta saman við Katar til dæmis þá er þetta í raun svart og hvítt. Í Katar er öllum lögum og reglum fylgt og þar er mikið af boðum og bönnum á meðan Jamaíka er andstæðan. Það sem fer kannski verst í mann er stjórnleysið enda er ég þannig gerður að ég vil hafa lífið frekar innrammað og skipulagt.“

Allt öðruvísi fjölmiðlar

„Samband mitt við fjölmiðla hefur svo verið mjög gott. Fjölmiðlarnir hérna úti eru allt öðruvísi en annars staðar og fjölmiðlaumræðan fer að miklu leyti fram á samfélagsmiðlum. Þeir sem hafa áhuga á fótbolta eru flestir með rás á Youtube og þetta er allt saman mjög frjálslegt ef svo má segja.

Ef það er hægt að segja eitthvað um Jamaíkamenn þá myndi ég segja að þeir séu mjög skoðanaglaðir. Það þarf alls ekki að vera neikvætt þó það sé kannski ekkert sérstaklega jákvætt heldur, en þeir eru í það minnsta ekkert hræddir við að segja sína skoðun á hlutunum.“

Á erfitt með að gera ekki neitt

Heimir eyddi jólunum í Vestmannaeyjum og var mættur á tannlæknastofuna til að sinna sjúklingum sínum fljótlega eftir að hann sneri aftur til landsins.

„Sumir þjálfarar spila golf en mér finnst gott að mæta á tannlæknastofuna og sinna mínum sjúklingum. Það er í raun eina leiðin fyrir mig að taka hugann frá þjálfuninni. Ég fer stundum í hádegisgöngur líka og reyni að tæma hugann en það er gott að geta skipt alveg um starfsvettvang og ég tel mig vera heppinn hvað þetta varðar. Ég er lítið að spá í fótbolta þegar ég er að huga að tannheilsu annarra og ég er líka með marga viðskiptavini sem ég vil alls ekki missa.

Ég er þannig gerður að ég á erfitt með að gera ekki neitt og oftast þegar ég er á leiðinni í frí er ég búinn að fullbóka mig á stofunni. Ég get alveg viðurkennt að það fylgir þessu ákveðin geðveiki og kannski reynir maður að vera aðeins skynsamari í framtíðinni og vera í fríi þegar maður á að vera í fríi næst, hver veit,“ bætti Heimir Hallgrímsson við í samtali við Morgunblaðið.